miðvikudagur, desember 09, 2009

Takt´eftir því

Vegna fjölda áskorana (og þegar ég segi fjölda þá meina ég einn drukkinn mann) þá hef ég ákveðið að brjóta odd af oflæti mínu og hefja skriftir að nýju eftir töluvert hlé.

En ég nenni nú ekki að segja frá öllu sem drifið hefur á daga mína síðan síðast, enda vanur að horfa fram á veginn og líta aldrei um öxl. Þó vil ég geta þess að í haust leit út fyrir að ég væri nánast einsamall að halda uppi búskap í Blönduhlíðinni. Mér til ánægju og skemmtunar tók ég að mér ýmis viðvik fyrir bændur, svona eins og mjaltir og þess háttar smotterí, sekkja korn, garða eins og herforingi, fara í göngur og réttir og taka frá fyrir slátrun. Skemmtilegasta við þetta var það að þessi verk voru aldrei unnin á sama bænum

Talandi um Blönduhlíðina, þá komst ég að þeirri skemmtilegu staðreynd um daginn að 5 leikmenn meistaraflokks Tindastóls í körfubolta geta rakið sig yfir í þessa fallegu hlíð. Fyrir utan sjálfan mig eru það Sigmar Logi Björnsson, ættaður frá Framnesi (í Úthlíðinni), og sjálfir Búbbarnir, Rikki, Svabbi og Hreinsi, sem eru ættaðir frá Minni-Ökrum í Framhlíðinni.

Veturinn ætlar eitthvað að láta bíða eftir sér, allavega hefur Höfðinginn ekki ennþá lent í því að sitja heima ef ég hef þurft að bregða mér af bæ. Tekur því varla úr þessu að leggja honum yfir veturinn, og þó skal ekki fagna strax.

Á allra næstu dögum mun ég ljúka við að klippa saman myndband um það sem ég og hinir áferðarfallegu drengir úr framsveitum Skagafjarðar fundum okkur til dundurs í sumar. Hef fulla trú á því að útkoman verði góð.

Sæl að sinni

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð