miðvikudagur, september 22, 2010

Bílaverkstæðið góðan dag

Ég heilsa ykkur frá Sjálandi.

Eins og sjá má í frétt Feykir.is, er nú verið að rífa húsnæðið við Freyjugötuna sem eitt sinn hafði það hlutverk að hýsa Bílaverkstæði Kaupfélags Skagfirðinga. Það hafði víst þjónað mörgum fleiri hlutverkum um sitt æviskeið þetta húsnæði, en ég ætla nú ekki að fara nánar út í þá sálma, heldur einbeita mér að þeim tíma er Bílaverkstæðið var þar rekið. Ástæðan fyrir því er mjög einföld, ég var nefnilega svo merkilegur að vinna þar í einn vetur, nánar tiltekið 2004-2005.

Saga okkar hófst á skemmtilegan hátt. Ég var á balli í Miðgarði, undir lok Heyanna minnir mig, staddur í andyrinu og er að sýna mig og sjá aðra. Allt í einu er hnausþykkum þumalputta rekið á milli rifja á mér, ég fattaði svosem strax hver það var, Rúnar Guðmunds gerir þetta nefnilega mjög oft við mann. Þegar ég var búinn að jafna mig á árásinni þá spyr Rúnar hvort mig vanti ekki vinnu í vetur. Ég hváði jú og þá sagði hann mér að það vantaði einhvern í dekkin á Bílaverkstæðinu, því tilboði var tekið á stundinni.

Ég mætti því galvaskur um haustið og tók við stöðu Dekkjakóngs, og fórst það nokkuð vel úr hendi, að eigin mati allavega. En ég held að það sé best að minnast gamla bílaverkstæðisins með 2 sögum sem gerðust þennan vetur. Það er orðið svo langt um liðið að það er allt í lagi að varpa þeim á veraldarvefinn.

Sú fyrri gerist á föstudegi, og hefst þannig að áðurnefndur Rúnar Guðmundsson kemur til mín með 3 jeppadekk og 2 felgur undan sturtuvagni. Hann hafði verið beðinn um að koma 2 af þessum dekkjum á felgurnar. Gallinn var hinsvegar sá að dekkin voru gerð fyrir 15 tommu felgu og vagnfelgurnar voru 15,3 tommur. Við notuðum litlu dekkjavélina, sem þýddi að dekkið og felgan lágu á hlið. Ef ég reyni að lýsa þessu fyrir þá sem þekkja ekki til, þá er armur á dekkjavélinni sem er með mælinn sem sýnir þrýstingin í dekkinu, og þaðan kemur loftslangan, og svo pumpar maður loftinu með því að stíga á pedala.

Það var ekkert mál að koma dekkinu loftlausu utan um felguna, en hinsvegar var aðeins erfiðara að fá dekkið til að springa upp á bríkina. Á fyrra dekkinu hafðist það fyrir rest en þá voru komin um 90 pund í dekkið, minnir að svona dekk eigi ekki að þola yfir 80 punda þrýsting. Svo tókum við til við seinna dekkið. Ég stíg á pedalan og pumpa og pumpa, fer svo að spjalla við Rúnar og halla mér fram á dekkið. Svo þegar það er komið frekar mikið í dekkið en ekki ennþá sprungið upp á, þá halla ég mér aftur til að sjá betur á mælinn. Í þeirri sömu andrá kemur mikill hvellur, ég sé ekkert nema gráa breiða rönd fyrir framan mig, KTM derhúfan mín fýkur af mér, og allt í einu er ekkert dekk fyrir framan mig. Ég lýt þá snöggt á Rúnar, sem lýtur á mig, svo lýtur hann upp og beygir sig rétt áður en hann fær dekkið og felguna í hnakkan og á axlirnar. Þegar allt rykið sem þyrlaðist upp settist aftur og ég og Rúnar áttuðum okkur á stöðunni, fórum við bara að hlæja.

Seinni sagan er af svipuðum toga. Mig minnir að ég hafi verið að skipta um slöngu í afturdekki af Ferguson 135 sem Bjössi Mik átti. Til þess notaði ég stóru dekkjavélina, sem þýddi að dekkið stóð upp á rönd í henni, en snerti ekki jörð. Það gekk nú svosem allt eðlilega, þar til kom að því að pumpa og fá dekkið til að springa upp á efri bríkina. Ég bar meiri og meiri feiti en allt kom fyrir ekki. Loks áttaði ég mig á vandamálinu, innsta brún neðst á dekkinu, sem sést ekki fyrir felgubrúninni þegar allt er eðlilegt, var ofan á brúninni og því engan vegin hægt að láta efri brún komast upp á öryggisbríkina. Þegar ég átta mig á þessu er ég búinn að pumpa heilmikið í dekki. Hluti af ferlinu við að fatta gallan var að beygja sig niður og skoða þetta nánar. Ég man að ég hugsaði "já þetta er svon.... búmm". Springur ekki blessað dekkið og allt framan í mig. Mér leið eins og einhver hefði strekkt á andlitinu á mér, sá eiginlega ekki neitt og heyrði bókstaflega ekki neitt. Rúnar Guðmunds var fyrstur á staðinn, en ég heyrði ekkert hvað hann var að segja, þekkti hann bara rétt á útlínunum.

Sannarlega á ég fleiri góðar minningar úr þessu húsi, læt þessar tvær duga á prentinu. Get samt ekki sagt að ég sjái mikið eftir byggingunni.

Þar til síðar.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð