sunnudagur, desember 30, 2007

Síðasti söludagur

Heilt og sælt ágæta fólk og gleðilegt árið.

Of langt síðan síðast, einhver leti hefur gripið mannskapinn og því lítið verið sett inn.

Lítið bólar á framförum í fætinum á mér, fer í myndatöku á eftir og ef hún kemur ekki vel út þá er ég að spá í að biðja Baldur um að hjálpa mér við að setja borðabolta í staðinn fyrir beinið, það hlýtur nú að vera í lagi, en hann yrði nú líklega að vera ryðfrír.

Loksins get ég státað af einhverjum myndum úr Barcelonaferðinni góðu, og hér er tvímælalaust uppáhalds myndin mín. Hér sést ég bera mig saman við FIAT 600, ég veit reyndar ekki hvaða árgerð hann er en eins og sést væri sennilega frekar erfitt fyrir t.d. körfuboltalið að ætla ferðast um langar leiðir á slíkum úrvalsfák. Þess má geta að ég rúntaði um í þessum hjólastól þegar við skoðuðum þetta safn, nennti nú bara einfaldlega ekki að vera á hækjunum. Það var nefnilega ekki slegið mjög slöku við í skoðunarferðum, sem var orðið ansi lýandi á stundum. Sérstaklega var erfitt að fara upp í kastalann á hæðinni því þar var mikið upp í mót og allt mjög gamalt og því voru göturnar hellulagðar, og ekkert mjög sléttar né jafnar eftir nokkuð hundruð ára notkun.

Jólin og áramótin voru nú bara nokkuð góð. Þar sem ég er enn á batavegi þá þurfti ég ekkert að mæta á æfingar, og því hef ég nú bara ekki verið jafn slakur um jól í háa herrans tíð. Fór að vísu ekkert norður þar sem Gamli Sorrý Gráni er ekki í það góðu formi að hann komist á milli sýslna. En það stefnir nú í að ég verði þónokkuð í Skagafirðinum í Janúar og Febrúar þannig að þetta sleppur nú allt saman.
Fór nokkrar mjólkurferðir um jólin, sem var nú bara ágætt, svona rétt til að endurnýja kynnin við vestlensku kýrnar. Það var reyndar leiðinlega vont færi á annan í jólum sem gerði það að verkum að ferðin tók um 15 tíma, en mjólkin skilaði sér og það er fyrir öllu.

Læt hérna í lokin fylgja með mynd af þessum kastala í Barcelona sem ég náði að klöngrast upp í.

Þar til síðar

mánudagur, desember 10, 2007

Á Spáni er.....

.... Ekki gaman að vera á hækjum. Ég var nú orðin svolítið þreyttur í höndunum og vinstri fætinum á stundum. En það var vissulega vel þess virði, margt að sjá á þessum stað, verst að við gátum sennilega ekki séð nema helmingin af því sem hægt var að sjá vegna þess að sumir fóru hægar yfir en aðrir... nefnum engin nöfn. Skemmtilegast fannst mér að fara í þjóðminjasafn Katalóníu, því þar fékk ég afnot af hjólastól, og fann þennann forláta FIAT 600 sem var til sýnis, ég lék mér að því að rúlla hjólastólnum í svipaða stöðu og framsætin og komst að því að ef ég rétti úr fótunum þá náði ég framfyrir framdekkin.

Annars skil ég ekki þessa fýlu sem Spánverjar eru alltaf í, t.d. þegar ég var einu sinni að benda Sóley á eitthvað, og gleymdi mér aðeins og notaði hækjuna til þess þá var ég næstum því búinn að slá henni í einhvern gamlann Spanjóla og ég sagði nú bara úbbs og brosti en hann ætlaði að drepa mig með augnaráðinu.... skil ekki svona.

Próf eru yndislegur tími, eða eitthvað svoleiðis. Ég á nú að vera að læra fyrir próf í sauðfjárrækt en það er nauðsynlegt að hreinsa hugann aðeins áður en haldið verður áfram eftir matinn, sem var öllum á óvörum steiktur fiskur og grjónagrautur í mötuneytinu á Hvanneyri.

Ég vona það innilega að ég losni við gifsið á morgun. Orðinn alveg hundleiður á að geta ekki keyrt og þurfa að biðja aðra um að bera fyrir mig matinn inn í matsal.

Ég læt fylgja hér með fallega mynd sem ég tók einhverntímann í haust. Mér finnst hún vera svolítið listræn, múgavélin sem lokið hefur ævistarfi sínu, situr þarna gamalgróin og virðir fyrir sér mannlífið með yfirsýn yfir Lundarreykjadalinn og Andakílinn.

Smá viðbót frá því í gær. Ég gleymdi að henda inn spurningunni í Sambandsleiknum sem ég var búinn að finna upp á, en hún er svohljóðandi: Árið 1933 keypti Samband Íslenskra Samvinnufélaga frystihúsið Herðubreið í Reykjavík sem hluta af sístækkandi starfsemi þess. Hvaða starfsemi fer fram í þessu húsi nú á dögum?


Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð