fimmtudagur, október 02, 2008

Gengið til góðs

Góðann dag kæru lesendur

Nei það er nú varla hægt að segja að gengið á íslensku krónunni séð til góðs þessa dagana, nema kannski fyrir sjómennina. En alveg er þetta magnað með ykkur þarna heima, ég má varla bregða mér aðeins frá, þá ráðið þið bara ekki neitt við neitt. Svo sá ég á mbl.is í gær að það er verið að spá því að ástandið gangi ekki yfir að fullu fyrr en eftir 4-5 ár, sem er náttúrulega eðlileg spá því þá kem ég heim aftur.

Varðandi Hvanneyringa í framhaldsnámi, þá væri það kannski ráð að Landbúnaðarháskólinn myndi hafa sérstakann áfanga um lífið í útlöndum, t.d. er Budapest ekki nema 4000 sinnum stærri en þorpið á Hvanneyri, þannig að það er ekki furða að maður kunni ekki að haga sér hérna. Kennari áfangans yrði Maríus Snær Halldórsson, heimsborgari.

Sá á heimasíðu Vegagerðarinnar að það er allt orðið hvítt á Vatnsskarðinu og Þverárfjallinu, dásamlegt alveg. Hérna hefur hitinn verið að hækka 2 síðustu daga, var í 18°C í dag og spáir 20°C á morgun. Fróðir menn segja mér að það sé u.þ.b. mánuður í veturinn... en ég er við öllu búinn, tók síðbrókina með mér.

Er að spá í að hvíla mig aðeins á borgarlífinu á laugardaginn, ætla að skoða gráa nautgripakynið þeirra Ungverja. Það væri náttúrulega skemmtilegast að taka lestina eitthvað austur á sléttuna miklu, en ef ég nenni því ekki þá tek ég lestina út fyrir bæinn og fer á dýraspítalann fyrir stór dýr sem skólinn rekur, einhvern hálftíma frá Budapest, þar eiga að vera nokkrir gripir.
Í dag eru 3 vikur í að drengirnir mæti, vorkenni samt Arnari og Loga að þurfa að vera með Tobíasi í flugvél í fleiri, fleiri klukkutíma.... ekki myndi ég nenna því.
Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð