miðvikudagur, september 22, 2010

Bílaverkstæðið góðan dag

Ég heilsa ykkur frá Sjálandi.

Eins og sjá má í frétt Feykir.is, er nú verið að rífa húsnæðið við Freyjugötuna sem eitt sinn hafði það hlutverk að hýsa Bílaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga. Það hafði víst þjónað mörgum fleiri hlutverkum um sitt æviskeið þetta húsnæði, en ég ætla nú ekki að fara nánar út í þá sálma, heldur einbeita mér að þeim tíma er Bílaverkstæðið var þar rekið. Ástæðan fyrir því er mjög einföld, ég var nefnilega svo merkilegur að vinna þar í einn vetur, nánar tiltekið 2004-2005.

Saga okkar hófst á skemmtilegan hátt. Ég var á balli í Miðgarði, undir lok Heyanna minnir mig, staddur í andyrinu og er að sýna mig og sjá aðra. Allt í einu er hnausþykkum þumalputta rekið á milli rifja á mér, ég fattaði svosem strax hver það var, Rúnar Guðmunds gerir þetta nefnilega mjög oft við mann. Þegar ég var búinn að jafna mig á árásinni þá spyr Rúnar hvort mig vanti ekki vinnu í vetur. Ég hváði jú og þá sagði hann mér að það vantaði einhvern í dekkin á Bílaverkstæðinu, því tilboði var tekið á stundinni.

Ég mætti því galvaskur um haustið og tók við stöðu Dekkjakóngs, og fórst það nokkuð vel úr hendi, að eigin mati allavega. En ég held að það sé best að minnast gamla bílaverkstæðisins með 2 sögum sem gerðust þennan vetur. Það er orðið svo langt um liðið að það er allt í lagi að varpa þeim á veraldarvefinn.

Sú fyrri gerist á föstudegi, og hefst þannig að áðurnefndur Rúnar Guðmundsson kemur til mín með 3 jeppadekk og 2 felgur undan sturtuvagni. Hann hafði verið beðinn um að koma 2 af þessum dekkjum á felgurnar. Gallinn var hinsvegar sá að dekkin voru gerð fyrir 15 tommu felgu og vagnfelgurnar voru 15,3 tommur. Við notuðum litlu dekkjavélina, sem þýddi að dekkið og felgan lágu á hlið. Ef ég reyni að lýsa þessu fyrir þá sem þekkja ekki til, þá er armur á dekkjavélinni sem er með mælinn sem sýnir þrýstingin í dekkinu, og þaðan kemur loftslangan, og svo pumpar maður loftinu með því að stíga á pedala.

Það var ekkert mál að koma dekkinu loftlausu utan um felguna, en hinsvegar var aðeins erfiðara að fá dekkið til að springa upp á bríkina. Á fyrra dekkinu hafðist það fyrir rest en þá voru komin um 90 pund í dekkið, minnir að svona dekk eigi ekki að þola yfir 80 punda þrýsting. Svo tókum við til við seinna dekkið. Ég stíg á pedalan og pumpa og pumpa, fer svo að spjalla við Rúnar og halla mér fram á dekkið. Svo þegar það er komið frekar mikið í dekkið en ekki ennþá sprungið upp á, þá halla ég mér aftur til að sjá betur á mælinn. Í þeirri sömu andrá kemur mikill hvellur, ég sé ekkert nema gráa breiða rönd fyrir framan mig, KTM derhúfan mín fýkur af mér, og allt í einu er ekkert dekk fyrir framan mig. Ég lýt þá snöggt á Rúnar, sem lýtur á mig, svo lýtur hann upp og beygir sig rétt áður en hann fær dekkið og felguna í hnakkan og á axlirnar. Þegar allt rykið sem þyrlaðist upp settist aftur og ég og Rúnar áttuðum okkur á stöðunni, fórum við bara að hlæja.

Seinni sagan er af svipuðum toga. Mig minnir að ég hafi verið að skipta um slöngu í afturdekki af Ferguson 135 sem Bjössi Mik átti. Til þess notaði ég stóru dekkjavélina, sem þýddi að dekkið stóð upp á rönd í henni, en snerti ekki jörð. Það gekk nú svosem allt eðlilega, þar til kom að því að pumpa og fá dekkið til að springa upp á efri bríkina. Ég bar meiri og meiri feiti en allt kom fyrir ekki. Loks áttaði ég mig á vandamálinu, innsta brún neðst á dekkinu, sem sést ekki fyrir felgubrúninni þegar allt er eðlilegt, var ofan á brúninni og því engan vegin hægt að láta efri brún komast upp á öryggisbríkina. Þegar ég átta mig á þessu er ég búinn að pumpa heilmikið í dekki. Hluti af ferlinu við að fatta gallan var að beygja sig niður og skoða þetta nánar. Ég man að ég hugsaði "já þetta er svon.... búmm". Springur ekki blessað dekkið og allt framan í mig. Mér leið eins og einhver hefði strekkt á andlitinu á mér, sá eiginlega ekki neitt og heyrði bókstaflega ekki neitt. Rúnar Guðmunds var fyrstur á staðinn, en ég heyrði ekkert hvað hann var að segja, þekkti hann bara rétt á útlínunum.

Sannarlega á ég fleiri góðar minningar úr þessu húsi, læt þessar tvær duga á prentinu. Get samt ekki sagt að ég sjái mikið eftir byggingunni.

Þar til síðar.

þriðjudagur, september 21, 2010

Eitt og annað

Heil og sæl og verið velkomin að tölvuskjánum

Rúnar Birgir Gíslason sveitungi minn benti mér á umsögn dansks netblaðamanns, þar sem hann er að spá í spilin fyrir veturinn í dönsku körfuboltadeildinni. Ekki nóg með að hann spái liðinu mínu, Værlöse, næst neðsta sæti, þá segir hann að í liðinu sé Færeyingur sem spilar gróft. Þessi maður hefur greinilega ekki hundsvit á körfubolta, ég er ekkert grófur.

Síðastliðin ár hef ég ferðast töluvert á milli landa, og ávallt notað til þess flugvélar. Það liggur því í augum uppi að oft hef ég þurft að fara í gegnum þessi gegnumlýsingar- og öryggishlið á flugvöllum Evrópu. Eftirminnilegt er þegar ég var stoppaður með 3 kg af óhrærðu skyri og gert að afhenda það yfirvöldum til förgunar, sökum þess að þetta er vökvi, gamli var nú ekkert sérstaklega sáttur með það. Þessi hlið eru þó ekki óbrigðul, um páskana 2009 fór ég 6 sinnum í gegnum öryggishlið með 9 skurðarblöð í töskunni, því ég hafði gleymt að taka þau úr eftir síðasta verklega líffærafræðitímann fyrir þá páska. Svo gerðist það þegar ég var að koma mér fyrir hér úti í Kaupmannahöfn að ég komst að því að ég hafði farið í gegnum öryggishliðið í Leifsstöð með 2 og 1/2 tommu nagla í vasanum.

Enn og aftur að senegalska liðsfélaga mínum, hann sagði við mig um daginn að hann hefði gaman af bandaríska sjónvarpsþættinum Desperate Housewifes. Það er eitthvað svo rangt við að 208sm, helmassaður Afríkumaður hafi gaman af slíkum kellingaþætti.

Ég fékk fyrsta gestinn minn frá Íslandi í síðustu viku. Það var nú ekki uppeldisfélagi, sveitungi eða gamall skólabróðir eins og búast hefði mátt við, nei það var sjálfur Darrell Flake, eini maðurinn sem ég hef spilað með bæði undir merkjum Skalla-Gríms og Tindastóls. Hann þurfti að skreppa frá Íslandi útaf einhverju dvalarleyfis-dæmi og var hjá mér í góðu yfirlæti í 3 daga.

Svo styttist í fyrsta leik, ekki laust við að það sé kominn þónokkur spenningur.

Mæli svo að lokum eindregið með viðtali Kristjáns Más Unnarssonar við Þorbjörn Pétursson, bónda að Ósi í Mosdal við Arnarfjörð. Þetta er maður að mínu skapi, borðar ekki grænmeti og leiðist í Reykjavík.

Þar til síðar

sunnudagur, september 12, 2010

Missir

Góðan daginn

Ég sit hér í veldi danans, og hugsa heim í Akrahreppinn. Á næstu klukkutímum fara tvíburarnir Kolli og Leifur að fikra sig út úr Kleifunum, Miðdalsmenn fara að skila sér, og efsti maður þar mætir líklega Dóra á Kúskerpi og hundinum Tenór er þeir koma úr Horni. Þar efst á við dalsmynnin má sjá magnaða sjón sem samanstendur af fé og mönnum á ferð út dalina eftir þessum fallegu og grónu grundum, ýmist ríðandi eða á eigin fótum.

Þetta er mín reynsla af sunnudegi í göngum, því ég hef ávallt farið í Kleifarnar eða Miðdal. Svo er borðað í kofanum og þarnæst safnið rekið niður í rétt. Ég hef nú ávallt tekið í rólega að reka niður, svona eftir að ég fór fyrst í göngur 14 ára gamall. Það er ákaflega góður og fastur punktur í þeirri tilveru að sitja lengi inn í Patrolnum hjá Fúsa á Uppsölum og spjalla, kannski hoppa út og grípa eina og eina gamla ær sem hefur örmagnast og henda henni í kerruna.

Nánast allir sem ég þekki hafa gaman af því að fara í göngur og/eða réttir, og eflaust liggja margar ástæður fyrir því sem ég ætla nú ekki að tíunda hér. En þeir sem hafa líklega mest gaman af því eru sauðfjárbændurnir sjálfir, og ástæðan fyrir því er kannski ekkert sérlega rómantísk, þeir eru að fara að fá útborgað.

Svona trega- og söknuðarpistlar eru nánast árlegir hjá mér, og þó að ég verði nú erlendis næstu árin getur maður alltaf lifað í voninni um næsta haust, kostar víst ekkert að láta sig dreyma.

En að öðru, þessi Senegali sem er í liðinu með mér hættir ekki að skemmta mér með bullinu í sér. Í gær pantaði hann sér t.d. McBacon-borgara en bað þá um að sleppa beikoninu, ég vissi nú ekki hvert ég ætlaði. Til að þið getið áttað ykkur betur á því hvernig hann tala er hér myndband með Eddie Murphy, spólið áfram á 1:00 og þá byrjar Murphy að tala. Röddin hjá Senegalanum er kannski ekki alveg eins, en framburður og áherslur ótrúlega svipað.




Þar til síðar

mánudagur, september 06, 2010

Einn á flakki

Komið nú sæl og blessuð elskurnar mínar

Ekki nema 7 mánuðir síðan ég páraði eitthvað niður síðast, sem er eðlilegt þar sem það hefur nákvæmlega ekkert gerst á þeim tíma, allavega ekkert sem ég man eftir af einhverjum óþekktum ástæðum.

En nú er maður kominn til Kaupmannahafnar, þar sem meiningin er að hafa vetursetu, og því gráupplagt að gera eitthvað af sér. Tæknilega séð er ég þó ekki í okkar fornu höfuðborg, því ég bý í smábænum (um 18.000 hræður) Værlöse sem er 16 km frá miðbænum. Þar er körfuboltaliðið Værlöse Basket Ball Klub staðsett, en með því ágæta félagi mun ég spila í vetur.

Ég lenti á meginlandinu á miðvikudagsmorguninn og var sendur beint á æfingu um kvöldið, mikið óskaplega var það nú erfitt. Til að bæta gráu ofan á svart þá voru 2 æfingaleikir um helgina, sem betur fer gegn 1. deildar liðum (deild fyrir neðan okkur) þannig að það var ekki hundrað í hættunni þó að bensíntankurinn endist ekki allan leikinn.

Liðsfélagarnir koma úr ýmsum áttum. Þeir 2 sem fá þann eftirsótta titil að vera mestu týpurnar, ef svo má að orði komast, eru Dani af marakkóskum ættum og erlendi leikmaðurinn sem kemur frá Senegal (eða hinn erlendi leikamaðurinn, ætli ég þurfi ekki að sætta mig við að flokkast sem slíkur).

Daninn/Marakkómaðurinn er lítill skratti sem talar út í eitt og er alltaf að pæla í einhverjum leiðum til að græða pening. Nú síðast í dag bað hann mig að finna eitthvað sem framleitt er á Íslandi, og mætti selja út um allan heim til að mokgræða. Svo erum við komnir með plan um að mæta á næsta uppboð á minkaskinnum hjá danska uppboðshúsinu, veit nú ekki alveg hvort að hann muni fynna gullæðina sína þar, en það ætti allavega að vera áhugavert. Hann þarf reyndar að fasta þessa dagana út af Ramödunni og því er aðeins farið að draga af honum eftir leiki helgarinnar.

Senegalinn er 208 sentimetrar á hæð, alveg bikarsvartur, rífur kjaft og bullar út í eitt. Eini gallinn við hann er sá að hann var í háskóla í Bandaríkjum Norður-Ameríku og því er hreimurinn hans því miður bandarískur en ekki afrískur.

Nú eru tæpar 3 vikur í fyrsta leik, sem gerir þetta haust líklega stysta undirbúningstímabil sem ég hef tekið þátt í. Fyrsti leikur er 26. sept á útivelli gegn Horsens, en þar þjálfar einmitt Kenneth Webb, sem eitt sinn var við stjórnvölin í Fjósinu í Borgarnesi.

Læt þetta nægja í bili

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð