þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Er finnska erfið?

Góðann daginn ágætu samvinnumenn.

Gluggaði í hið ágæta rit Lifandi Vísindi um daginn og þar var lítil klausa um að þegar fólk eldist virkar oft sem það verði full hreinskilið á stundum og allt að dónalegt, og að það eigi sér eðlilegar skýringar því það gerist eitthvað í fremra heilablaði eða eitthvað álíka. Mér datt strax í hug ferðin góða á elliheimilið á Húsavík og hann Leifur gamli sem reif kjaft við hjúkkurnar og barði stafnum sínum í borðið.

Óðinn Gíslason gaf mér merkilegar bækur í afmælisgjöf, og hef ég aðeins gluggaði í eina sem heitir Sammvinnurit og var skrifuð af Jóni Sigurðssyni frá Yztafelli árið 1945 þar sem hann fer yfir sögu samvinnufélaga í norðurhluta Evrópu og byrjar kaflann um finnska sambandið skemmtilega. "Fyrsta samband finnskra kaupfélaga var stofnað 1904, og hafði það finnskt nafn, sem varla verður skrifað með íslenzkum höndum, hvað þá framborið af íslenzkum vörum, en það var skammstafað S.O.K."

Annars er lítið að gera, lærdómur fyrir próf, körfuboltinn, steinullartínsla hjá Baldri Björnssyni ehf. og Framsóknarflokkurinn eiga hug minn þessa dagana.

Þar til síðar

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Blót

Já það var ekki laust við að einn eða tveir mættu á þorrablót Akrahrepps, Seyluhrepps, Skarðshrepps og Lýtingsstaðahrepps. Þetta var bara mjög gaman þó að sjálfsögðu hefði verið betra að hafa þetta í Miðgarði, en því var bara ekki að skipta þetta árið. Man að ég var með fyllerísröfl við mjög marga en man í fæstum tilfellum um hvað, þó man ég að ég og Snæbjörn (a.k.a Aumingjans kallinn) ætluðum að vekja pabba og það að ég tók dágóðann tíma í að ræða samvinnustefnuna við Litla-Per.

Ég gerðist svo magnaður að muna eftir því að kafa í gömlu myndaalbúmin og taka með mér nokkrar myndir sem komnar eru inn á netið, og fleiri bætast við seinna meir.

Þar til síðar


miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Mjólka vill flytja framleiðslu sína í Borgarnes

Forráðamenn fyrirtækisins Mjólku hafa sýnt áhuga á því að flytja vinnslustarfsemi fyrirtækisins í Borgarnes. Verið er meðal annars að skoða húsnæðið sem Borgarplast var í að Sólbakka með staðsetingu í huga. Að sögn Sigurðar Óla Ólasonar, stjórnarformanns í Mjólku er vinnslan búin að sprengja utan af sér það húsnæði sem hún er núna í að Vagnhöfða í Reykjavík, svo það er farið að há framleiðslugetu fyrirtækisins, enda hefur starfsemin gengið vel, að sögn Sigurðar Óla. Vilji er fyrir því innan fyrirtækisins að færa vinnsluna nær framleiðslunni, þ.e. bændum og því sé ekkert síðri kostur að flytja hana í Borgarnes ef um semst.



„Ég tel að þetta yrði stórt og gæfuríkt spor fyrir alla ef af þessu verður,” heldur Sigurður Óli áfram. „10-14 störf myndu í upphafi fylgja með vinnslunni, þótt sala og dreifing yrði líklega áfram í Reykjavík. Mörg fyrirtæki í Reykjavík hafa einnig sýnt áhuga á því að fara í samstarf eða samvinnu við Mjólku en um slíkt hefur engin ákvörðun verið tekin. Kostnaður er gífurlegur við að flytja svona starfsemi, hvert sem hún fer. Þetta er því ekki einungis háð því hvað við viljum, velvilja Borgarbyggðar þarf einnig til. Engin ákvörðun liggur fyrir en ef af þessum hugmyndum verður myndum við flytja á næstu mánuðum,” sagði Sigurður Óli að lokum.

Heimild: www.skessuhorn.is

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Svona fór um sjóferð þá

Já fínasta helgi í Skagafirðinum afstaðin. Skrapp í Skörðugil og Kúskerpi með Hvanneyringum á laugardeginum, en missti því miður af því að sjá þegar Sjarminn stangaði Atla á Hofdölum í bringuna. Sem betur fer náðist ljósmynd af atburðinum.


Sæll Atli

Heimferðin eftir leik á sunnudagskvöldið var óneitanlega skemmtileg. Óðinn, Steingrímur og Einar Kári sátu í afturhluta Skúrdósins og sáu um skemmtiatriði fyrir mig og Sóley..... eða já Óðinn og Einar sáu skemmtiatriði fyrir mig. Legg það til við Óðinn að þegar/ef hann klárar námið einhvern tímann þá geti hann sett upp heilsubæli á Vöglum og læknað fólk af kynvilla og grænmetisfíkn.

Vil þakka öllum þeim sem óskuðu mér til hamingju með afmælið á sunnudaginn, sérstaklega þeim sem sungu fyrir mig á leiknum um kvöldið, en þar var tríóið Skratti sjarmerandi Larfur fremst í flokki og gaman að heyra að röddin á Skrattanum komst í Landsmótsfílinginn.

Þar til síðar

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ja nú gerist það

Er ekki kominn tími á nokkur vel valin orð af minni hálfu.

Eftir mikla ládeyðu það sem af er árinu horfa hlutirnir upp til himins og sjá sólina bera við Skeljabrekkufjallið. Ástæðan fyrir bjartri framtíð minni er sú að ég er á leiðinni heim um helgina..... vá það hefur nú gerst lengi. Því miður á nú ekki eftir að bera á því að ég labbi á pöbbin, líti inn um stund og kíki aðeins í glas, það verður bara seinna. Þetta verður nú að mestu leyti rólegheitaheimsókn fyrir utan það að á laugardeginum verða Hvanneyringar í búfjárræktarferð í Skagafirðinum og meiningin var að slást í för með þeim og skreppa á eins og einn eða 2 bæi. Hápunkturinn verður að sjálfsögðu þegar fólkið á Kúskerpi (jájá) verður heimsótt og fjósið skoðað, sem verður nú líklega bara yfirskin eins og svo oft áður í svona ferðum.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð