mánudagur, október 06, 2008

Ávarp

Kæru samlandar

Síðastliðnir dagar hafa verið æði sérstakir. Tilfinningin sem ég hef fengið við að sitja hér við Dónárbakka og fylgjast með fréttum heima á netmiðlum Íslands, er líkust þeirri tilfinningu sem ég fæ við að horfa á hádramatíska kvikmynd, svo ótrúlegar eru sumar fréttirnar. Þetta horfir sjálfsagt öðruvísi við ykkur flestum, verandi í miðri hringiðunni og finna fyrir þessu, alveg inn að beini.
Vissulega kemur ástandið sér illa fyrir efnahaginn á mínu heimili, það er auðvitað svona nokkuð þungur baggi að leigan sé búin að hækka um 20.000kr. en þar sem ég hef ekki ennþá tekið ákvörðun á lífsleiðinni sem hefur valdið því að ég hafi grætt pening, er ég í nokkuð góðri æfingu að tapa. Hinsvegar hef ég engar áhyggjur af því að við eigum ekki eftir að standa þennann storm af okkur, við höfum jú ennþá sterkar stoðir þjóðfélagsins til staða, eins og t.d. landbúnaðinn og Kaupfélag Skagfirðinga. Ég tók þá ákvörðun nú í dag að megnið af mínu sparifé sem var til staðar hjá Glitni verður fært þaðan og til innlánsdeildar Kaupfélags Skagfirðinga, hvet ég ykkur eindreigið til að gera slíkt hið sama.
Til þess að létta okkur lundina svona í lokin þá tilkynni ég það hér með að ég verð heima í Skagafirðinum nánast frá 20-21. des. til loka janúarmánaðar. Þarf að vísu að skjótast til Budapest og taka eitt próf þann 6. jan, en kem heim aftur eins fljótt og auðið er. Að sjálfsögðu mun ég taka skóna (vonandi báða í þetta skiptið) með mér heim og taka nokkra leiki með mínum gömlu félögum, og verð að viðurkenna að ég er orðinn helvíti spenntur fyrir þessu.

Íslandi allt

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð