föstudagur, febrúar 20, 2009

Hvadda gera?

Jó éstet gott fólk.

Loksins komin helgi. Ekki það að þessi helgi verði eitthvað ofurspennandi frekar en liðnar helgar eða þær næstu. Það verður líklega lærdómur í fyrirrúmi. Reyndar er ég mikið að pæla í því að bregða mér í IKEA á morgun, reyndar ekki til að kaupa húsgagn, næturgagn eða neitt slíkt, heldur frétti ég af því í vikunni að þar fást hinir rómuðu sænsku kanilsnúðar. Þið kannist nú öll við þá, heita Kanilgiffler á frummálinu og eru í rauðum pokum (núna er Tobías örugglega byrjaður að tuða eitthvað um að hann kannist ekkert við þetta drasl og farinn að bölva mér).

Undirhundarnir spiluðu sinn fyrsta leik í B-deild háskóladeildarinnar í gær. Kerfið er þannig að veturinn er í raun 2 aðskilin tímabil þannig að við færðumst upp um deild núna um áramót. Skemmst er frá því að segja að leikurinn var sigur....... auðveldur sigur. Munurinn var einhver 30 stig og Sólheimahundurinn með 42 kvikindi.

Það stóð nú samt ekki upp úr, heldur það hversu leiðinlegur ég var við einn leikmann andstæðingana. Þetta var maður rétt hærri en ég, og alveg helmassaður. Því miður fyrir hann voru körfuboltahæfileikarnir af skornum skammti, og ég vék mér upp að honum snemma leiks og sagði við hann að það væri ekki nóg að vera massaður, það þyrfti líka að vera sterkur. Mig langaði reyndar segja við hann það sama og Gamli Sólheimahundurinn sagði eitt sinn við mig, "það er ekki það sama að vera sterkur og vera vinnusterkur" en ég kunni nú bara einfaldlega ekki að snara því yfir á enskt mál í slíku snarhasti. Svo sagði ég við hann að dómararnir voru að gefa honum alltof mikið og hann hlyti að klikka á fyrra vítaskotinu vegna þess að þetta var alls enginn villa á mig. Auðvitað klikkaði hann, og ég minnti hann á orð mín. Svo fékk hann oft að heyra það þegar ég náði frákasti en ekki hann og svo framvegis. Það var farið að gæta pirrings hjá honum undir lokin og einu sinni setti hann öxlina á sér þéttingsfast í brjóstkassan á mér, ég greip um brjóst mér og sagði honum nokkrum sinnum hversu vont þetta hefði verið, hann kom hins vegar með kombakkið "shut the fock up". Næst þegar leikur var stöðvaður henti hann boltanum í hausin á mér, mér fannst það bara fyndið.

Svo er spurning hvort ég ætti ekki að taka það upp á næsta level að vera leiðinlegur í næstu viku. Troða mér á milli á bekk andstæðingana í leikhléum og spurja "er ég að trufla?".

Eftir leikinn komst ég svo að því að þjálfarinn minn, sem er á 4. ári þurfti að vakna kl. 3.30 í morgun því hann var að fara í fjósskoðun með bekknum sínum. Ég sendi hann strax í það mál að athuga hvort ég mætti ekki koma með í næstu ferð, og ef það er hægt þá skelli ég mér, það er alveg pottþétt.

Íslandi allt.

laugardagur, febrúar 14, 2009

Enginn leikur....

Góðann daginn

Mér finnst það bara ekkert sérlega sniðugt að á meðan ég sit hér og hugsa um efnaskipti og hitastjórnun líkamans fyrir prófið á mánudaginn, þá er ansi stór hluti Skagfirðinga við hugann við svolítið annað. Já sameiginlega blótið er í kvöld, líklega í síðasta skipti með þessu sniði eftir því sem mínar heimildir herma. Ég tek þessu nú eins og hverju öðru hundsbiti, ég mæti bara margefldur árið 2013.

Annars er mál málanna núna bekkpressukeppnin sem ætla í við Hr. Tobías í sumar. Undirbúningur ef hafinn hjá mér, en Tobías er byrjaður með einhverjar afsakanir strax.

Lífeðlisfræðikennarinn minn, hann Tíbor Bártha, kom með mikla speki í liðinni viku. Í fyrsta lagi sagði hann frá því að 40% af heilbrigðiskostnaði hvers manns fyrir ríkið liggur í 2 síðustu vikum ævinnar.

Í annann stað var hann að útskýra hvað feed-forward mekanismi væri (ætli það væri ekki "fyrirfram-viðbrögð við breytingu á ástand" á íslensku). Tók hann sem dæmi þegar hann kom inn á McDonald´s einu sinni við þjóðveg. Það var ekki kjaftur á svæðinu en samt var búið að kveikja á öllum pönnum og pottum og framleiðsla á fullu. Eftir smástund komu 2 rútur fullar af fólki og allt klárt til þess að afgreiða það. Það var semsagt svona feed-forward að rúturnar hafi hringt á undan sér og látið setja allt af stað á McDonald´s.

Og í þriðja lagi þá var hann eitthvað að tala um losun líkamans á efnum, og sagði að líkaminn losaði sig strax við helminginn af bjórnum sem við drekkum, þetta var það eina sem ég man úr þessum tíma.

Góða skemmtun á blótinu.

Íslandi allt.

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Viltu með mér vaka er blómin sofa.

Gott kvöld góðir hálsar.

Þá hef ég snúið aftur til Budapest. Eins og eðlilegt er, þá var frekar erfitt að kveðja Íslands fögru grundir, en þetta verður nú allt gott og blessað þegar ég verð kominn inn í daglegt líf hérna aftur.

Ég var spurður að því hérna úti hvað ég hefði gert í jólafríinu. Svarið var eitthvað á þá leið að ég hefði verið að njóta lífsins með hundunum fram að hádegi, svo horft á 2-3 leiki í háskólakörfuboltanum, farið á æfingu og svo þjálfað drengjaflokkinn. Óskaplega var það nú gott líf. Ekki má nú gleyma því að ég sýndi mig þónokkuð og sá aðra. Sem dæmi þá tók ég svokallað tvennutilboð og skellti mér á þorrablót 2 kvöld í röð, í Lýtingsstaða- og Skarðshrepp. Þar vorum við félagarnir í toppformi, enda toppnáungar. Annari tvennu náði ég um síðustu helgi í Krísuvík. Var að sjálfsögðu kíkt í bæinn bæði kvöldin.

Skemmtilegast var samt eiginlega þegar ég og Ari þurftum að útrétta aðeins á laugardaginn. Verkefnið var að skipta á frystikistu fyrir ísskáp í Elko. Sökum heilsubrests tók það okkur ekki nema 4 tíma, enda átti ég svo sannarlega skilið að fá mér bjór eftir það.

Á leiðinni út þurfti ég að stoppa í Kaupmannahöfn aldrei þessu vant. Hún Ása frænka mín tók á móti mér og bauð mér í heimsókn því ég þurfti að stoppa svo lengi. Þar spjölluðum ég, Ása og Jörgen maðurinn hennar mikið, og drukkum bjór og ákavíti. Ég verð að viðurkenna að þar sem ég hef aldrei á ævinni talað dönsku fyrir utan að panta mér pylsu, þá var mér eiginlega farið að svima eftir að tala samfleytt í 4-5 tíma.... það hefur kannski bara verið bjórinn og ákavítið.

Læt þetta nægja í bili.

Íslandi allt.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð