sunnudagur, febrúar 27, 2011

Að vera VIP

Góðan og blessaðan daginn

Nánast á hverjum sunnudegi í vetur hef ég farið í kvöldmat heim til formanns Værlöse, Kim Mikkelsen (kallaður Mikkel). Það byrjaði svona fyrst og fremst til að horfa á ameríska fótboltan, sem er einstaklega hentugt heima hjá honum því á veggnum hangir 60 tommu sjónvarp. Eftir að NFL- deildinni lauk, þá hef ég nú samt haldið áfram að fara til Mikkel í mat, við horfum þá bara á knattspyrnu og NBA. Á þessum sunnudögum hef ég tekið eftir því að Mikkel er maður sem hefur mjög gaman af því að fá fólk í heimsókn, því oft er mikið um gestagang þegar ég er þarna. Það þarf þá ekkert endilega að vera að fólk sé að koma í mat, heldur meira verið að detta inn, fá einn öl og horfa á leikinn.

Gróflega áætlað eru þetta um 10-12 manns sem tilheyra þessum hóp, og ég kalla þetta Søhaven-crewið, þar sem gatan sem Mikkel býr í heitir Søhaven. Það sem gerir þetta ennþá skemmtilegra er að það eru nokkrir þekktir einstaklingar í crewinu. Sem dæmi má nefna Niels Bjærregaard (40, Séð og heyrt stíll), sem er núverandi liðsfélagi minn, en fyrrverandi landsliðsfyrirliði Danmerkur og atvinnumaður í Evrópu, þannig að hann er svolítil goðsögn í dönskum körfubolta. 

Annar tappi er Gustav Juul, hann stjórnar sjónvarpsþætti á TV3 sem heitir Luksusfælden (Lúxusgildran). Þessi þáttur fjallar um að hann við aðra konu heimsækja fólk sem er komið með allt niður um sig í fjármálum sökum ofneyslu á lúxusvarningi. Svo er fólki sagt hvað staðan er slæm og það verður að hætta að kaupa hitt og þetta, með tilheyrandi gráti frá húsmóðurinni (Gustav segir reyndar að hann fái bónus ef það koma tár).

En aðalnúmerið er líklega Tékkinn Zdenek Pospech. Hann spilar stöðu hægri bakvarðar í byrjunarliði FC Köbenhavn, sem dæmi þá var hann í eldlínunni um daginn á móti Chelsea í Meistaradeildinni. Hann býr rétt hjá Mikkel og kemur meira að segja stundum á leiki hjá okkur. 

Svo er náttúrulega aðalspurningin hvort ég sé ekki bara hluti af sótsvörtum almúganum sem hangir utan á slíkum stórstjörnum, dæmi nú hver fyrir sig.

Við þetta má svo bæta að ég las um daginn að sjálfur Casper Christiansen úr Klovn býr her í Værlöse, spurning um að bjóða honum inngöngu í Søhaven-crewið.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð