mánudagur, maí 22, 2006

Nú skal ég í Skagafjörð

Ég átti hálf erfitt með að einbeita mér í prófinu í morgun, tapaði mér alveg í gleðinni yfir því að vera á leiðinni heim í dag. Sá að vísu á myndavélinni upp á sjúkrahúsinu að það er hálf kuldalegt heima, en það skiptir ekki máli hvort Skagafjörðurinn er hvítur, grænn eða sólgylltur.... hann er alltaf jafn fallegur.

Mig grunar sterklega að líters Reyka Vodka flaskan mín muni ekki lifa af helgina.

Þar til fyrir norðan.

föstudagur, maí 19, 2006

Viti menn

Ég lenti í miklum vandræðum í gærkvöldi þegar ég var að horfa á Júróvísjon. Ástæðan fyrir því að þar börðust tveir andstæðir pólar þegar ég var að mynda mér skoðun á uppáhaldslaginu, heyrnin í mér annars vegar og sjónin mín hins vegar. Stríðið stóð sem sagt á milli finnska lagsins og þess eistneska lagsins hins vegar, hvort átti ég að láta gothic rokkið sem lét óneitanlega betur í eyrum hafa vinninginn eða þessa myndarlegu sænsku stelpu fá minn stuðning (allt er vænst sem vel er sænskt). Ég ákvað að leyfa heyrninni að ráða í þetta skiptið sem sárabætur fyrir skemmdirnar sem urðu á henni í vor þegar dráttarvéladekkið sprakk framan í mig.

ÁFRAM LORDI!!!!!!!

Þar til síðar

þriðjudagur, maí 16, 2006

Er völlur grær

Já börnin góð nú er allt á fullu, hvort sem það eru blessaðar plönturnar í sprettu, litlu lömbin að koma í heiminn, pólitíkusar að agitera fyrir flokkinn eða ég að baslast í prófum. Þetta er náttúrulega engu lagi líkt að halda manni innandyra inn í mitt sumar, réttast væri að draga svona fólk fyrir kýrtussurétt.

Geypileg vonbrigði áðan þar sem mér tókst ekki að vinna keppnina um að verða fyrstur út úr vistfræðiprófinu þrátt fyrir að sveifla pennanum eins og herforingi, Unnur fór með sigur af hólmi og óska ég henni til hamingju með það, eina sárabótin er sú að Búvísundar röðuðu sér í 3 efstu sætin.

Þar til síðar

þriðjudagur, maí 09, 2006

Vi er röde, vi er hvide...... vi er pissefuld

Mættur á hina farsældu frón eftir magnaða ferð til Danmerkur.

Um leið og ég lenti var ég dreginn á æfingu með Amager, og í stuttu máli sagt var það frekar erfitt eftir drykkju síðustu vikna, en mér tókst nú samt að brjóta á einum þannig að hann lá í gólfinu og þá var takmarkinu náð.

Við komust til Århus einhverntímann eftir óttu. Gerðum einhverja kellingu brjálaða í lestinni, hún reykti sitt allra besta , dró augað í pung og sagði hold din kjæft...... skömmu síðar dó hún. Okkar glæstasti tími var tvímælalaust fimmtudagskvöldið. Stíf drykkja hafði hafist nokkuð snemma og morgunin eftir mundi ég lítið nema það hvað Glaumur hefði verið fullur. Seinna kom nú ljós að ég hefði mígið utan í einhvern vegg (sem er tekið mjög hart á í Århus), gert einhverja bíleigendur brjálaða með því að banka í bílinn þeirra og sett af stað þjófavarnarkerfi í verslun með því að hlaupa á hurðina sem dregin er niður á lokunartíma. Setti ég héraðsmet í spretthlaupi án minnis svo að við kæmumst í burtu áður en löggan kæmi.

Óli Barðdal, sem eitt sinn var valin bjartasta vonin í golfheiminum í flokki rauðhærðra sem unnið hafa í minkabúi var leiðsögumaður hjá okkur á föstudagskvöldið. Ekki það að það sé erfitt að vera lóðsi fyrir okkur, bara finna næsta stað sem selur áfengi og þá erum við sáttir.

Danir eru með ótrúlega áráttu fyrir því að tala dönsku við mann, þó svo að maður sýni það mjög greinilega að maður er ekkert að skilja þá. Glaumur svaraði bara alltaf í sömu mynt og talaði bara íslensku við þessa bauna "Já ég ætla að fá svona double cheeseburger.... hvaðan ert þú góði?"

Við gerðum svo eiginlega ekkert annað nema að drekka vín og kaupa verkfæri, og lentum að sjálfsögðu í vandræðum með þau í tollinum, en það reddaðist að lokum eins og ævinlega.

Svo fékk ég sms í morgun um að vegabréfið mitt væri í vörslu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli........ neeeei ég er ekkert gleyminn.

Svo er spurning hvenar við félagarnir tökum okkur til og hoppum upp í næstu flugvél næst....... við erum jú heimsborgarar.

Þar til síðar

Og að lokum til mikilvægasta bensíntitts 20. aldarinnar, þá skal ég lýsa stafina og svo þurfti ég að taka myndina í burtu en ætla að búa til nýja þegar ég fæ myndirnar úr ferðinni, gleymdi nefnilega myndavélinni fyrir sunnan.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Gegndarlaus pæling

Flest af ykkur vita sjálfsagt að ég er á leyðinni til Danmerkur á morgun, nánar tiltekið skömmu eftir hádegi. Það rifjuðust upp fyrir mér bakþankar einhverjar konu (sem ég man ekki nafnið á) í Fréttablaðinu fyrir ári síðan eða svo. Þar talaði hún um það hversu merkilegt það væri með Íslendinga, að ef þeir fara til útlanda þá er það algjörlega lífsnauðsynlegt að vera fullur í flugstöðinni á leiðinni út, og skipti þá engu hvort brottför væri við dagmál eða í kringum lágnætti. Ég er nefnilega í þeirri aðstöðu núna að geta ekki verið fullur á leiðinni út því ég þarf að mæta á körfuboltaæfingu um leið og ég kem út. Og mér finnst ég vera að missa af ótrúlega stórum hluta af ferðinni með því að þurfa að vera edrú og horfa á Rúnar, Þorberg og Helga drekka frá sér allt vit á barnum í Leifstöð......... maður fær sér nú kannski einn.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð