sunnudagur, nóvember 25, 2007

Þá bregðast krosstré

Ja nú segi ég farir mínar ekki sléttar.

Undanfarna daga hef ég staðið í andlegum undirbúningi fyrir ferð til Barcelona sem ég og Sóley erum að leggja í, nú bara á morgun. Ég var búinn að plana að vera duglegur að hreyfa mig, fyrst ég var að fá frí frá æfingum, og að sjálfsögðu að spígspora aðeins um stórborgina og sjá þessi helstu kennileiti sem Katalóníumenn hafa upp á að bjóða.

En nei.... á síðustu æfingunni fyrir ferð (í gær altsvo) þá var ég svo heppinn að fótbrotna þannig að þetta verður líklega eitthvað skrautleg ferð, ég leigi mér bara svona rafskutlu og sporta um á henni, nú eða að Sóley ýti mér í hjólastól. Sem betur fer verð ég líklega ekki gifsaður lengur en í 2 vikur þannig að kannski ætti ég að nota það sem afsökun fyrir því að geta verið í svona mánuð í Barcelona.

En allavega þá bið ég að heilsa ykkur fram á föstudag og farið varlega.

Þar til síðar

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Fögur er foldin

Góðann daginn gott fólk

Ég verð nú eiginlega að hlæja aðeins af fólki sem hafði bloggað um frétt á mbl.is þar sem sagt var frá því að hætt er að hleypa kúnum út á sumum róbótabæjum. Eitthvað segir mér að þetta fólk viti ekkert muninn á lausagöngu- og básafjósi. En hvort að ég sé hlynntur því að þeim sé ekkert hleypt út er kannski önnur saga og lengri.

Var svo duglegur að setja inn á netið nokkrar myndir af sauðfé, undir stendur hvaða litaafbrigði þær bera, og er það undir hlekknum "Sauðfjárlitir" í landbúnaðartenglunum. Þess ber að geta að sérlegur ráðgjafi og litadómari var Steingrímur Einarsson. Ef þið lumið á myndum sem þið mynduð vilja sjá þarna endilega hendið því á mig, og einnig ef um kúamyndir er að ræða, en hross eru óvelkomin.

Ég hef nú ekki ennþá komist í það að búa til nýjar spurningar í Sambandsleiknum, þannig að það verður að bíða aðeins.

Sá á karfan.is þar sem fjallað var um leik Njarðvíkur og Tindastóls að fréttaritara hefði þótt strax ljóst í hvað stefndi þar sem Tindastóll mætti einungis með 8 leikmenn. Ég man nú ekki betur en að í síðasta leik fyrir jól árið 2003 mættum við einmitt með einungis 8 leikmenn á skýrslu og einn af þessum 8 var Gamli Sólheimahundurinn. En sá leikur vannst nú og eftir leikinn lentu 3 leikmenn í hvoru liði í lyfjaprófi og hepppinn ég varð valinn og var eitthvað að spyrjast fyrir um hvernig hefði verið valið. Þá var mér tjáð að húsvörðurinn í Njarðvík hefði dregið út númerin og ég svaraði "já það eru náttúrulega góðar líkur á að verða fyrir valinu fyrst við vorum bara átta" þá svaraði lyfjaeftirlitsmaðurinn "já eða sjö, því við ákváðum nú að sleppa pabba þínum við að lenda í þessu". Hækkaði álit mitt á lyfjaeftirlitinu mikið eftir þetta.

Þar til síðar

föstudagur, nóvember 09, 2007

Og það var rétt

Hárétt hjá Sigríði Ingu, annað af þessum tveimur félögum var Kaupfélagið Fram á Norðfirði (Neskaupstað), hitt var Kaupfélagið Björk á Eskifirði.

Þetta félagatal sem ég er með er frá 1940, en sláturfélagið Örlygur hefur líklega ekki verið búið að ganga í Sambandið á þeim tíma. En Sigríður er komin með eitt stig og þá er það næsta spurning og er hún öllu þyngri.

Nefnið 3 af þeim 4 samvinnufélögum í Skagafirði sem voru félagar að SÍS árið 1940.

Þar til síðar.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Bændur slátra

Mikil umræða hefur verið síðastliðin misseri um heimaslátrun bænda, og þessa sölu beint frá býli og allt það og tel ég nú að vel flestir kannist við þetta. Í nýjasta Bændablaðinu er viðtal við mann sem bauðst til að aðstoða bændur á Vesturlandi við heimaslátrun. Ritstjórn Ánastaða fannst þó að nær hefði verið að ræða við einn mesta reynslubolta landsins í þessum efnum, og var því fréttaritara út af örkinni og ræða við þann mann, sjálfann Slátrarann frá Hvolsvelli, en hann vill ekki láta síns rétta nafns getið.

Blaðamaður: Nú gerir út á hvelltamningar á sauðfé og hrossum, er mikil eftirspurn?

Slátrarinn: Já það er töluverð eftirspurn eftir þjónustu minni, sem kemur ekki á óvart þar sem árangur minn í hvelltamningum er 100% fram að þessu.

Blaðamaður: Hvað kostar hvelltamning nú til dags?

Slátrarinn: Ég læt nú yfirleitt duga að rukka í mat og drykk, og þá helst í heimaunnum drykk.

Blaðamaður: En nú eru dýrin ekki það eina sem drepst þegar slátrun á sér stað?

Slátrarinn: Nei ég á það til að rukka heldur mikið í drykkjarföngum sem veldur því að ég sjálfur hverf á braut úr þessum heimi það sem eftir lifir dagsins.


Við þökkum Slátraranum frá Hvolsvelli kærlega fyrir spjallið.

Þar til síðar

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Þetta er svolítið fyndið

Seldi hundakjöt sem lambakjöt

Kínverskur veitingastaður í Moskvu var með lambakjöt á matseðlinum en upp komst að þetta var í raun hundakjöt á diskum viðskiptavina sem bornir voru fram. Nú hafa forsvarsmenn staðarins verið kærðir fyrir að slátra hundum og selja kjötið sem lambakjöt.
Svindlið uppgötvaðist þegar kona ein tilkynnti til lögreglu að hún hafi orðið vitni að því að haldið hafi verið á stórum poka með einhverju lifandi og gólandi inn í eldhús veitingastaðarins að nóttu til. Lögreglan rannsakaði veitingastaðinn og það reyndist rétt að um hundakjöt var að ræða og að auki voru gæði kjötsins svo léleg að það var talið heilsuspillandi.


Heimild: www.bbl.is

mánudagur, nóvember 05, 2007

Verkefni

Það allra leiðinlegasta við verkefni er að það er alltaf ákveðinn skiladagur á þeim. Mun hentugra væri að hafa þetta svona fljótandi svo maður gæti bara gert verkefnin þegar andinn kæmi yfir mann og réttar aðstæður sköpuðust, en það verður nú líklega aldrei þannig.
Fór í partý heima hjá Flake, Allan og Zeko á laugardagskvöldið, og var það bara nokkuð gott. Ómar Ósmann a.k.a. Morten Pedersen var dólgur kvöldsins og veittist meðal annars gróflega að mér, og hafði í hótunum við Áskel sem slapp með naumindum við barsmíðar með því að biðjast vægðar.
Ef mig misminnir ekki eru þeir Danmerkurfarar að lenda í þessum töluðu orðum. Það á ég við Stefán frá Brautarholti, Jóhannes frá Þorleifsstöðum og Tobías í Úthlíð. Það stefndi víst í að laugardagskvöldið yrði kvöld kvöldanna, en hvort sú varð raunin skal ósagt látið.
Ég hef aðeins verið að glugga í bók sem ég keypti í kolaportinu um daginn, en hún fjallar um fyrstu 40 árin í sögu Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, og datt í hug að koma með spurningar á næstunni tengt þeirri úrvalsbók. Mun ég hér með henda fram fyrstu spurningunni.
Nefnið eitt Kaupfélag sem bar heiti sem vísaði ekki til starfsvæðis þess og hvar það var staðsett, þ.e. ekki eins og t.d. Kaupfélag Skagfirðinga sem segir manni náttúrulega að starfsvæði þess er í Skagafirði.
Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð