fimmtudagur, mars 27, 2008

Í kvöld er ég sigli á sænum....

Sælt veri fólkið

Ég get nú því miður ekki sagt margar sögur af páskunum hjá mér. Ég fór reyndar í fjósið í Þverholtum á Mýrum og hef nú aldrei séð jafn margar mjólkurkýr samankomnar í einu á minni stuttu ævi. Tók eftir því að smiðirnir frá Landstólpa voru ennþá að vinna upp vitleysuna eftir Einar Kára frá því í sumar. Það var Austurrískur dýralæknir með í för og honum fannst einna merkilegast að sjá forystuféð á bænum, var hissa á að þetta kyn hafði ekki verið rannsakað meira.

Fór norður á laugardaginn og laugardags- og sunnudagskvöld voru tekin í það að horfa á bandaríska háskólakörfuboltann, en úrslitakeppnin er farin af stað þar og mikið af skemmtilegum leikjum á að horfa. Fyndið að hugsa til þess að margir af þessum strákum eru 5-6 árum yngri en ég og sennilega munu nokkrir fara að spila í NBA á næsta ári fyrir einhverjar hundruðir milljóna. Finnst það hálf súrrealískt að hugsa til framhaldsskólaáranna og setja mig í þeirra spor, en þegar ég var á þessum aldri var meira hugsað um hvort Land-Roverinn kæmist í lag fyrir næsta ball eða eitthvað álíka gáfulegt.

Ég skora á alla sem hafa möguleika á að skoða trukkinn hans Steingríms sem er loksins kominn á ról, hann er meira brettakantar með bíl heldur en eitthvað annað.

Læt fylgja með skemmtilega mynd sem ég tók um daginn fyrir norðan, greinilega allt klárt fyrir heyskapinn í Lýtingsstaðahreppnum.


Þar til síðar

mánudagur, mars 10, 2008

Skín við sólu Skagafjörður

Komið þið öll margblessuð og sæl

Titillinn á þessari færslu á svo sannarlega vel við. Renndi norður í morgun til að fara í fjósskoðanir, sem eru komnar aftur á dagskrá eftir að próf eru búin og veðrið var vægast sagt gott í dag, sólin sló silfri á voga og mínir heimildarmenn í Borgarfirði sögðu að sjá mætti jökulinn loga þar. Það fattar örugglega enginn hvaða lag ég vitnaði í lok síðustu setningu en hvað um það.

Prófin eru búin og ef mér hefur ekki gengið þeim mun verr, þá á ég einungis eftir einn áfanga og svo lokaverkefnið fram í maí og þá er ég bara búinn, þá er ég orðinn háskólamenntaður aumingi að sunnan sem hljómar reyndar ekki vel. Ég get kannski frekar titlað mig að vestan, það hljómar mun betur.

Þar til síðar

þriðjudagur, mars 04, 2008

Óveður

Sælt veri fólkið.

Sá að það var verið að vara við óveðri milli Borganess og Hvanneyrar á mbl.is. Ég sit nú bara hérna inn á bókasafninu og hef það náðugt, set hins vegar allt mitt traust á að rauða eldingin skili mér heim á eftir. Verð að viðurkenna það að ég er orðinn þónokkuð spenntur fyrir vorinu og að snjóa leysi, því þá fara hinir gríðarlegu kraftar Höfðingjans vonandi að leysast úr læðingi. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáir að um 10. mars fari að hlýna verulega og þar sem hann er Framsóknarmaður er engin ástæða til annars en að taka hann trúanlegann.

Hafþór Ingi Gunnarsson er nýjasti kaflinn í meiðslasögu Skallagríms. Tók það saman af gamni mínu að í 19 leiki það sem af er tímabili hefur vantað 1 eða 2 af 7 mínutuhæstu mönnum liðsins þar sem ég trjóni að sjálfsögðu á toppnum.

Ég vil að lokum óska Heiðari Árna Baldurssyni til hamingju með að hafa veitt músina í þvottahúsinu.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð