miðvikudagur, október 27, 2010

Gervihnattaöld

Heil og sæl

Óvart liðinn rúmur mánuður síðan síðast, og ég sem ætlaði að vera svo duglegur að láta vita af mér. Það er nú reyndar engin brjálæðisleg stemning búin að svífa yfir vötnunum þennan mánuðinn, maður er bara að læra og læra og svo æfa og spila.

Ég er nú samt eitthvað búinn að líta upp úr slorinu. Ég bý rétt við vatn sem heitir Søndersø, sem útleggst þá sem Suðurvatn ef danskan sem ég lærði hjá Magnúsi í Sölvanesi er ekki að svíkja mig. Ég tók rúnt í kringum vatnið á reiðhjólinu mínu um daginn og rakst á búfénað, mér til mikillar ánægju, meðal annars Angus kú með fallegan nautkálf. Svo má geta þess að heimavöllur okkar Værløse manna er skírður eftir vatninu og heitir því fallega nafni Søndersøhallen.

Svo ég komi því bara frá strax, þá gengur okkur ekkert svakalega vel í boltanum þessi misserin, en ég er nú ekkert að farast úr stressi yfir þessu, þetta mun allt saman lagast.

Skellti mér til Budapest í síðustu viku til að taka svona eins og eitt próf. Ferðin hófst nú ekki giftursamlega, en ég missti af fluginu mínu. Þar sem þetta var í þeirri viku sem allir Danir eru í haustfríi var nú ekkert sérlega ódýrt að fá annan miða, en mér var alveg sama, það er nefnilega tvennt í þessum heimi sem ég á nóg af, og annað þeirra eru peningar. Ég vildi bara koma þessu prófi frá, og það hafðist.

Það má segja að ég hafi unnið mitt fyrsta ærlega handtak í Danmörku í gær. Hinn eiturhressi marakkóski liðsfélagi minn rekur verktakafyrirtæki, og einn starfsmaðurinn var veikur. Þannig að ég var kallaður út, og þurfti meðal annars að sýna gamla takta í hellulögn, og rífa upp gamalt eplatré, reyndar í fyrsta skipti sem ég geri slíkt.

Nú er ég kominn á það skemmtilega stig í dvöl minni í Danmörku að ég er meira en hálfnaður með tímann sem ég verð hér fram að jólum. Búinn að vera 57 daga og á 50 eftir, þannig að það styttist í að ég fá að líta hinar fögru grundir og háu hamrabelti Skagafjarðar.

Á morgun fer ég ásamt fríðu föruneyti til Svendborg til að etja kappi við heimamenn í danska bikarnum, eða Pokalen eins og hann er nefndur á frummálinu, treysti á að þið hugsið vel til mín.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð