fimmtudagur, október 25, 2007

Hreyfing á logninu

Já það er sko búinn að vera hreyfing á logninu hér í Borgarfirði síðustu daga, en þetta hlýtur nú að lagast einhvern tímann.

Blakkur hennar Sóleyjar er að ná sér á strik eftir veikindi síðustu daga. Hann fékk veil fyrir hjartað en fór í hjartaþræðingu og ætti að fara að komast á götuna á ný. Það má segja að þau bæði séu að komast í gang því Sóley fór á eitthvað rosalegt líkamsræktarnámskeið um helgina þar sem fólki er kennt að hoppa, kýla og sparka. Hún var nú svolítið framlág eftir helgina en er að komast í sitt gamla form, held samt að ég sé nú ekki gerður fyrir svona því þetta sprikl hentar ekki mönnum sem kæmust í landsliðið í stirðleika.

Ég er að fara heim á morgun, eigum leik annað kvöld á Króknum og það verður víst einhver hátíð því Tindastóll er 100 ára, einmitt á morgun. Farið verður á langferðarbíl og spurning hvort maður grípi ekki í míkrafóninn og segi norðlenskar sveitasögur, þannig að æskilegt væri að fara Vatnsskarðið.

Jæja ég ætla að drífa mig í málmsuðu til Jóa Ellerts

Þar til síðar

mánudagur, október 22, 2007

Trú á sauðkindina og heilaga jómfrú

Mánudagarnir eru til mæðu segir einhversstaðar, en fyrir mér eru allir dagar jafnir.

Eitthvað af vatni hefur runnið til sjávar síðan ég lét í mér heyra síðast. Jósefína er reyndar því miður ekki seld ennþá, en ég er nú búinn að komast í gegnum 2 lokapróf, vinna körfuboltaleik með bölvaðri heppni, þar sem ég var reyndar í hlutverki áhorfenda því ég fékk mína 5. villu þegar 6!! mínutur voru eftir af leiknum, fara í hlöðupartý þar sem ég fékk þann skemmtilega heiður að vera elsti maðurinn á svæðinu fyrst að Fúsi í Skrúð ílengdist ekki þar, og fara á kjördæmisþing hjá Framsóknarflokknum þar sem ég hitti Joe Spritt og fékk helstu fréttir úr Skagafirðinum.

Það er kominn nýr tengill inn á aðra bæi, en það er þau Víðir og Sibba tamningamenn Íslands nr. 1 sem hafa opnað heimasíðuna tamning.is, mér fannst nú skemmtilegast að skoða myndirnar af Víði þegar hann var ungur, sjálfsagt að láta sig dreyma um hamarsstuldi og eitthvað slíkt.

Þar til síðar

miðvikudagur, október 10, 2007

Skemmtilegur tími

Það er svo leiðinlegt að lesa fyrir próf, að það er nauðsynlegt að pára eitthvað niður til að dreifa huganum. Fagið er Almenn Bútækni og þetta er svona tja... milliþurrt efni, en vissulega áhugavert á köflum. Held að það væri langbest að fá Jóa Ellerts til að semja prófið.

Annars datt mér í hug að svara einhverri spurningu í prófinu, á þá leið sem ég lærði af landsráðunautnum. ,,Best er að fá verktaka til að vinna verkið, nema að maður sé hræddur við að verktakinn kalli mann aumingja, þá er best að fá fátæka námsmenn og borga þeim með víni."

Hún Jósefína mín er nú til sölu. Tækninafn hennar er Volvo S40. Vélin er með 1.9l sprengirými og útbúin túrbínu, sögð skila 160 hestöflum. Hún er eki 178 þús. km. Jósefína stóðst skoðun nú á dögunum með glans (vantaði eitt parkljós, en það er komið í lag) og er nýsmurð. Hún er á 17 tommu felgum á nýjum Sava sumardekkjum og með fylgja 16 tommu goodyear nagladekk (keyp fyrir ári síðan) á álfelgum. Áhugasamir hafið samband í 860-2935


Þar til síðar

mánudagur, október 01, 2007

Hvítvín

Góðann og blessaðann daginn

Löng og ströng helgi að baki, en samt góð. Hófst með ferð á föstudaginn norður í land í fararstjórn Magnúsar B. Jónssonar, þar sem skoðuð voru 4 mismunandi bú, fjárbúið Hjallaland í Vatnsdal, eggjabúið Efri-Mýrar í Refasveit, kúabúið Hlíðarenda í Óslandshlíð og loðdýrabúið að Syðra-Skörðugili á Langholti. Ég hafði nú gaman af því að koma inn í hæsnabú í fyrsta skipti í svona 15 ár og finna lyktina sem maður ólst upp við hér á árum áður. Eftir þessa ferð var svo brunað vestur og beint á æfingu.

En þetta var nú ekki síðasta ferðin mín í Skagafjörðinn þessa helgina, því á laugardagskvöldið kom Slátrarinn frá Hvolsvelli við í Múlakoti ásamt aðstoðarmönnum sínum (Einari og Sveini) og tók mig og Sóley með sér á Laufskálaréttarball, við vorum mætt í Fjörðinn um 11.30, beint á ball, og vorum farin um 10.30 morguninn eftir því ég þurfti að mæta á æfingu alltof snemma. Ballið var hins vegar bara nokkuð gott, hitti mikið af góðu fólki og meðal annars eina blómarós úr Blönduhlíðinni.

Það var gaman að heyra í gær þegar við komum í Borgarfjörðinn að Steingrímur sagði "jæja ætli maður þurfi ekki að læra eitthvað í dag" því hann átti að flyrtja fyrirlestur í almennri bútækni núna í dag, en svo endaði með því að ég þurfti að flytja minn fyrirlestur í dag, þrátt fyrir að hafa samkvæmt planinu átt að vera með hann á næsta miðvikudag, því skáldagyðjan hafði greinilega ekki heimsótt Steingím í gær.

En munið svo bara eitt börnin góð: Verum karlmenn - drekkum hvítvín

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð