laugardagur, október 25, 2008

Flottir

Já gott kvöld
Kallarnir búnir að vera flottir í dag..... Þvældumst eitthvað í dag og hugsuðum fyrst og fremst um það hversu ógeðslega þunnir við værum og komum engu gáfulegu niður. Þó svo að við náðum aðdraga Tobías af stað í gær þá var það eins og að draga með sér lík á lífið........ man ekki eftiar að hafa sagt orð við hann í bænum. Ætluðum í kvöld á stað sem Tobías er búinn að tala um í marga mánuði að væri toppstaður..... nei nei, löngu búið að loka búllunni. Ætluðum að borða með Guðsgöfflunum þar en báðum svo taxann að taka okkur á flottan stað. Enduðum með því að fara á stað sem New Yourk Times segir að sé besti veitingastaður í Budapest. Ég mætti þarna í John Deere bol og þjónarnir hlógu að okkur út í eitt, því við kunnum engann veginn almennilega mannasiði og vorum eins og fífl þarna. Svo ætlaði Kóngurinn að sporðrenna paprikunni léttilega en það var hins vega rótsterkur pipar þannig að hann tók andköf, allir hlógu og þjónarnir með...... en kallarnir voru flottir og borguðu um 50þús. kellingar fyrir þetta. Við erum á leið á bankann.

föstudagur, október 24, 2008

Jó estét

Já gott kvöld


Drengirnri lentu í gær, og það var bara ein regla, og það var að fara ekki á strippbúllu. Sú regla var brotin strax í gærkvöldi. Okkur til björgunar ákvað reynslumuesti maðurinn í ást til kaups að kötta á verkefnið strax í fæðinug. En sökum einbeitts brotavilja sumra ferðalanga þurfti að beita ofbeldi og má með sanni segja að það stórsjái á Kónginum, enda var hann laminn með krepptum hnefa. Ég reyndi að fara niður rúllustiga sem fór upp á við...... það gekk ekki, ég villtist svo á starfsmannaklósettið í mallinu sem við voru í...... og af einhverjum ástæðum tókst mér að leiða strákana heim af strípistaðnum, en því miður slátraði Kóngurinn ruslafötu á leiðinni. Versta við þetta allt saman var að mér og Logan fannst eigandinn að strípistaðnum vera alveg toppnáungi sem mætti treysta, og ekki höfum við slæma dómgreind....... jú kannski við erum vinir Tobba.


En nú er Tobías dauður og um að gera að skála fyrir því!!

Íslandi allt

fimmtudagur, október 23, 2008

It´s the end of Budapest as we know it

Lítið af fólki á ferli, óeirðalögreglan búin að loka niður á aðalgötuna, þyrlur sveima yfir borginni...... og 2 tímar í að strákarnir lenda, þetta verður suddalegt.

Íslandi allt

föstudagur, október 17, 2008

Loftvarnir

Gott kvöld

Sá rétt í þessu að Össur Skarphéðinsson vill ekki að Bretar sinni loftvörnum fyrir Ísland, mikið óskaplega er það nú skemmtilegt. Í þessu eins og svo mörgu öðru finnst mér við Íslendingar vera að seilast um hurð til lokunar með því að fá útlendinga til að sinna þessu. Því er ég með þá tillögu um flugher Íslands, hann mun samanstanda af einni rellu, Hr. Tobías mun verða flugstjóri og Sprittarinn verður í faþegasætinu með haglarann grjóthlaðinn, feitann vindil í kjaftinum og bokku undir sætinu. Munu þeir sinna eftirlitsflugi yfir Íslandi á föstudögum frá kl. sextánhundruð þangað til Barinn opnar.
Óskaplega er nú fátt sem ég hef að segja frá sjálfum mér, ekki nema það að systir hennar Ölrúnar kom í heimsókn færandi hendi, því í fórum sínum hafði hún tóbaksdós, alveg himneskt. Helgin verður ömurleg þar sem það verður lærð lífeðlisfræði svo að ég geti einbeitt mér að öðru um næstu helgi...... og já ég er að fara í verklega líffærafræði í fyrramálið til að vinna upp tímann sem við missum næsta föstudag.
Já það er nefnilega 4 daga helgi eftir viku (Kóngurinn og Per kannast nú aldeilis við svoleiðis helgar) vegna þess að það er almennur frídagur á fimmtudaginn og svo gefið frí í skólanum á föstudag. Ég hlakka mikið til fimmtudagsins, því það er víst mikil óánægja með forsætisráðherrann hérna í Ungverjalandi og það verða mikil mótmæli, eðlisfræðikennarinn var að vara okkur við því í gær að vera á ferli. Í fyrra var víst skriðdreka stolið og hann keyrður eitthvað um borgina, og þá var ekki verið að mótmæla neinu, bara svona almenn fylleríslæti. Þannig að þetta ætti að vera áhugavert og ég mæti sko með upptökuvélina.
Íslandi allt

mánudagur, október 13, 2008

Má ég fá harðfisk.....

Já harðfisk með sméri....

Jú gott kvöld.

Var að koma af æfingu...... svo er bara ekki æfing fyrr en eftir viku, frekar mikil rólegheit. Átti ótrúlega óspennandi helgi þar sem ég sat við skrifborðið og las líffærafræði mest allann tímann. Jú svo auðvitað fylgdist maður með gangi mála heimafyrir.
Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn spenntur fyrir því að fara í hraðbankann til að sjá hvort Geir Gordon hafi allavega staðið við eitthvað og viti menn, ég náði pening út og það á þokkalegu gengi. En þegar ég pæli svona í því þá hef ég margoft farið í hraðbanka og ekki haft hugmynd hvort ég fái einhvern pening, og alltaf jafn kátur þegar peningur hefur komið.... beint á barinn.
Ég ætla að fara boycotta Bretland, var jafnvel að spá í að sniðganga ekki einungis breskar neysluvörur heldur líka t.d. enska boltann. Reyndar yrði þetta kannski eitthvað sem maður vissi ekki hvar ætti að byrja og hvar enda, ég ætla allavega að reyna mitt besta. Að sama skapi ætla ég að fara að styrkja Rússana og auka þar með neysluna á eftirtöldum rússneskum vörum:
  1. VODKA
Ég þarf svo sannarlega ekki á því að halda að Egill Helgason silfurhafi reiðist Jóni Ásgeiri fyrir mína hönd, ég er algjörlega fullfær um að gera upp hug minn til þessara manna sjálfur. Þetta eru fínir þættir hjá honum og allt það, en að þessi landbúnaðarhatari og 101 Krati slái sig til riddara og sé eitthvað að reiðast fyrir hönd þjóðarinnar er ekkert annað en hræsni.
Talandi um Krata, Ingibjörg Sólrún átti í dag hörkuinnlegg í umræðuna á mbl.is........... eða ekki.
Jolli var nú svo góður við mig að senda mér 3 fyrstu Dagvaktar þættina í gær og þann nýjasta núna rétt áðan. Eina vonda við það allt saman er að ég fæ alveg hrikalega heimþrá þega byrjunartrailerinn er spilaður, sjá bæina, kýrnar, landslagið, girðingarnar, stikurnar, þjóðveginn...... þá langaði mig pínu heim. 10 dagar í drengina.

Íslandi allt

föstudagur, október 10, 2008

Nostrovia

Ég segi nú ekki annað en bara.... púff, yfir þessu öllu saman.

Held að vonbrigðasvipurinn á mér hafi ekki leynt sér í gærmorgun þegar ég var að stökkva í skólann klukkan 9.30 að staðartíma, en ákvað að kíkja á mbl.is áður en ég slykki á tölvunni. Þá sá ég staðfestingu á falli Kaupþings, þagði og dæsti loks. Kvöldin í þessari viku eru eiginlega búinn að fara í að vera á mbl.is, visir.is og msn-ast og tala við fólkið heima, til að fylgjast með ástandinu. Þakka nú bara fyrir að það hitti svo á að á mánudagsmorguninn var ég búinn með reiðuféð mitt og fór því í hraðbankann og tók út þokkalegann skammt af forintum áður en allt opnaði vestan við mig, og þ.a.l. lokað á allar millifærslur.
En það er nú alltaf eitthvað sem getur létt manni lundina, sem dæmi þá var ég að labba í höfuðstöðvar ungverska póstsins í morgun og á Andrassy götunni var alskeggjaður róni með jólasveinahúfu, það fannst mér mjög skemmtilegt og tók ég mynd af honum með símanum mínum. Í hádeginu var hann ennþá með jólasveinahúfuna. En ástæðan fyrir ferð minni í aðalstöðvar póstsins var sú að kassi sem Gamli Sólheimahundurinn sendi mér fyrir all nokkru var þar staðsettur. Reyndar hafði hann víst komið á pósthúsið næst mér fyrir all nokkru, en ég fann nú bara miðann um það að ég ætti pakka, liggjandi á jörðinni í síðustu viku, og komst að því að kassinn var lagður af stað frá mínu pósthúsi áleiðis til Íslands. Sendi ég þeim póstverjum tölvupóst og sagði þeim frá raunum mínum, 2 dögum síðar fæ ég bréf í ábyrgðarsendingu frá höfuðstöðvum póstsins um að pakkinn hefði verið stöðvaður þar og ég gæti sótt hann innan 28 daga. Gerði ég það í morgun og er þá geitin Heiðrún frá Ánastöðum loksins komin upp á vegg í íbúðinni, og svo fékk ég harðfisk líka.
Spilaði fyrsta leikinn í gær með ÁSE Underdogs, sem er skólaliðið. Leikurinn verður nú seint sagður flottur en hann vannst 72-70, það er nú ekki tekin meiri tölfræði nema leikskýrslan þannig að eina sem ég veit var að ég skoraði 33 stig, held ég geri eins og Gústi Guðmunds og telji fráköstin mín í næsta leik. Hins vegar var nýtingin ekki góð, og ég var algjört svarthol, en maður verður að prófa ýmislegt. Svo er nú ekki leikur fyrr en eftir 3 vikur, og við missum 2 næstu fimmtudagsæfingar vegna þess að það eru einhverjir tónleikar í skólanum, þannig að það eru samt bara 3 mánudagsæfingar fram að næsta leik, sweet.
Það er orðið ljóst að ég kem heim seint 15. desember eða 16. desember í jólafrí, og ef mér tekst ekki að klúðra neinu þá fer ég ekki aftur fyrr en um mánaðarmótin janúar-febrúar.
Best ég endi þetta á orðum sem Gunnar í Glaumbæ sagði svo oft við mig hér á árum áður, og eiga svo réttilega við á þessum tímum, "Það er nú engin þörf á að kvarta meðan blessuð sólin skín".
Íslandi allt.

þriðjudagur, október 07, 2008

Gott að fólk hlustar á mig

Skagfirðingar geyma peningana í Kaupfélaginu

Nokkuð hefur borið á því síðustu daga að íbúar í Skagafirði taki peninga sína út úr bankastofnunum og leggi þá inn hjá innlánsdeild Kaupfélags Skagfirðinga. Sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson, sem er forsvarsmaður bændaviðskipta hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, staðfesti þetta í samtali við héraðsfréttablaðið Feyki. Kaupþing og Landsbankinn eru með útibú í Skagafirðinum. Skagfirðingar renna þó margir hverjir hýru auga til Kaupfélagsins, sem býður upp á 15,2 prósent vexti á opnum reikningi, og 6,8 prósent vexti auk verðtryggingar á lokaðri bók.

Tekið af visir.is

Íslandi allt

mánudagur, október 06, 2008

Ávarp

Kæru samlandar

Síðastliðnir dagar hafa verið æði sérstakir. Tilfinningin sem ég hef fengið við að sitja hér við Dónárbakka og fylgjast með fréttum heima á netmiðlum Íslands, er líkust þeirri tilfinningu sem ég fæ við að horfa á hádramatíska kvikmynd, svo ótrúlegar eru sumar fréttirnar. Þetta horfir sjálfsagt öðruvísi við ykkur flestum, verandi í miðri hringiðunni og finna fyrir þessu, alveg inn að beini.
Vissulega kemur ástandið sér illa fyrir efnahaginn á mínu heimili, það er auðvitað svona nokkuð þungur baggi að leigan sé búin að hækka um 20.000kr. en þar sem ég hef ekki ennþá tekið ákvörðun á lífsleiðinni sem hefur valdið því að ég hafi grætt pening, er ég í nokkuð góðri æfingu að tapa. Hinsvegar hef ég engar áhyggjur af því að við eigum ekki eftir að standa þennann storm af okkur, við höfum jú ennþá sterkar stoðir þjóðfélagsins til staða, eins og t.d. landbúnaðinn og Kaupfélag Skagfirðinga. Ég tók þá ákvörðun nú í dag að megnið af mínu sparifé sem var til staðar hjá Glitni verður fært þaðan og til innlánsdeildar Kaupfélags Skagfirðinga, hvet ég ykkur eindreigið til að gera slíkt hið sama.
Til þess að létta okkur lundina svona í lokin þá tilkynni ég það hér með að ég verð heima í Skagafirðinum nánast frá 20-21. des. til loka janúarmánaðar. Þarf að vísu að skjótast til Budapest og taka eitt próf þann 6. jan, en kem heim aftur eins fljótt og auðið er. Að sjálfsögðu mun ég taka skóna (vonandi báða í þetta skiptið) með mér heim og taka nokkra leiki með mínum gömlu félögum, og verð að viðurkenna að ég er orðinn helvíti spenntur fyrir þessu.

Íslandi allt

fimmtudagur, október 02, 2008

Gengið til góðs

Góðann dag kæru lesendur

Nei það er nú varla hægt að segja að gengið á íslensku krónunni séð til góðs þessa dagana, nema kannski fyrir sjómennina. En alveg er þetta magnað með ykkur þarna heima, ég má varla bregða mér aðeins frá, þá ráðið þið bara ekki neitt við neitt. Svo sá ég á mbl.is í gær að það er verið að spá því að ástandið gangi ekki yfir að fullu fyrr en eftir 4-5 ár, sem er náttúrulega eðlileg spá því þá kem ég heim aftur.

Varðandi Hvanneyringa í framhaldsnámi, þá væri það kannski ráð að Landbúnaðarháskólinn myndi hafa sérstakann áfanga um lífið í útlöndum, t.d. er Budapest ekki nema 4000 sinnum stærri en þorpið á Hvanneyri, þannig að það er ekki furða að maður kunni ekki að haga sér hérna. Kennari áfangans yrði Maríus Snær Halldórsson, heimsborgari.

Sá á heimasíðu Vegagerðarinnar að það er allt orðið hvítt á Vatnsskarðinu og Þverárfjallinu, dásamlegt alveg. Hérna hefur hitinn verið að hækka 2 síðustu daga, var í 18°C í dag og spáir 20°C á morgun. Fróðir menn segja mér að það sé u.þ.b. mánuður í veturinn... en ég er við öllu búinn, tók síðbrókina með mér.

Er að spá í að hvíla mig aðeins á borgarlífinu á laugardaginn, ætla að skoða gráa nautgripakynið þeirra Ungverja. Það væri náttúrulega skemmtilegast að taka lestina eitthvað austur á sléttuna miklu, en ef ég nenni því ekki þá tek ég lestina út fyrir bæinn og fer á dýraspítalann fyrir stór dýr sem skólinn rekur, einhvern hálftíma frá Budapest, þar eiga að vera nokkrir gripir.
Í dag eru 3 vikur í að drengirnir mæti, vorkenni samt Arnari og Loga að þurfa að vera með Tobíasi í flugvél í fleiri, fleiri klukkutíma.... ekki myndi ég nenna því.
Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð