föstudagur, október 17, 2008

Loftvarnir

Gott kvöld

Sá rétt í þessu að Össur Skarphéðinsson vill ekki að Bretar sinni loftvörnum fyrir Ísland, mikið óskaplega er það nú skemmtilegt. Í þessu eins og svo mörgu öðru finnst mér við Íslendingar vera að seilast um hurð til lokunar með því að fá útlendinga til að sinna þessu. Því er ég með þá tillögu um flugher Íslands, hann mun samanstanda af einni rellu, Hr. Tobías mun verða flugstjóri og Sprittarinn verður í faþegasætinu með haglarann grjóthlaðinn, feitann vindil í kjaftinum og bokku undir sætinu. Munu þeir sinna eftirlitsflugi yfir Íslandi á föstudögum frá kl. sextánhundruð þangað til Barinn opnar.
Óskaplega er nú fátt sem ég hef að segja frá sjálfum mér, ekki nema það að systir hennar Ölrúnar kom í heimsókn færandi hendi, því í fórum sínum hafði hún tóbaksdós, alveg himneskt. Helgin verður ömurleg þar sem það verður lærð lífeðlisfræði svo að ég geti einbeitt mér að öðru um næstu helgi...... og já ég er að fara í verklega líffærafræði í fyrramálið til að vinna upp tímann sem við missum næsta föstudag.
Já það er nefnilega 4 daga helgi eftir viku (Kóngurinn og Per kannast nú aldeilis við svoleiðis helgar) vegna þess að það er almennur frídagur á fimmtudaginn og svo gefið frí í skólanum á föstudag. Ég hlakka mikið til fimmtudagsins, því það er víst mikil óánægja með forsætisráðherrann hérna í Ungverjalandi og það verða mikil mótmæli, eðlisfræðikennarinn var að vara okkur við því í gær að vera á ferli. Í fyrra var víst skriðdreka stolið og hann keyrður eitthvað um borgina, og þá var ekki verið að mótmæla neinu, bara svona almenn fylleríslæti. Þannig að þetta ætti að vera áhugavert og ég mæti sko með upptökuvélina.
Íslandi allt

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð