föstudagur, júlí 28, 2006

Hvað er að gerast

Nú er keppninni um fáránlegasta bæjarnafnið lokið og hef ég ákveðið að sigurvegari er enginn annar en Suðurlands sjarminn fyrir nafnið Pula, og fær hann kippu í verðlaun við gott tækifæri.

Enn og aftur sýndi ég snilli mína í því að meiða mig á höndunum á laugardaginn síðasta þegar dælubarkinn á bílnum skemmdist sem gerði það að verkum að það þurfti að stytta hann. Þar sem þetta var laugardagur var enginn af mönnunum á verkstæðinu á staðnum og því ákváð ég að rölta út í bíl og ná í þennann forláta dúkahníf sem ég keypti út í Danmörku en hafði ekki ennþá komið í verk að nota. Tók ég til við að skera barkann og gekk það svona ljómandi vel þangað til að síðast hjallanum var komið og var þá ljóst að beita þurfti öðrum brögðum. Tvennt var í stöðunni, að nudda hægt og rólega í gegnum barkann... nú eða bara taka almennilega á því. Að sjálfsögðu tók ég hraustlega á því og hafði mig í gegnum barkann en ekki vildi betur til en hinum megin við barkann beið vinstri vísifingurinn á mér og það var eins og við manninn mælt, ég hjó u.þ.b. sentimeter inn í puttann og þurfti að láta sauma 6 spor í hann blessaðann. Og ekki nóg með það heldur á meðan læknaneminn var að sauma þá þurfti ég að hlusta á hjúkkuna segja honum frá nýju íbúðinni sem hún og kærastinn voru að kaupa einvhers staðar í andskotanum, eins og þjáningarnar væru ekki nægar.

En svo er það komið upp að ég þarf að skreppa til Finnlands að spila með Skeljabrekku-Faxa, Vélamanni Íslands og fleiri köppum. Ég var strax sáttur þegar ég sá ferðaáætlunina því við fljúgum í gegnum Stokkhólm og sökum plássleysis þurfum ég og Arnar Freyr að taka seinna flugið, sem gefur mér sennilega góðann tíma til að skreppa niður í Gamla Stan, Vasegatan og hvað þetta heitir nú allt saman og rifja upp góðar minningar.

Þar til síðar

föstudagur, júlí 21, 2006

Tvennt í gangi (ha, í gangi???)

Í fyrsta lagi, þá vantar mig upplýsingar hvort það sé eitthvað á döfinni á laugardagskvöldum komandi vikna fyrir norðan, svo maður fái ástæðu til að skella sér heim í sæluna.

Í annan stað þá ætla ég að setja af stað samkeppni um fáránlegasta bæjarnafnið, þið setjið inn nafn á sveitabæ sem til er í alvörunni og svo um næstu helgi vel ég sigurvegara og hann fær kippu af Viking gylltum, eina skilyrðið er að ég finni bæjarnafnið í þjóðskrá til að sannreyna það.

Þar til síðar

laugardagur, júlí 15, 2006

Eins og nýslegið tún

Skellti mér í löngu tímabærar og örlitlar útlitsbreytingar á síðunni, alltof drungalegur þessi vínrauði litur. Ástæðurnar fyrir vali græna litsins var aðallega að heiðra hinar yndislegu John Deere dráttarvélar, en seinna fattaði ég að þetta minnir mann líka á nýslegið skagfirskt tún, sem mér finnst persónulega töluvert fallegra en eitthvað gil austur á landi, en svona er ég vitlaus.

Ég verð líka að monta mig á myndinni í hausnum, en hana tók ég um 1 leytið aðfaranótt föstudags þegar ég kom á landsmótið, og það meira að segja doing 90 on the freeway eins og segir í laginu.

Það getur vel verið að ég dundi mér eitthvað við að breyta íbúðarhúsinu á Ánastöðum meira í næstu viku ef ég hef tíma. Systir mín hélt því fram að ég ætti mér ekkert líf þegar ég sagði henni að ég hefði farið í vinnuna kl. 4:30 og komið heim eftir æfingu kl. 21:00, étið og farið að sofa, en ég spyr..... er það líf að vera í burtu frá Skagafirðinum, maður spyr sig.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð