miðvikudagur, janúar 30, 2008

Nú er það svart, allt orðið hvítt

Komið þið öll blessuð og sæl

Ég er staddur hér út í gamla skóla og horfi út um gluggann, og sé alhvítann Borgarfjörðinn þá kemur mér til hugar að Baldur í Múlakoti fékk fiðring í gær og keypti sér vélsleða. Þegar ég frétti af þessu fór ég að rifja upp hvenar ég prófaði vélsleða síðast. Það var nú einhvern tímann er ég bjó á Sólheimum, því þegar Arnar var á grunnskólaaldrinum hafði hann mikla dellu fyrir vélsleðum, ásat Kobba á Borgarhóli og Dóra á Kúskerpi.

Einn af sleðunum sem hann átti var Polaris 340. Einhvern daginn þegar ég og Mæja vorum komin heim á undan Arnari (þá vorum við í Akraskóla, hann í Varmahlíðarskóla) þá fengum við þá mögnuðu hugmynd að stela sleðanum og fara á honum niður á stóru sléttu og þenja aðeins. Ég man ennþá hvað mér þótti ótrúlega gaman að botna sleðann fram og aftur um túnið. Ég man líka ennþá hversu ofboðslega hræddur ég var þegar við föttuðum að við höfðum gleymt að fylgjast með tímanum og sáum að Arnar var kominn heim úr skólanum. Sú hræðsla var ekki ástæðulaus því við fengum frekar miklar skammir frá stóra bróðir þegar við dóluðum heim að bæ skömmustuleg, ekki var Polarisnum stolið oftar þennann veturinn.

Svona þegar litið er til baka skilur maður það svo sem alveg, ekkert mjög gáfulegt að 8 ára drengur sé að þeysa svona um grundir, hjálmlaus í þokkabót með 10 ára gamla systur sína aftan á.

En þetta var rosalega gaman meðan á því stóð.

Þar til síðar

mánudagur, janúar 21, 2008

Þeytingur

Góðann daginn og gleðilega vinnuviku

Það er búinn að vera hálfgerður þeytingur á mér síðan síðast, byrjaði á því að vera fyrir norðan um þarsíðustu helgi, til hvers, jú auðvitað að skoða kýr. Lokaverkefnið mitt hér í skólanum gengur út á að ég fari í Skagfirsk fjós og skoði kýrnar þar. Það sem var einnig skemmtilegt við þessa ferð var að ég skrapp á leik hjá mínum gömlu félögum á föstudagskvöldinu, og ef mér skjátlast ekki þá var þetta fyrsti meistaraflokksleikur Tindastóls sem ég horfi á úr stúkunni á Króknum síðan vorið 1999, því árið eftir þá var ég á ritarborðinu ásamt Matta Rúnars og svo var maður kominn á bekkinn eftir það.

Skaust svo dagsrúnt á fimmtudaginn síðasta, fór á Hól í Sæmundarhlíð og Marbæli, þar sem ég sýndi gamalkunna takta og gleymdi stígvélunum mínum á Marbæli, vel gert Axel.

Á föstudaginn fór ég til Reykjavíkur að taka enskupróf og á laugardaginn var komið að því að fara á suðurlandið, því ég og Sóley áttum pantaðann kvöldverð og gistingu á Hótel Rangá. Sú upplifun var mjög góð, að sjálfsögðu stóð lambakjötið upp úr eins og við var að búast, og að ég fékk bjórinn minn frítt. Á sunnudaginn ákváðum við að taka smá rúnt í Fljótshlíðina, því Steingrímur sagði mér að þar væri fegursta sveit suðurlandsundirlendisins og þótt víðar væri leitað. Í stuttu máli þá var Fljótshlíðin svona..... já hún var bara eins og hún er. Við skulum allavega segja að ég skil núna af hverju Steingrímur er svona flatur og leiðinlegur í skapinu.


Eitthvað segir mér að JR hafi verið aðeins kenndur þegar hann kommentaði undir síðasta póst en ef hann kemur með eina línu í viðbót þá skal ég reyna að botna þetta fyrir hann:)

Læt fylgja með mynd af svartsíðóttri kú.

Þar til síðar

mánudagur, janúar 07, 2008

Mánudagur til mæðu

Þetta byrjaði sem góður dagur, ég gekk út í morgunsárið, horfði yfir Andakílinn og mynni Lundarreykjardals. Veðrið var stillt, með hvítri föl yfir foldinni. Gamli Sorrý Gráni var ræstur og malaði undursamlega að vanda. För okkar var heitið á Hvanneyri þar sem lá fyrir að taka upptökupróf í dýrafræði hryggleysinga. Ég hitti Steingrím upp á loftinu í Nýja-Skóla. Hann var eldrauður og nývaknaður og gott að sjá að þessar helstu stoðir í tilverunni breyttust ekki í jólafríinu.
Prófið gekk eins og í sögu, hver fróðleikurinn af öðrum um krabba, lindýr og æxlun ánamaðka spratt fram af blýpennanum. Það gekk einnig vel að halda árámótaheitið mitt sem er að verða skipulagðari á nýju ári og varð margt úr verki fram eftir degi. Ég og Sóley héldum svo síðdegis í höfuðborgina, því meiningin var nú að hitta sérfræðing út af fætinum á mér.
Ég byrja á því að fara í móttökuna í röntgendeildinni í Orkuhúsinu, skrái mig þar inn og fæ svo að fara á snyrtinguna meðan ég bíð eftir því að vera kallaður inn. Þegar ég kom til baka af snyrtingunni þá var konan í móttökunni ekki á svæðinu, en kemur eftir smástund, horfir undrandi á mig og segir ,,hva, bara búinn?". Þar sem ég var ekki viss hvort hún ætti við klósettferðina eða myndatökuna þá ákvað ég að þegja og bíða eftir nánari útskýringu, hún átti víst við myndatökuna.
Eftir myndatökuna fór ég upp á fimmtu hæð til að hitta sérfræðinginn. Hann var kominn með myndirnar í tölvuna sína og fer að sína mér þær. ,,Já þetta lítur bara vel út, grær allt saman rétt og vel", fór þá að lyftast brúnin á mínum og brosið orðið ansi breitt. Síðan leggst ég á bekkinn og Sérfræðingurinn spyr hversu langt er síðan ég brotnaði. ,,Rétt rúmar sex vikur" svara ég og hann svarar strax ,,já svona stutt", eitthvað dofnaði brosið en ég var engann veginn undirbúinn fyrir það sem kom næst:

,,Þú verður orðinn góður eftir sex vikur"

Sex helvítis vikur var staðreyndin, en lítið hægt að gera en að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Þetta er víst bara standard tíminn fyrir svona brot. Blóm og kransar eru afþakkaðir en þeir sem vilja minnast mín geta gefið mér pening svo ég geti keypt mér eitthvað skemmtilegt.

Boðskapurinn er: Aldrei að tala við þessa sérfræðinga fyrir sunnan.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð