þriðjudagur, september 21, 2010

Eitt og annað

Heil og sæl og verið velkomin að tölvuskjánum

Rúnar Birgir Gíslason sveitungi minn benti mér á umsögn dansks netblaðamanns, þar sem hann er að spá í spilin fyrir veturinn í dönsku körfuboltadeildinni. Ekki nóg með að hann spái liðinu mínu, Værlöse, næst neðsta sæti, þá segir hann að í liðinu sé Færeyingur sem spilar gróft. Þessi maður hefur greinilega ekki hundsvit á körfubolta, ég er ekkert grófur.

Síðastliðin ár hef ég ferðast töluvert á milli landa, og ávallt notað til þess flugvélar. Það liggur því í augum uppi að oft hef ég þurft að fara í gegnum þessi gegnumlýsingar- og öryggishlið á flugvöllum Evrópu. Eftirminnilegt er þegar ég var stoppaður með 3 kg af óhrærðu skyri og gert að afhenda það yfirvöldum til förgunar, sökum þess að þetta er vökvi, gamli var nú ekkert sérstaklega sáttur með það. Þessi hlið eru þó ekki óbrigðul, um páskana 2009 fór ég 6 sinnum í gegnum öryggishlið með 9 skurðarblöð í töskunni, því ég hafði gleymt að taka þau úr eftir síðasta verklega líffærafræðitímann fyrir þá páska. Svo gerðist það þegar ég var að koma mér fyrir hér úti í Kaupmannahöfn að ég komst að því að ég hafði farið í gegnum öryggishliðið í Leifsstöð með 2 og 1/2 tommu nagla í vasanum.

Enn og aftur að senegalska liðsfélaga mínum, hann sagði við mig um daginn að hann hefði gaman af bandaríska sjónvarpsþættinum Desperate Housewifes. Það er eitthvað svo rangt við að 208sm, helmassaður Afríkumaður hafi gaman af slíkum kellingaþætti.

Ég fékk fyrsta gestinn minn frá Íslandi í síðustu viku. Það var nú ekki uppeldisfélagi, sveitungi eða gamall skólabróðir eins og búast hefði mátt við, nei það var sjálfur Darrell Flake, eini maðurinn sem ég hef spilað með bæði undir merkjum Skalla-Gríms og Tindastóls. Hann þurfti að skreppa frá Íslandi útaf einhverju dvalarleyfis-dæmi og var hjá mér í góðu yfirlæti í 3 daga.

Svo styttist í fyrsta leik, ekki laust við að það sé kominn þónokkur spenningur.

Mæli svo að lokum eindregið með viðtali Kristjáns Más Unnarssonar við Þorbjörn Pétursson, bónda að Ósi í Mosdal við Arnarfjörð. Þetta er maður að mínu skapi, borðar ekki grænmeti og leiðist í Reykjavík.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð