mánudagur, október 30, 2006

Bara snilld

Þessa frétt verða allir að sjá.

Góður smalahundur.....

Þar til síðar

fimmtudagur, október 26, 2006

Nýjustu skúbbin úr mjólkuriðnaðinum

Smá slúður innan mjólkurgeirans sem ég er búinn að vera frétta síðustu daga, heimildarmenn vilja ekki láta nafn síns getið.

  • Strax orðnar tafir á byggingu nýrrar mjólkurstöðvar á Selfossi.
  • Mjólka keypti kvóta, kýr og mjaltatæki á Grjóteyri við Meðalfellsvatn og leigir fjósið af ábúenda.
  • Líklegt þykir að mjólkinni af vesturlandi verði keyrt suður á Selfoss daginn eftir að hún er tekin frá framleiðanda eftir að samlaginu í Reykjavík verður lokað.
  • Mjólka bauð bóndanum á Eyjum I að taka þátt í endurnýjun á fjósinu í staðinn fyrir að hann færði innleggið yfir til þeirra, en hann neitaði.
  • Mjólka leytar fyrir sér með stærri mjólkurstöð, og segir sagan að þeir hafi hug á að kaupa gamla samlagið á Hvammstanga.
Þar til síðar

mánudagur, október 23, 2006

Hreðjarsferð í Dalina

Ferð hrútavinafélagsins Hreðjar á haustfagnað í Dölunum

föstudagur, október 20, 2006

Æ ég veit það ekki

Þegar ég kláraði seinna prófið mitt í morgun í þessari prófatörn langaði mig mikið til að sýna sömu takta og Sveinn Blöndal sýndi á æfingamóti á Akureyri í haust, við vorum að spila við Þórsara og vorum 20 stigum yfir og lítið eftir, Sveinn setti niður eitt víti og öskraði YES!!! svo það glumdi í húsinu..... merkilegir þessir menn með ættarnöfnin.

En á morgun gerist það , ég er að fara með Sveini Hauk að Neðra-Hálsi í........ Kjóós. Vannst aldrei tími til þess að kenna mér rúntinn þar í sumar, og betra er seint en aldrei. Klaufaskapur haustsins að vinna ekki í Keflavík, en svona er þetta. Og enn og aftur vitna ég í Stóradalsbóndann eftir að hann fékk einkunina 1 í eðlisfræði 103 í FNV "aldrei sæjust fjöllin ef engir væru dalirnir".

Púff nú munaði litlu að ég gleymdi aðalmálinu. Ég vil óska afmælisbarni dagsins til hamingju með afmælið en þennann dag á því herrans ári 1987 skreið af færibandi í Stuttgart í Bæjaralandi sjálfur Höfðinginn, og fyrir 19 árum hefur starfsmenn Daimler-Benz verksmiðjanna örugglega ekki grunað hversu mikil áhrif á mannkynssöguna þessi vagn ætti eftir að hafa.

Þar til síðar

laugardagur, október 14, 2006

Ekki er allt sem sýnist

Helvíti þunnur núna, skellti mér í borg óttans í gær með Pálma og Land-Rovernum. Byrjuðum á því að fara í partý heima hjá Sigga hans Jóns Sig frá Reynistað þar sem var almenn gleði og söngur. Fórum svo niður í bæ og sést vel að ég hafi fengið að ráða miklu um staðarval því við fórum inn á Sólon því þar var enginn röð og þar er bar og það hefur nú yfirleitt dugað mér og vorum þar allann tímann. Komum svo við á stað sem heitir Nonnabiti eða eitthvað álíka þar sem ég var með fyllerísröfl, dólgskap og almenn leiðindi, talaði hátt og mikið um matvælaverð, flokkun sláturlamba og Guðna Ágústsson. Man eftir því að það voru 2 drengir sem hlógu mikið að mér en ætli flestir hafi ekki verið komnir með mikla leið á mér....... sem er mjög gott. Land-Roverinn á hrós skilið fyrir að nenna að keyra okkur.

Þar til síðar


fimmtudagur, október 12, 2006

Nýtt útlit........ sama fíflið

Ahhh... djöfull líður mér vel núna eftir að hafa belgt mig út af beikonvafðri önd sem Sjarminn reiddi fram af sinni einskæru list í hádeginu, hann bauð reyndar líka upp á kaffi með landa en ég lét það eiga sig að þessu sinni.

Fékk óvæntan glaðning í gær frá Eftirlitsmanni Íslands sem hafði í frítíma sínum búið til nýtt útlit á síðuna mína og tók ekkert fyrir, ekki einu sinni beingreiðslur né grænar greiðslur, og þökkum við honum kærlega fyrir það.

Mæli eindregið með því að fólk skoði kastljósið frá mánudagskvöldinu og horfi á þegar Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson skeggræddu um landbúnaðarmál, og skiptir þá engu máli hvar fólk stendur í þessum efnum heldur var gaman að sjá af hversu mikilli vankunnáttu Össur talaði um landbúnaðarmál.

Þið hafið það eins og þið þolið.

mánudagur, október 09, 2006

Yfirlit

Já það hefði ég nú haldið. Prófavikur hafnar og alveg ótrúlega merkilegt hvað maður kemur miklu í verk í prófavikum...... nema því að lesa undir próf. Sem dæmi má nefna að ég og Einar vöskuðum upp í dag og settum í 3 þvottavélar. Planið er svo að ryksuga á miðvikudaginn en það hefur nú ekki verið gert síðan 1. vikuna í september. Það er svona þegar það er nóg að gera á stóru heimili.

Svaraði neyðarkalli Sveins Hauks og leysti hann af í mjólkurakstrinum á laugardaginn, gaman var að hitta aftur Þórð á Gunnlaugsstöðum, fjölskylduna á Kvíum, Tóta á Steindórsstöðum og hvað þeir heita nú allir bændurnir í framsveitum Borgarfjarðar. Var reyndar svolítið þreyttur því ég fékk ekki að sofa í nema 1 og 1/2 tíma um nóttina því að þarfanautið á Skólaflötinni var týnt og var umfangsmikil leit á ganginum.

Ég tilkynni það með miklum trega í hjarta að einhverjar k************* að sunnan hafa ákveðið að hafa árshátíðina þann 18. nóvember og því verður ekkert úr þeirri áætlun minni að hrúga að mér Skagfirðingum og verða blindfullur því það er leikur þann 19. nóv.


Þar til síðar

fimmtudagur, október 05, 2006

Nú er lag

Skora á alla Skagfirðinga og sveitamenn að mæta í Laugardalshöllina kl. 18.55.......

Nú gerist það.....

miðvikudagur, október 04, 2006

Magnað

Fréttin um Þórð gröfukall

Ef þetta er ekki fréttamennska í sinni glæsilegustu mynd þá veit ég ekki hvað.

þriðjudagur, október 03, 2006

Klukkan er 5

Jón Thordarson er mjög merkilegur maður. Ég kynntist honum fyrst í vor þegar ég fór upp að Hesti til að líta á Einar Kára sem var á næturvöktum í sauðburði. Þá kynnti Einar mig fyrir þessum manni sem sér um að lesa fréttirnar á Ruv á nóttunni, og svolítið sérstakt.

Mig óraði ekki fyrir því þá að nánast í allt sumar var þetta fyrsta mannsröddin sem ég heyrði á morgnanna þegar ég setti mjólkurbílinn í gang rétt fyrir 5 að staðartíma í sýrunni.

Ánastaðir heiðra því Jón Thordarson fyrir ómetanleg störf í þágu þjóðarinnar, allavega þess hluta sem er vakandi á ókristilegum tímum.

Hægt er að heyra hans fögru rödd hér

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð