mánudagur, mars 26, 2007

Símatími

Í tilefni þess að ég var að panta mér nýjan síma á netinu þá datt mér í hug að fara yfir glæsta sögu mína í meðhöndlun farsíma.

Fyrsti síminn sem ég fékk í mínar hendur var Ericson lánssími frá pabba en Hlunkur át loftnetið af honum. Sá fyrsti sem ég eignaðist var Nokia 6210 sem ég fékk í jólagjöf. Hann dugði nú ágætlega, en þurfti að vísu að fara í viðgerð 3 sinnum eftir ýmis högg og bank og man ég að Haukur Skúlason hafði einhvern tímann á orði að ég væri oftar með lánssíma úr símbúðinni heldur en minn eiginn síma. Einhverntímann var ég á balli í Sjallanum og týndi símanum en fann hann svo aftur og þá var skjárinn brotinn en ég setti glært límband yfir hann og endist hann í nokkurn tíma eftir það en hann gaf sig að lokum eftir að það hafði komist full mikil drulla meðfram límbandinu.

Þá var ákveðið að splæsa í 3510 og var það nú ágætis sími, nema það að eitt sinn þá lá ég í mestu makindum í sófanum í Víðimýrinni og setti símann ofan á brjóstkassann og fór svo að ég dottaði. Svo hringir blessaður síminn og ég sprett á fætur og síminn tekur flugið og lendir eitthvað harkalega og varð ekki samur upp frá því og endaði með því að hann dó. Reyndar fór hann einu sinni í viðgerð því á vordögum 2003 var ég að þökuleggja fótboltavöllinn heima og það gerði svo mikið moldrok að hann fylltist af drullu og varð ónothæfur.

Ég og Litli-Per vorum einu sinni í ruslatínslu út á Siglufjarðarskriðum og þá fann Per Nokia 6150 sem pabbi notaði í nokkra mánuði en ég tók til við að nota hann eftir að 3510 síminn gafst upp. En svo um sumarið 2004 keypti ég mér Nokia 3200. Hann endist nú ágætlega, varð fljótt drullugur eftir Vegagerðarvinnuna, titrarinn var hættur að virka en gerði sitt gagn. Svo á síðastliðnu Landsmóti Hestamanna þá tókst mér að týna honum og hafði hann þar með lokið þjónustu sinni.

Þá var fjárfest í Nokia 5140 sem keyptur var í Kaupfélaginu. Þetta var svona "iðnaðarmannasími" sem átti nú að þola ýmislegt en mér tókst að finna eitt sem hann þoldi ekki alveg. Á mjólkurbílstjórabuxunum er sérstakur vasi aftan á sem gerður er fyrir síma. Og svo var komið að því að þvo buxurnar og þá tók ég ekki eftir því að síminn var í símavasanum og hann fór með. Var nothæfur eftir þvottinn en hljóðið var að detta inn og út og svo endaði með því að 4-5-6 takkarnir hættu að virka og gafst ég þá upp. En í millitíðinni hafði gamli 3200 fundist og verið sendur til mín og gat ég þá notað hann. Allt þar til að ég þurfti að henda í þvottavélina og hélt á honum í hendinni sem hélt undir fatahrúguna og þegar ég henti hrúgunni inn í þvottavélina þá fékk sá gamli að fljóta með en hann lifði þvottinn alls ekki af.

Því hef ég notast við Ericsson garm sem hún Anna Heiða mágkona mín lánaði mér en þetta horfir nú allt til betri vegar þar sem í lok vikunnar ætti ég að vera kominn með svona Bluetooth Nokia síma með þráðlausu heyrnatóli, svona eins og alvöru atvinnubílstjórar.

Þar til síðar

mánudagur, mars 19, 2007

Syngur bassa í karlakór

Fékk miklar sorgarfréttir um daginn, tónleikar með Heimismönnum og ball með sjálfum fjármálastjóra Kaupfélagsins sem áttu að vera í lok þessa mánaðar í Logalandi í Reykholtsdal féllu niður. Sem er miður því þetta hefði bara verið snilld.

Ég vil nota tækifærið og óska Þorbergi og frú til hamingju með strákinn, kenningin mín um að barnið yrði stúlka stóðst ekki og það er kannski ágætt.

Ég var beðinn að skila því til Unnsteins að ræða bara við Baldur Björnsson ef honum langar að sjá myndasýningu með húsfreyjunni, ég held að hann viti símanúmerið.

Bætti inn nokkrum myndum af bleika herberginu hans Steingríms.

Þar til síðar

fimmtudagur, mars 15, 2007

Sæll Steingrímur

Vildi bara nota tækifærið og þakka honum Steingrími kærlega fyrir kveðjuna sem hann sendi mér í gegnum heimilissímann í Múlakoti í nótt. Jónína bað mig að skila því til þín að þú værir sennilega ekki hástökkvari vikunnar á vinsældalistanum þessa vikuna. En sem sárabót færðu mynd af þér Steingrímur minn.



Ég giska á að Hvolsvallarbasi verði álíka ferskur þegar hann vaknar á eftir eins og hann er á þessari mynd.

Þar til síðar

miðvikudagur, mars 14, 2007

Breytingar

Loksins græjaði ég þetta með slideshowið þarna hægra megin. Setti ekki texta með myndunum því það tók allt of mikið pláss. Fékk 2 myndir lánaðar hjá Höllu Kjartans af Ingimari á Flugumýri og nærmynd af Robbanum á Kúskerpi, og þakka henni kærlega fyrir það. Er síðan hættur með vinnukonurnar, allt of mikið vesen að vera uppfæra þetta og svo er líka komin húsfreyja á Ánastaði þannig að engin þörf er á vinnukonum lengur.

Þar til síðar

þriðjudagur, mars 13, 2007

Kæri Egill

Las pistil Egils Helgasonar þar sem hann er eitthvað að belgja sig yfir niðurstöðum könnunar BÍ sem hægt er að skoða hér neðar og í Eldri Mjöltum. Fyrstu setningar pistilsins lýsa greinilegri gremju yfir því að það sé til fólk hér á landi sem líkar vel að búa hér og telur þá samfélagssamsetningu sem við höldum í heiðri, sé af hinu góða.

Egill kemur inn á að stuðningur við landbúnaðarafurðir sé hvergi hærri en hér á landi, en sem dæmi má nefna að í þeim reiknistuðli sem notaður er til þess að bera stuðning saman milli þjóða er ýmislegt ekki tekið inn í sem aðrar Evrópuþjóðir nota sér til að styrkja sinn landbúnað, sem skekkir niðurstöðurnar okkur í óhag. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvað stuðullinn heitir en bendi þá á Harald Benidiktsson frá Vestri-Reyn.

Svo tekur Egill við að moka yfir landbúnaðarafurðirnar og nefnir þar fyrst nautakjötið. Ef hann hefði hundsvit á málinu vissi hann það að íslenski kúastofninn er ekki best til þess fallinn að nota til kjötframleiðslu, og hefur það verið mjög erfitt fyrir bændur að ætla að koma sér upp almennilegum stofnum sökum þess að nautakjötsframleiðsla hefur ekki notið styrkja í gegnum tíðina, sem hefur gert mönnum mjög erfitt að sérhæfa sig í þeirri búgrein.
Á fyrri hluta síðasta árs gerðist það að ráðamenn í Argentínu íhuguðu það alvarlega að minnka útflutning á nautakjöti þaðan til muna til að geta séð sínum eigin innanlandsmarkaði fyrir kjöti. Þetta olli ólgu í Danmörku og ég spyr hvað myndum við gera í slíkri stöðu ef við værum háð þessum aðilum.

Ég veit nú ekki betur en að íslenskir ostar hafi bara þótt nokkuð góðir, og þekki einn mann sem búsettur er í Danmörku sem er ekki í miklum vafa um hvora framleiðsluna hann myndi velja.

Svo fer greyið með mikla rangfærslu þegar hann segir að ekki sé hægt að kaupa afurðir beint af bændum. Sláturfélag Austarlands hefur í um 5 ár starfrækt vefinn austurlamb.is þar sem maður getur keypt lambakjöt beint af nokkrum bændum á austurlandi.

Agli líður greinilega vel í 101 Rvk. Honum líður vel svo lengi sem hann hefur internetið og geti pantað sér flugfar á icelandair.is til framandi landa. Það er mjög gaman að sjá hversu mikið í pirrurnar á honum það fer að til í landinu sé fólk sem vill skilgreina sig sem Íslendinga út frá sínum eigin forsendum, út frá sinni eigin sögu, út frá sinni eigin þjóðarsál og út frá sínu eigin landi. Hann er kannski bara einn af þeim sem vill skilgreina bændur sem fólk sem klæðir sig upp í lopann og gúmmískóna og fer upp á veg og veifar túristunum þegar það heyrir í bíl, ja maður spyr sig.

Þar til síðar.

sunnudagur, mars 11, 2007

Til hamingju með daginn

Vildi bara nota tækifærið og óska honum Friðriki Bjarnasyni nokkrum kærlega til hamingju með afmælið.

Þar til síðar

þriðjudagur, mars 06, 2007

Bændur rúl(l)a!!

Mikið voru nú niðurstöður könnunar Capacent fyrir Bændasamtök Íslands ánægjulegar fyrir mig og mína.


Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

79% telja að bændur beri litla eða enga ábyrgð á háu matarverði hér á landi.

74,7% sögðu gæði innlendra landbúnaðarvara meiri en erlendra. 2,3% töldu gæði innlendra landbúnaðarvara minni en erlendra.

93,8% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.

79,9% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.

61,8% aðspurðra eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir íslenskar en innfluttar landbúnaðarvörur.

Sérdeilis prýðilegt já já....

Svo var ég að heyra það að ástæðan fyrir því að Bónus gat boðið upp á "virðisaukaskattslækkun" fyrir 1. mars var sú að þeir píndu byrgjana til að lækka verðið áður en aðgerðir stjórnvalda komu til framkvæmdar, það er ekki að spyrja að þessum mörðum.

Þar til síðar

fimmtudagur, mars 01, 2007

Til hamingju með daginn


Þennann dag fyrir 94 árum fæddist í Stórholti í Fljótum í Skagafirði sjálfur Ólafur Jóhannesson sem síðar varð formaður Framsóknarflokksins, forsætisráðherra og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sambandið. Skál fyrir því

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð