þriðjudagur, mars 01, 2011

Með á nótunum

Góðan og blessaðan daginn

Það er líklega kominn tími til að ég segi stutta sögu sem ég hef ekki sagt neinum. Það er reyndar ekki alveg dagsatt því ég missti þetta út úr mér við Blöndhlíðinginn Friðrik Hreinsson síðasta vetur, en hvað um það.

Árið 2007 var nýgengið í garð. Við Skallagrímsmenn höfðum farið í jólafríið efstir í töflunni, reyndar glutruðum við því niður minnir mig með því að tapa svo á milli jóla og nýárs. En engu að síður gaf það fögur fyrirheit að fyrsti leikur á nýju ári, sem var gegn Keflavík í Fjósinu, yrði jafn og spennandi. Þetta þótti meira að segja það athyglisverð viðureign að sjónvarp allra landsmanna hafði boðað komu sína, og eftirvæntingin því mikil.

Í jólafríinu hafði ég tekið að mér að fara nokkrar ferðir á mjólkurbílnum til að drýgja tekjurnar. Þetta þýddi auðvitað að það þyrfti að vakna snemma, og svo gerði nú snjókomu einhverja daga þannig að stundum urðu dagarnir heldur langir og lýjandi. Síðasta mjólkurferðin var á föstudegi og leikurinn á laugardegi. Ég var alveg sérstaklega lúinn eftir ferðina, kom beint á æfingu og Vignir, sem tók við af mér í akstrinum tók bílinn heim. Ég held að ég hafi sjaldan verið eins búinn eftir æfingu og þennan dag, þó var hún mjög stutt, og ég hélt að ég ætlaði ekki að hafa það að keyra Galantinn hans Hákons Þorvaldssonar heim (ég var farlaus fyrst að Vignir tók mjólkurbílinn og Hákon lánaði mér bara bílinn sinn), en það tókst og ég lagðist til svefns er heim kom  og svaf í einhverja 14 tíma.

Daginn eftir var svo komið að leiknum. Ég verð að viðurkenna að ekki var nú kviknað á öllum ljósum eftir törn föstudagsins og langan svefn aðfaranótt laugardags. En allavega, þetta gekk nú allt bara býsna vel í leiknum, í beinni útsendingu, og leikurinn var jafn og spennandi. Þegar komið er undir lok 3. leikhluta þá er staðan hnífjöfn og við eigum síðustu sókn. Hinn makedónska góðmenni Dimitar Karadzovski leikur sér eitthvað með boltan en sendir svo á mig. Ég tek leiftursnöggt (eins og mín er nú ávallt von og vísa) á rás að körfunni og það er brotið á mér, 2 vítaskot og um 3 sekúndur eftir af 3. leikhluta. Það er tekið leikhlé og menn ráða ráðum sínum, Valur Ingimundar leggur línurnar hvað gera skal ef ég hitti og ef ég hitti ekki úr skotunum o.s.frv. Ég pældi nú ekki mikið í því, rölti að vítalínunni, set bæði vítin ofan í, Keflavík tekur innkast en gengur ekki betur en svo að komast upp völlinn á þessum 3 sekúndum að þeir ná bara örvæntingafullu skoti frá miðju sem geigar um leið og flautan gellur og við yfir með 2 stigum. Ég skokka nokkur skref í áttina að bekknum okkar og ætla að gera mig kláran og setjast þar til að hlusta á leiðbeiningar Vals fyrir síðasta fjórðunginn. En mér að miklum óvörum koma menn af bekknum á móti mér gríðarlega fagnandi, faðma mig og segja vel gert, einnig er mikið fagnað á stuðningsmannapöllunum. Þá var þetta víst 4. leikhluti og ég hálf slysaðist til að tryggja Skallagrím sigurinn. Mér fannst líka óvenju mikið skorað í leiknum miðað við að það væru bara búnir 3. leikhlutar.

Seinna þegar gárungarnir í bænum voru að tala um einhverjar stáltaugar hjá mér gat ég nú ekki annað en verið sammála þeim og glott.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð