mánudagur, febrúar 25, 2008

Próf

Komið þið sæl, vér heilsum úr Andakílnum á fallegum og björtum vetrardegi.

Ég vil byrja á því að óska Snæfellingum til hamingju með bikarmeistaratitilinn..... og ekki orð um það meir.

Ég skellti mér á þorrablót þeirra Lunddælinga upp í Brautartungu á laugardagskvöldið. Var það hin besta skemmtun en Helgi á Snartarstöðum á tvímælalaust atriði kvöldsins er hann las upp ljóðið "Slappaðu af" sem Flowers fluttu hér um árið. Rúnar Júl og synir sáu um dansiballið og voru bara helvíti þéttir, þó svo að hléin hafi verið 2. Heiðar mágur fór á kostum og hreinlega átti dansgólfið, slíkar voru sveiflurnar.

Ég er nú svona eitthvað að komast á skrið í boltanum, formið var nú ekki alveg upp á 10 þegar ég byrjaði aftur, Sveinbjörn Eyjólfsson kom með þá leiðinlegu staðreynd við mig á blótinu að Skallagrímur er búinn að tapa öllum leikjum síðan ég byrjaði aftur... kannski er betur heima setið en af stað farið. Nei andskotinn.

Það er prófatíð, alveg ágætt að fara í hana eftir strembna önn í skólanum. Ég held ég nefni það í hverri prófatörn hversu merkilegt það er að maður hefur allt í einu svo mikinn tíma til að gera eitthvað annað en að lesa bækur. Það verður reyndar kannski öðruvísi núna þar sem prófin eru fleiri en venjulega. Svo þegar þau eru búin tekur við lokaverkefnið og einn áfangi í landbúnaðarbyggingum... mikið óskaplega verður það ljúft.

Þar til síðar

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Allt á floti... í Bakkakoti hahaha

Jú góðann dag

Svolítið þreyttur þriðjudagur að hefjast. Ég fór norður í gær, með þeim tilgangi að heimsækja 2 bæi og það sem merkilegra var, að sækja Höfðingjann og fara með hann suður til að láta lækna hann. Ég fékk því lánaðann Jaxlinn hans Baldurs og kom að Syðstu-Fossum rétt fyrir 7 til að sækja kerruna hans Unnsteins. Það gekk nú heldur brösulega að komast af stað því kerran var föst í bremsu, en með hjálp WD-40 og þolinmæði þá losnaði bremsan fyrir rest. Ég skellti mér svo niður í Nesið til að setja olíu á Hrútinn og ætlaði svo Borgarhreppinn norður. En nei þegar ég kom í Borgarnes komst ég að því að vegurinn við Svignaskarð var farinn í sundur þannig að ég þurfti að fara til baka og fara norður Borgarfjarðarbrautina.

En norður komst ég, heimsótti 2 góðbændur og skellti Höfðingjanum svo upp á kerruna og hélt af stað. Þar sem ég fór aldrei upp fyrir 70 þá tók það mig um 6 tíma að komast til Reykjavíkur, með smástoppi í Múlakoti að vísu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það að Höfðinginn hafi nú einhvern tímann verið sneggri á milli Skagafjarðar og Reykjavíkur, en það er nú önnur saga.

En Höfðinginn er sem sagt kominn inn á göngudeild og verður því vonandi kominn á götuna innan tíðar.

Þar til síðar

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Biðin er á enda

Það gerist í kvöld gott fólk.... það gerist í kvöld

Þar til síðar

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Nú horfið Norðurland

Heilt og sælt ágæta fólk.

Þetta er sennilega fyrsta færslan í ansi langann tíma sem skrifuð er úr Skagafirðinum. Lokaverkefnið mitt er málið þessa dagana, bændur eru heimsóttir og kýr skoðaðar. Ég slumpaði á það að þegar verkefninu verður lokið verð ég búinn að skoða tja.... 720 kýr.... tvisvar.

Nú er sú stund liðinn upp að UMF. Skallagrímur hefur spilað sinn síðasta leik þetta árið án mín. Næsta fimmtudag brestur á með byljum og ég fæ loksins að snúa aftur og sá tími liðinn að einhverjir hottintottar fylli búning númer 4. Í dag eru liðnir 75 dagar síðan ég hreyfði mig síðast í körfubolta, gamla metið mitt yfir vetrartímann var sennilega 2 dagar, þannig að á fimmtudaginn næsta verða liðnir 82 sem gerir aukningu upp á 41.000%, ekki amaleg ávöxtun það.

Það er aðalfundur hjá ungum Framsóknarmönnum á morgun og svo þorrablót í íþróttahúsinu á laugardaginn, þannig að lykilorð þessarar helgar eru Skagafjörður, kýr, Framsóknarflokkurinn og skagfirsk skemmtun. Það vantar bara eitt og þá væri ekkert betra....

Þar sem Breki gat ekki látið mig í friði meðan þessi færsla var samin fær hann mynd af sér í lokin.


Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð