miðvikudagur, janúar 31, 2007

Þú færð kraft....

Það gladdi mitt litla hjarta þegar ég sá í morgun á heimasíðu bandarískra mjólkurframleiðenda að samkvæmt rannsóknum vísindamanna við háskólann í Indiana, þá er kókómjólk mun betri sem næringargjafi eftir stífar íþróttaæfingar, heldur en svokallaðir íþróttadrykkir, t.d. Gatorade og Powerade. "Einstök samsetning af kalki, próteinum og kolvetnum í Kókómjólk (e. chocolate milk) veitir þá orku og næringu sem þarf til að styrkja bein, byggja upp vöðvafrumur og jafna sig eftir átök." (www.gotmilk.com)

Þar hafið þið það

Þar til síðar

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Vísnaþáttur nr. 1

Heilir og sælir lesendur góðir.

Ég ætla að fara af stað með vísnaþætti, svona bara af og til, og vil ég hvetja ykkur til að senda mér vísur eftir ykkur eða bara vísur sem ykkur líkar vel við á póstfangið vegagerdin@hotmail.com

Fyrsta vísan er eftir sjálfann Óðinn Gíslason frá Vöglum, og var samin um Agnar á Miklabæ þegar Óðinn var í 10. bekk í Varmahlíðarskóla. Ég er reyndar ekki viss um fyrstu línuna, en Óðinn leiðréttir mig þá bara.

Eitt ég skilið illa fæ,
er það skynjun geggjuð.
Að Maddaman á Miklabæ,
er merkilega skeggjuð.

Fyrir skemmstu voru haldnir tónleikar í Reykholtskirkju, þar sem 2 bræður á Arnarstapa á Mýrum sungu, og fór það fyrir brjóstið á prestum er voru þar staddir, þegar þeir sungu lagið "Sagan af Jesú" eftir þá Baggalútsmenn. Í einni mjólkurferðinni á Mýrunum rakst ég á í einu mjólkurhúsinu vísu um atvikið.

Guðsmennirnir gengu út,
af geðshræringu svitna.
Er bræðurnir í Baggalút,
bljúgir tóku að vitna.

Og í lokin fylgir ein góð eftir Sigurð Breiðfjörð.

Detta úr lofti dropar stórir,
dygnar um í sveitinni.
Tvisvar sinnum tveir eru fjórir,
taktu í horn á geitinni.

Þar til síðar

föstudagur, janúar 19, 2007

Maður er orðinn svolítið þreyttur á þessu

Var að lesa í gær eina fjölmiðilinn á landinu sem er lesandi í þessu landi, Bændablaðið. Þar rak ég augun í frétt að hamborgarahryggir hefðu klárast í verslunum milli jóla og nýárs. Þetta varð til þess að sjálfur Jóhannes Jónsson kenndur við Bónus komst í fréttir stöðvar 2 til að halda því fram að það væri allt eins gott að hætta svínakjötsframleiðslu á landinu og flytja allt inn, en þeir gátu ekki flutt inn svínakjöt til að mæta þörfinni því þeir hefðu stórtapað á því út af háum tollum.

En árvökulir blaðamenn bændablaðsins fóru á stúfana og komust að því að hamborgarahryggirnir hefðu bara klárast í einni Bónusverslun, og að kílóverðið hefði verið undir heildsöluverði milli jóla og nýárs, þannig að það er kannski ekki furða á að það hafi runnið út úr verlsunum. Þetta var því enn ein auma tilraunin hjá þessum vitleysingum á að þrýsta á um losun innflutningshafta, og að gera það á þennann hátt og koma í fréttirnar með þetta rugl lætur mig vona að Jóhannes í Bónus verði dæmdur til að verða punghengdur og að vinna kauplaust á kúabúi í 20 ár, það ætti væntanlega að lækka framleiðslukostnaðinn á því búi og koma sér vel fyrir neytendur og mjólkurbændur.


Þar til síðar

föstudagur, janúar 12, 2007

Saga af sauðum

Um miðjann desember gerði vonskuveður í Borgarfirði og menn, konur og börn hjúfruðu sig í sófanum og ætluðu að eiga notalega kvöldstund. En ekki þrír ungir menn sem héldu á vit ævintýranna og ætlunin var að ná sér í jólatré. Trukkurinn var ræstur og haldið af stað upp í Borgarfjarðardali. Eftir mikla leit í hríðarbyl fannst þetta fallega tré sem ákveðið var að saga niður og taka með heim.
Sjarminn var sá eini sem hafði teljanlega reynslu af skemmdarverkum og því var hann látinn um sögunina


Þegar heim var komið fattaðist það að enginn jólatrésfótur var til staðar og því var brugðið á það ráð að dubba upp varúðarkeilu sem Sjarminn hafði dregið heim með sér á einhverju fylleríi sem fót undir tréið góða.
Svo var tréinu skellt ofan í með tilheyrandi látum og þar með voru jólin komin í Skuggasel.
Og við þetta má bæta að í fyrradag vorum við að versla í Ríkinu þegar mér var starsýnt á málverkasýningu sem var á ganginum í Hyrnutorginu, og eftir smástund komum við auga á þetta fallega málverk sem kostaði aðeins 2.500 kall.... gjöf en ekki sala. Ég fór og spurðist fyrir í blómabúðinni og uppi varð fótur og fit því konurnar þar vildu ekki trúa því að málverkið væri svona ódýrt, og hringdu meira að segja í listakonuna. En viti menn, verkið kostaði 2.500 kall og blómakonurnar voru mjög svekktar yfir því að hafa ekki fattað þetta sjálfar, enda sjálfsagt ekki jafn listrænt þenkjandi og kúltíveraðar eins og við félagarnir.


Vitinn sómir sér nú vel fyrir neðan myndina af verndara hússins, Geirmundi Valtýssyni.

Þar til síðar

sunnudagur, janúar 07, 2007

Daglegt líf

Jæja þá er búið að opna Skólaflötina á nýjan leik, þurfti að vísu smá hjálp þar sem ég týndi lyklunum að íbúðinni... vel gert Axel. Nennti ekkert að bera mig mikið eftir netsambandi yfir jólin og því var tekið frí frá búskapnum.

Náði dreggjunum af jólahlaðborði Vasmó og var mjög ánægður að sjá þörf manna fyrir fyllerísröfl, dólgskap og almenn leiðindi hefur lítið minnkað. Eins voru áramótin mjög góð, matur hjá Gilla og Ernu, sem er líklega sá árlegi viðburður sem mér þykir einna vænst um. Sú nýbreytni var höfð þetta árið að Villi Special bættist við undir lokin og svo fórum við Sólheimahundarnir og V. Special út á Krók á ball á Mælifelli, sem mér fannst nú bara helvíti skemmtilegt, aðallega fyrir þær sakir að ég gat röflað við Villa um vörubíla í svona klukkutíma, og hitti síðan Einar í Garði og gat röflað við hann um búskap í annann klukkutíma.... fer maður fram á meira þegar maður fer út að skemmta sér. Reyndar hófst ný hefð að fara í Glaumbæjarmessu á gamlársdaga og vonandi verður framhald á því, helvíti gott þegar pabbi spurði mig um hvað ræða prestsins fjallaði þá svaraði ég "tja, aðallega um það að fyrir mörgum árum var töff að vera kommúnisti... en er það sem betur fer ekki lengur."

Ekki get ég státað af neinum myndum úr jólafríinu því hvert sem ég fór þá gleymdi ég alltaf að taka vélarnar með, það verður bara að hafa það.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð