sunnudagur, febrúar 27, 2011

Að vera VIP

Góðan og blessaðan daginn

Nánast á hverjum sunnudegi í vetur hef ég farið í kvöldmat heim til formanns Værlöse, Kim Mikkelsen (kallaður Mikkel). Það byrjaði svona fyrst og fremst til að horfa á ameríska fótboltan, sem er einstaklega hentugt heima hjá honum því á veggnum hangir 60 tommu sjónvarp. Eftir að NFL- deildinni lauk, þá hef ég nú samt haldið áfram að fara til Mikkel í mat, við horfum þá bara á knattspyrnu og NBA. Á þessum sunnudögum hef ég tekið eftir því að Mikkel er maður sem hefur mjög gaman af því að fá fólk í heimsókn, því oft er mikið um gestagang þegar ég er þarna. Það þarf þá ekkert endilega að vera að fólk sé að koma í mat, heldur meira verið að detta inn, fá einn öl og horfa á leikinn.

Gróflega áætlað eru þetta um 10-12 manns sem tilheyra þessum hóp, og ég kalla þetta Søhaven-crewið, þar sem gatan sem Mikkel býr í heitir Søhaven. Það sem gerir þetta ennþá skemmtilegra er að það eru nokkrir þekktir einstaklingar í crewinu. Sem dæmi má nefna Niels Bjærregaard (40, Séð og heyrt stíll), sem er núverandi liðsfélagi minn, en fyrrverandi landsliðsfyrirliði Danmerkur og atvinnumaður í Evrópu, þannig að hann er svolítil goðsögn í dönskum körfubolta. 

Annar tappi er Gustav Juul, hann stjórnar sjónvarpsþætti á TV3 sem heitir Luksusfælden (Lúxusgildran). Þessi þáttur fjallar um að hann við aðra konu heimsækja fólk sem er komið með allt niður um sig í fjármálum sökum ofneyslu á lúxusvarningi. Svo er fólki sagt hvað staðan er slæm og það verður að hætta að kaupa hitt og þetta, með tilheyrandi gráti frá húsmóðurinni (Gustav segir reyndar að hann fái bónus ef það koma tár).

En aðalnúmerið er líklega Tékkinn Zdenek Pospech. Hann spilar stöðu hægri bakvarðar í byrjunarliði FC Köbenhavn, sem dæmi þá var hann í eldlínunni um daginn á móti Chelsea í Meistaradeildinni. Hann býr rétt hjá Mikkel og kemur meira að segja stundum á leiki hjá okkur. 

Svo er náttúrulega aðalspurningin hvort ég sé ekki bara hluti af sótsvörtum almúganum sem hangir utan á slíkum stórstjörnum, dæmi nú hver fyrir sig.

Við þetta má svo bæta að ég las um daginn að sjálfur Casper Christiansen úr Klovn býr her í Værlöse, spurning um að bjóða honum inngöngu í Søhaven-crewið.

Þar til síðar

föstudagur, febrúar 25, 2011

Heimsóknir

Heilir og sælir lesendur

Það er ómetanlegt að fá heimsóknir frá gömlum félögum meðan dvalist er erlendis. Afmælishelgina mína hittust allir þeir sem gerðust svo merkilegir að búa í þeirri goðsagnakenndu íbúð Skuggaseli á Hvanneyri. Ekki nóg með að allir íbúar fyrr og síðar hittust, heldur var einnig í hópnum sérlegur heiðursíbúi Skuggasels, Óðinn Gíslason. Að sjálfsögðu gerði fólk sér glaðan dag, já eða daga, og það sem stóð upp úr var tvímælalaust þegar Suðurlands-Sjarminn kastaði af sér vatni við eina af þekktari götum Kaupmannahafnar, og fékk fyrir það skammir frá ýmsum portkonum.

Um síðustu helgi brá framkvæmdastjóri Lýsingar sér í bæinn og kom færandi hendi af allskonar góssi frá Fróni. Hæst ber að nefna pönnukökur frá ömmu og svo nokkur vel valin stykki af einni af mörgum föllnum vonarstjörnum íslenskrar hestamennsku. Ég fór svo að pæla í því eftir að Arnar fór að svipað eins og Íslendingar skreppa í helgarferðir til útlanda til að losna úr viðjum vanans heima fyrir, þá eru svona heimsóknir góðar til að losna heim ef svo má að orði komast. Ekki skemmdi svo fyrir að minkabóndinn Óli Barðdal kíkti á okkur á laugardeginum og margar góðar sögu sagðar.

Það heldur áfram að ganga á ýmsu hjá okkur í Værlöse. Fyrst var Marakkómaðurinn var dæmdur í tveggja ára keppnisbann fyrir að skrópa í lyfjaprófi. Svo var kaninn okkar rekinn á mánudaginn síðasta, karlanginn segi ég nú bara. Ekki stendur til að fá nýjan kana fyrir úrslitakeppnina, þannig að ég verð bara að vera duglegur að borða hrossakjöt svo ég verði stór og sterkur. En ég hef svosem ekki áhyggjur, við spiluðum leik á miðvikudaginn án Kanans og munurinn á liðsandanum var gríðarlegur, við erum öruggir inn í úrslitakeppnina og að ég held að við ættum að geta gert efstu liðunum skráveifu.

Ég lenti í mikilli lífsreynslu á sunnudaginn. Ég og Arnar fórum í mat um kvöldið til formanns Værlöse og hans spúsu. Þegar liðið var örlítið á kvöldið spurði húsfreyjan mig hvort ég væri ekki til í að passa húsið þeirra meðan þau fara í 4 vikna árlega ferð til Thailands. Það var nú lítið mál og svo sem ekki í frásögu færandi annað en það, að þessi ferð er í desember. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni lofað mér svona langt fram í tíman. En þarna liggur líklega þónokkur munur á danskri og íslenskri þjóðarsál.

Talandi um mun á Íslendingum og Dönum. Ég var að lýsa ónefndum samlanda mínum við þjálfaran minn, og endaði á þeim orðum að hann væri skemmtilega léttruglaður. Þá svaraði þjálfarinn að allir Íslendingar sem hann hafi kynnst væru a.m.k. léttruglaðir, ef ekki ruglaðri en það. Hverjum þykir sinn fugl fagur.

Þar til síðar

föstudagur, febrúar 11, 2011

Gamli

 

Góðan daginn

Ég nenni nú ekki að hafa langa tölu á þessum afmælisdegi. Finnst það best að meistari Megas eigi sviðið, en þetta lag á einstaklega vel við, bæði vegna hás aldurs og sérstaklega vegna óæskilegrar hópamyndunar hjá gráum hárunum á hausnum á mér.

Þar til síðar.

föstudagur, febrúar 04, 2011

Meiri símatími

Komið þið öll margblessuð og sæl
Þá er maður loksins búinn að þvo af sér allar syndir í Budapest og getur einbeitt sér að því að nema á danskri grund, og ýmsu öðru t.d. því að skrifa einhverja vitleysu hér inn.
Í tilefni þess að ég fékk nýjan síma í hendurnar nú skömmu eftir jól, þá datt mér í hug að hafa fyrsta pistilinn einskonar framhald af pistli frá því herrans ári 2007, nánar tiltekið marsmánuði, sem bar nafnið símatími. Þegar ég lauk þeim pistli á sínum tíma átti ég von á nýjum síma af gerðinni Nokia 2610. Lítum á hvernig hann og þeir sem síðar komu stóðu vaktina.
Nokia 2610
Með þessum síma fékk ég mér handfrjálsan búnað. Það kom sér ágætlega sumarið 2007 í vörubílaakstrinum, en kom sér þó mun betur sumarið eftir. Ástæðan fyrir því var sú að það sumar vann ég í girðingavinnu hjá Baldri í Múlakoti. Við vorum þónokkuð að vinna í moldarflögum og þetta var þurrt sumar í Borgarfirðinum og mikið ryk og drulla í loftinu og eflaust þónokkur grömm svifið inn í símtækið. Það var til þess að það var lífsins ómögulegt að heyra nokkurn skapaðan hlut í hátalaranum, nema í dauðaþögn og þurfti ég þá oftast að nota handfrjálsa búnaðinn þó að ég væri ekki með uppteknar hendur. Um mitt sumar var gefist upp og nýr sími kallaður til leiks.
Nokia 2630
Já nú átti aldeilis að sigra heiminn með nýjum síma. Notkun á honum hófst á mánudegi, á þriðjudeginum gerði mjög mikið ryk í vinnunni sem að sjálfsögðu komst inn í símann og það var ekkert skárra að heyra í honum heldur en þeim fyrri. Á fimmtudegi var ég að skríða undir vörubíl á malarplani með síman í vasanum, sem endaði auðvitað þannig að ég lagðist ofan á síman og braut skjáinn. Þannig fór um sjóferð þá. Var gamli Nokia 2610 kallaður til starfa á ný og látinn hanga saman fram á haust.
Nokia 1680 classic
Haustið 2008 fór ég út til Budapest til náms. Fljótlega keypti ég mér nýjan síma, hann var nokkuð billegur og góður. Hann sló nú aldrei feilpúst, en þegar ég var staddur á Kastrup á heimleið þá gleymdi ég honum á barborðinu eftir að hafa heyrt nafnið mitt kallað upp í hátalarakerfinu.
Samsung-eitthvað
Þegar í Leifsstöð var komið úr þessari sömu heimferð þá fór ég beint í Elko og náði að semja við strákana þar að selja mér einhvern gamlan Samsung sýningasíma. Einhverri viku síðar týndi ég bakhliðinni á honum þannig að glært límband var vafið um hann til að halda batteríinu. Sumarið 2009 gafst ég svo upp á þeim síma og fékk mér nýjan út í Budapest.
Nokia 2330 classic
Þessi sími reyndist svona þokkalega, hann byrjaði reyndar á því í fyrravor að drepa á sér af og til og vera dauður í svona klukkutíma. Svo var hann reyndar farinn að eyða hinu og þessu út af sér án þess að vera beðinn, t.d. tónlist sem var í minninu, sms-um og minnispunktum frá mér (kom sér frekar illa einu sinni þegar hann hafði eytt bókunarnúmeri). Einnig átti hann það til að skipta hringingunni allt í einu yfir á Nokia tune, þó að ég hafi bókstaflega aldrei verið með þá annars ágætu hringingu. En hann var ennþá nothæfur í grunninn, sem er nú bara býsna gott á tæpu 1 og 1/2 ári í minni eigu.

En nú er semsagt búið að leggja honum og hinn þýski LG T300 keyptur í raftækjadeild Kaupfélagsins hefur verið kynntur til starfa, og stendur sig vel hingað til. Hann er allavega búinn að endast lengur en í 5 daga þannig að hann er ekki sá lélegasti sem ég hef átt.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð