föstudagur, febrúar 25, 2011

Heimsóknir

Heilir og sælir lesendur

Það er ómetanlegt að fá heimsóknir frá gömlum félögum meðan dvalist er erlendis. Afmælishelgina mína hittust allir þeir sem gerðust svo merkilegir að búa í þeirri goðsagnakenndu íbúð Skuggaseli á Hvanneyri. Ekki nóg með að allir íbúar fyrr og síðar hittust, heldur var einnig í hópnum sérlegur heiðursíbúi Skuggasels, Óðinn Gíslason. Að sjálfsögðu gerði fólk sér glaðan dag, já eða daga, og það sem stóð upp úr var tvímælalaust þegar Suðurlands-Sjarminn kastaði af sér vatni við eina af þekktari götum Kaupmannahafnar, og fékk fyrir það skammir frá ýmsum portkonum.

Um síðustu helgi brá framkvæmdastjóri Lýsingar sér í bæinn og kom færandi hendi af allskonar góssi frá Fróni. Hæst ber að nefna pönnukökur frá ömmu og svo nokkur vel valin stykki af einni af mörgum föllnum vonarstjörnum íslenskrar hestamennsku. Ég fór svo að pæla í því eftir að Arnar fór að svipað eins og Íslendingar skreppa í helgarferðir til útlanda til að losna úr viðjum vanans heima fyrir, þá eru svona heimsóknir góðar til að losna heim ef svo má að orði komast. Ekki skemmdi svo fyrir að minkabóndinn Óli Barðdal kíkti á okkur á laugardeginum og margar góðar sögu sagðar.

Það heldur áfram að ganga á ýmsu hjá okkur í Værlöse. Fyrst var Marakkómaðurinn var dæmdur í tveggja ára keppnisbann fyrir að skrópa í lyfjaprófi. Svo var kaninn okkar rekinn á mánudaginn síðasta, karlanginn segi ég nú bara. Ekki stendur til að fá nýjan kana fyrir úrslitakeppnina, þannig að ég verð bara að vera duglegur að borða hrossakjöt svo ég verði stór og sterkur. En ég hef svosem ekki áhyggjur, við spiluðum leik á miðvikudaginn án Kanans og munurinn á liðsandanum var gríðarlegur, við erum öruggir inn í úrslitakeppnina og að ég held að við ættum að geta gert efstu liðunum skráveifu.

Ég lenti í mikilli lífsreynslu á sunnudaginn. Ég og Arnar fórum í mat um kvöldið til formanns Værlöse og hans spúsu. Þegar liðið var örlítið á kvöldið spurði húsfreyjan mig hvort ég væri ekki til í að passa húsið þeirra meðan þau fara í 4 vikna árlega ferð til Thailands. Það var nú lítið mál og svo sem ekki í frásögu færandi annað en það, að þessi ferð er í desember. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni lofað mér svona langt fram í tíman. En þarna liggur líklega þónokkur munur á danskri og íslenskri þjóðarsál.

Talandi um mun á Íslendingum og Dönum. Ég var að lýsa ónefndum samlanda mínum við þjálfaran minn, og endaði á þeim orðum að hann væri skemmtilega léttruglaður. Þá svaraði þjálfarinn að allir Íslendingar sem hann hafi kynnst væru a.m.k. léttruglaðir, ef ekki ruglaðri en það. Hverjum þykir sinn fugl fagur.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð