föstudagur, maí 06, 2011

Met er fallið

Gott föstudagskvöld kæru vinir

Já á þriðjudaginn síðastliðinn þá sló ég persónulegt met, en þá hafði ég verið samfellt 117 daga í burtu frá Íslandinu fagra. Eldra metið átti ég frá haustönninni í Budapest. Með hverjum deginum sem líður nú eyk ég við metið, en heimkoma er nú áætluð að kvöldi 24. júní, sléttar 7 vikur er þetta er skrifað. Það eru auðvitað töluverð vonbrigði að ná ekki að koma heim á Jónsmessunótt, en svona er þetta bara stundum.

Orðið mjög langt síðan ég setti eitthvað hér inn. Aðalástæðan fyrir því er sú að ég, í félagi við Eyfirðinginn Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur  og Dalamanninn Eyjólf Ingva Bjarnason hef unnið að því í nokkurn tíma núna að koma á fót veftímariti um landbúnaðarmál. Þessi útgáfumál munu líklega eiga hug minn og hjarta næstu mánuðina. Verður áhugavert að sjá hvernig þetta mun koma út. 

Ég er ekki viss um að það hafi komið neitt vor hér í Danmörku. Það stökk bara beint úr 0-5 gráðum í 15-20 stig, sem getur orðið svakalegt á köflum fyrir mann eins og mig, kemur fyrir að ég svitna við það eitt að hugsa. Það segir kannski meira um hvað gengur á inn í höfðinu á mér heldur en veðurfarið. Á svona fallegu föstudagskvöldi eins og er nú á Sjálandi fæ ég gríðarlega löngun til þess að taka rúnt á Höfðingjanum, t.d. fram í þá fallegu hlíð, Blönduhlíð. 

Annars erum ég og umboðsmaðurinn minn, Magnús Magnússon frá Þverá, nú betur þekktur sem Agent Momo Jr. farnir að skipuleggja sumarið. Óhætt er að segja að ég verði undir skónum á Agent Momo kvölds og morgna. Ekki nóg með að hann verði sami helvítis þrælahaldarinn upp á þaki í pappanum, þá verður hann líka einkaþjálfarinn minn í sumar. Mun Momo sjá um tæknilegar æfingar tengdar körfubolta, leikskilning og þess háttar. Honum til halds og traust verður frændi hans, Stefán Steinþórsson, nú þekktur sem Silvio "Mr. Big" Giancana. Mr. Big mun sjá um og bera ábyrgð á líkamlegu atgervi mínu eftir sumarið. Þetta verður gott sumar.

Lifið heil að sinni.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð