fimmtudagur, maí 14, 2009

Frí

Nenni ekki að skrifa meiri vitleysu fram yfir prófalok.

Heimkoma verður þann 24. júní kl. 22.15

Íslandi allt

föstudagur, maí 01, 2009

Upp í sveit

Góðann daginn, og til hamingju með daginn allur verkalýður nær og fjær (Tobíasi verð ég að heilsa sérstaklega því hann er að sjálfsögðu ekki hluti af verkalýðnum, heldur auðvaldinu), sæll Tobías.

Það er ekki ofsögum sagt að ég hafi lagt land undir fót á síðustu dögum. Um síðustu helgi voru Sólheimahundar á hverju strái hér í borginni. Að sjálfsögðu voru helstu kennileiti Budapest skoðuð, t.d. minnsti bar sem ég hef nokkurn tímann séð, en hann er í götunni minni og rúmar örugglega alveg 7-8 manns.

Mál málanna var þó ferðin á sléttuna. Ég hafði sett mig í samband við bóndann Laszlo Gál sem rekur blandað bú í þjóðgarðinum á sléttunni (Puszta). Ferðinni var því heitið til suðasturs frá Budapest á laugardeginum. Hópurinn samanstóð af okkur systkynum, Lindu hinni írsku og Viki, sem var nauðsynlegur fylgihlutur því hún talar ungversku, og bóndinn kunni ekkert í ensku.

Við lentum þó strax í vandræðum á lestarstöðinni, því þrátt fyrir að Viki kynni ungversku, þá var svo erfitt að bera fram nafnið á bænum sem við vorum að fara í, að bæði ég og Viki vorum búin að gleyma því og keyptum bara miða til Kisk-eitthvað, en það slapp allt saman.

Lestarferðin tók um 2 tíma, og meðal annars var stoppað í bænum Kecskemét, þar sem einn helsti áhugamaður Íslands um beikon, Jakob Sigurðarson bjó um árabil.

Svo var lent í Kiskunfélegyháza, og eftir nokkuð strembnar æfingar náðist að bera nafnið á þeim annars ágæta bæ rétt fram, Kískúnfeleghasa (og draga g-ið aðeins). Þar tóku Laszló og hans frú á móti okkur. Svo var haldið í átt að búinu og langþráður draumur að rætast.Það var nefnilega svo að eitt af því fyrsta sem ég komst að um Ungverjaland síðasta sumar var að þeir væru með eigið nautgripakyn, og það líka svona svalt kyn.

Búið er staðsett í miðjum þjóðgarðinum, og nýtur því verndar ríkis, en í staðinn þá eru þau með öll sérstöku ungversku búfjárkynin (hestar, kýr, kindur og svín) og búið sjálft er byggt upp eins og þau voru fyrir 100 árum, þannig að ekki er tækninni mikið fyrir að fara. En þar að auki er búið með góða aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum, þannig að einhverju leyti eru nýtísku þægindi nauðsynleg.

Konan hans Laszló (kunni aðeins í ensku) sagði okkur að það hefði ekkert rignt þarna í vor, enda sást það vel á jarðvegi og gróðri, minnti helst á sendnar áreyrar á Íslandi. Þetta hefur sín áhrif á búskaparhætti, því á hverjum degi þarf að sækja kýrnar og kindurnar til að gefa þeim að drekka, því ekkert opið vatnsból er á beitarsvæðinu.

Nautgripirnir eru eingöngu nýttar til kjötframleiðslu. Ég get sjálfur vottað um það að kjötið af þeim er mjög gott. Þeir hafa nú ekki vaxtargetu á við kyn eins og Hereford, en kostir kynsins endurspegla að þetta er dæmigert gresjukyn, harðgert, þurfa ekki gott fóður, litlir burðarerfiðleikar og kýrnar eru góðar mæður. Laszló nefndi það einmitt að á sumrin fá gripirnir eingöngu beitina, og á vetrum fá þeir eingöngu hey af svæðinu. Í gamla daga gengu gripirnir úti allt árið og voru síðan reknir alla leið til Vín til þess að selja þá á markaði.

Svipaða sögu má svosem segja með kindurnar þ.e. þeirra helsti kostur er hversu harðar þær eru af sér. Þær eru að mestu nýttar til kjöts, það þykir mjög gott, en einnig er mjólkin nýtt en að litlu leyti þó.

Ungversku svínin eru þó ótrúlega töff, því þau eru loðin. Þess svín lifa líka villt, þau eru töluvert feitari en þessi hefðbundu svín og þ.a.l. með minna kjöt á sér, en Laszó sagði að kjötið af þeim væri margfalt betra en það sem við kaupum venjulega út í búð.

Eftir þessa kynningu var svo rölt og kíkt í hesthúsið, ég skoðaði gamla, rússneska dráttarvél af gerðinni MTZ, og svo fengum við að sjá einhverja hestasýningu fyrir hina túristana. Síðdegis var svo haldið heim með lestinni, og um kvöldið farið beint á Kacsa (veitingastaðurinn þar sem Kóngurinn mokaði í sig paprikunni sem reyndist vera pipar, í október síðastliðinn) og að sjálfsögðu slátrað einni steik af ungverskri gerð.

Eftir að hafa fengið far með bændum í bæinn og þakkað fyrir okkur á tökum við stutt rölt um bæinn Kiskunfélegyháza. Íbúar þar eru um 30.000, en þú gætir ekki ímyndað þér það, allavega ekki svona við fyrstu sýn. Rólegheitin virðast vera bestu heitin á þeim bænum.

Nú er þessi pistill orðinn óhemjulangur, og af þeim sökum læt ég staðar numið hér í bili, og segi frá hinni ferðinni minni út á land á morgun eða hinn.

Myndir úr ferðinni má sjá í myndaalbúminu, en hér er ein af ungversku nauti.



Íslandi allt.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð