föstudagur, október 10, 2008

Nostrovia

Ég segi nú ekki annað en bara.... púff, yfir þessu öllu saman.

Held að vonbrigðasvipurinn á mér hafi ekki leynt sér í gærmorgun þegar ég var að stökkva í skólann klukkan 9.30 að staðartíma, en ákvað að kíkja á mbl.is áður en ég slykki á tölvunni. Þá sá ég staðfestingu á falli Kaupþings, þagði og dæsti loks. Kvöldin í þessari viku eru eiginlega búinn að fara í að vera á mbl.is, visir.is og msn-ast og tala við fólkið heima, til að fylgjast með ástandinu. Þakka nú bara fyrir að það hitti svo á að á mánudagsmorguninn var ég búinn með reiðuféð mitt og fór því í hraðbankann og tók út þokkalegann skammt af forintum áður en allt opnaði vestan við mig, og þ.a.l. lokað á allar millifærslur.
En það er nú alltaf eitthvað sem getur létt manni lundina, sem dæmi þá var ég að labba í höfuðstöðvar ungverska póstsins í morgun og á Andrassy götunni var alskeggjaður róni með jólasveinahúfu, það fannst mér mjög skemmtilegt og tók ég mynd af honum með símanum mínum. Í hádeginu var hann ennþá með jólasveinahúfuna. En ástæðan fyrir ferð minni í aðalstöðvar póstsins var sú að kassi sem Gamli Sólheimahundurinn sendi mér fyrir all nokkru var þar staðsettur. Reyndar hafði hann víst komið á pósthúsið næst mér fyrir all nokkru, en ég fann nú bara miðann um það að ég ætti pakka, liggjandi á jörðinni í síðustu viku, og komst að því að kassinn var lagður af stað frá mínu pósthúsi áleiðis til Íslands. Sendi ég þeim póstverjum tölvupóst og sagði þeim frá raunum mínum, 2 dögum síðar fæ ég bréf í ábyrgðarsendingu frá höfuðstöðvum póstsins um að pakkinn hefði verið stöðvaður þar og ég gæti sótt hann innan 28 daga. Gerði ég það í morgun og er þá geitin Heiðrún frá Ánastöðum loksins komin upp á vegg í íbúðinni, og svo fékk ég harðfisk líka.
Spilaði fyrsta leikinn í gær með ÁSE Underdogs, sem er skólaliðið. Leikurinn verður nú seint sagður flottur en hann vannst 72-70, það er nú ekki tekin meiri tölfræði nema leikskýrslan þannig að eina sem ég veit var að ég skoraði 33 stig, held ég geri eins og Gústi Guðmunds og telji fráköstin mín í næsta leik. Hins vegar var nýtingin ekki góð, og ég var algjört svarthol, en maður verður að prófa ýmislegt. Svo er nú ekki leikur fyrr en eftir 3 vikur, og við missum 2 næstu fimmtudagsæfingar vegna þess að það eru einhverjir tónleikar í skólanum, þannig að það eru samt bara 3 mánudagsæfingar fram að næsta leik, sweet.
Það er orðið ljóst að ég kem heim seint 15. desember eða 16. desember í jólafrí, og ef mér tekst ekki að klúðra neinu þá fer ég ekki aftur fyrr en um mánaðarmótin janúar-febrúar.
Best ég endi þetta á orðum sem Gunnar í Glaumbæ sagði svo oft við mig hér á árum áður, og eiga svo réttilega við á þessum tímum, "Það er nú engin þörf á að kvarta meðan blessuð sólin skín".
Íslandi allt.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð