föstudagur, júní 03, 2011

Teljum niður

Heil og sæl verið þið

Í dag eru 3 vikur þar til ég mun stíga fæti á íslenska grund á ný. Hver kannast ekki við að nefna við einhvern að það sé svo og svo langur tími þar til eitthvað gerist, að þá svarar viðmælandi alltaf "isss, það verður enga stund að líða". En ég fór að pæla í því að 3 vikur eru nú þónokkur tími, og það er líklega hægt að afreka heilmargt á 3 vikum ef maður vildi:

  • Árið 1967 háðu Ísraelar stríð gegn Egyptalandi, Jórdaníu og Sýrlandi, og fékk það stríð nafnið 6 daga stríðið. Það væri því hægt að fara í 3 stríð gegn einhverjum af þessum þjóðum og samt geta tekið kraftmikla 3 daga helgi eftir það, allt á 3 vikum.
  • Einhverjir sjálfshjálparsnillingar segja að það taki 21 dag að venja sig af einhverju sem maður gerir reglubundið, t.d. að byrja daginn alltaf á því að fá sér kaffi. Mér dettur bara ekkert í hug sem ég þarf að venja mig af.
  • Sköpun jarðar á að hafa tekið 7 daga, er ekki alltaf verið að tala um að við lifum svo ósjálfbært að það þyrfti fleiri jarðir undir okkur. Áhugasamir gætu tekið sig til og búið til 3 aukajarðir á þessum tíma (væri líklega fínt að henda krötunum öllum bara á eina þeirra).
  • Eftir því sem ég best veit lifir húsfluga í 2 vikur. Þegar ég kem til Íslands verður húsfluga sem fæddist í dag því löngu dauð og afkomendur hennar allir meira en hálfnaðir með sitt æviskeið.

En þetta var nú bara smávegis útúrdúr. Annars er nú ólíku saman að jafna prófatörninni hér eða í Budapest. Á meðan hún var rúmur mánuðir austan járntjaldsins þá nenna nú Danirnir ekki að hafa þetta meira en viku, og því eru ennþá 2 vikur í að ég byrji í prófum. Að vísu kemur þetta á sama stað niður því þeir kenna bara lengur. Svo verð ég að viðurkenna að á þessum tímapunkti finnst mér þetta vikufrí sem eru tekið í Danmörku í marsmánuði vera hálf tilgangslaust, nær væri að hætta viku fyrr. En sumarfrí skólafólks á Íslandi þykja víst í lengra lagi.

Svo bíður Magnús Magnússon frá Þverá með þrælapískinn kláran þegar ég kem til landsins. Get nú eiginlega ekki beðið eftir því að komast upp á þak og hvíla höfuðið og fara að vinna eitthvað með bakinu.

Svona rétt í lokin fyrir ykkur sem dásamið hita og teljið það veðursæld, í 25 stiga hitanum og skordýraplágunni í dag hefði ég alveg verið til í að fá svellkalda norðanátt beint frá heimsskautinu.

Þar til síðar

föstudagur, maí 06, 2011

Met er fallið

Gott föstudagskvöld kæru vinir

Já á þriðjudaginn síðastliðinn þá sló ég persónulegt met, en þá hafði ég verið samfellt 117 daga í burtu frá Íslandinu fagra. Eldra metið átti ég frá haustönninni í Budapest. Með hverjum deginum sem líður nú eyk ég við metið, en heimkoma er nú áætluð að kvöldi 24. júní, sléttar 7 vikur er þetta er skrifað. Það eru auðvitað töluverð vonbrigði að ná ekki að koma heim á Jónsmessunótt, en svona er þetta bara stundum.

Orðið mjög langt síðan ég setti eitthvað hér inn. Aðalástæðan fyrir því er sú að ég, í félagi við Eyfirðinginn Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur  og Dalamanninn Eyjólf Ingva Bjarnason hef unnið að því í nokkurn tíma núna að koma á fót veftímariti um landbúnaðarmál. Þessi útgáfumál munu líklega eiga hug minn og hjarta næstu mánuðina. Verður áhugavert að sjá hvernig þetta mun koma út. 

Ég er ekki viss um að það hafi komið neitt vor hér í Danmörku. Það stökk bara beint úr 0-5 gráðum í 15-20 stig, sem getur orðið svakalegt á köflum fyrir mann eins og mig, kemur fyrir að ég svitna við það eitt að hugsa. Það segir kannski meira um hvað gengur á inn í höfðinu á mér heldur en veðurfarið. Á svona fallegu föstudagskvöldi eins og er nú á Sjálandi fæ ég gríðarlega löngun til þess að taka rúnt á Höfðingjanum, t.d. fram í þá fallegu hlíð, Blönduhlíð. 

Annars erum ég og umboðsmaðurinn minn, Magnús Magnússon frá Þverá, nú betur þekktur sem Agent Momo Jr. farnir að skipuleggja sumarið. Óhætt er að segja að ég verði undir skónum á Agent Momo kvölds og morgna. Ekki nóg með að hann verði sami helvítis þrælahaldarinn upp á þaki í pappanum, þá verður hann líka einkaþjálfarinn minn í sumar. Mun Momo sjá um tæknilegar æfingar tengdar körfubolta, leikskilning og þess háttar. Honum til halds og traust verður frændi hans, Stefán Steinþórsson, nú þekktur sem Silvio "Mr. Big" Giancana. Mr. Big mun sjá um og bera ábyrgð á líkamlegu atgervi mínu eftir sumarið. Þetta verður gott sumar.

Lifið heil að sinni.

þriðjudagur, mars 01, 2011

Með á nótunum

Góðan og blessaðan daginn

Það er líklega kominn tími til að ég segi stutta sögu sem ég hef ekki sagt neinum. Það er reyndar ekki alveg dagsatt því ég missti þetta út úr mér við Blöndhlíðinginn Friðrik Hreinsson síðasta vetur, en hvað um það.

Árið 2007 var nýgengið í garð. Við Skallagrímsmenn höfðum farið í jólafríið efstir í töflunni, reyndar glutruðum við því niður minnir mig með því að tapa svo á milli jóla og nýárs. En engu að síður gaf það fögur fyrirheit að fyrsti leikur á nýju ári, sem var gegn Keflavík í Fjósinu, yrði jafn og spennandi. Þetta þótti meira að segja það athyglisverð viðureign að sjónvarp allra landsmanna hafði boðað komu sína, og eftirvæntingin því mikil.

Í jólafríinu hafði ég tekið að mér að fara nokkrar ferðir á mjólkurbílnum til að drýgja tekjurnar. Þetta þýddi auðvitað að það þyrfti að vakna snemma, og svo gerði nú snjókomu einhverja daga þannig að stundum urðu dagarnir heldur langir og lýjandi. Síðasta mjólkurferðin var á föstudegi og leikurinn á laugardegi. Ég var alveg sérstaklega lúinn eftir ferðina, kom beint á æfingu og Vignir, sem tók við af mér í akstrinum tók bílinn heim. Ég held að ég hafi sjaldan verið eins búinn eftir æfingu og þennan dag, þó var hún mjög stutt, og ég hélt að ég ætlaði ekki að hafa það að keyra Galantinn hans Hákons Þorvaldssonar heim (ég var farlaus fyrst að Vignir tók mjólkurbílinn og Hákon lánaði mér bara bílinn sinn), en það tókst og ég lagðist til svefns er heim kom  og svaf í einhverja 14 tíma.

Daginn eftir var svo komið að leiknum. Ég verð að viðurkenna að ekki var nú kviknað á öllum ljósum eftir törn föstudagsins og langan svefn aðfaranótt laugardags. En allavega, þetta gekk nú allt bara býsna vel í leiknum, í beinni útsendingu, og leikurinn var jafn og spennandi. Þegar komið er undir lok 3. leikhluta þá er staðan hnífjöfn og við eigum síðustu sókn. Hinn makedónska góðmenni Dimitar Karadzovski leikur sér eitthvað með boltan en sendir svo á mig. Ég tek leiftursnöggt (eins og mín er nú ávallt von og vísa) á rás að körfunni og það er brotið á mér, 2 vítaskot og um 3 sekúndur eftir af 3. leikhluta. Það er tekið leikhlé og menn ráða ráðum sínum, Valur Ingimundar leggur línurnar hvað gera skal ef ég hitti og ef ég hitti ekki úr skotunum o.s.frv. Ég pældi nú ekki mikið í því, rölti að vítalínunni, set bæði vítin ofan í, Keflavík tekur innkast en gengur ekki betur en svo að komast upp völlinn á þessum 3 sekúndum að þeir ná bara örvæntingafullu skoti frá miðju sem geigar um leið og flautan gellur og við yfir með 2 stigum. Ég skokka nokkur skref í áttina að bekknum okkar og ætla að gera mig kláran og setjast þar til að hlusta á leiðbeiningar Vals fyrir síðasta fjórðunginn. En mér að miklum óvörum koma menn af bekknum á móti mér gríðarlega fagnandi, faðma mig og segja vel gert, einnig er mikið fagnað á stuðningsmannapöllunum. Þá var þetta víst 4. leikhluti og ég hálf slysaðist til að tryggja Skallagrím sigurinn. Mér fannst líka óvenju mikið skorað í leiknum miðað við að það væru bara búnir 3. leikhlutar.

Seinna þegar gárungarnir í bænum voru að tala um einhverjar stáltaugar hjá mér gat ég nú ekki annað en verið sammála þeim og glott.

Þar til síðar

sunnudagur, febrúar 27, 2011

Að vera VIP

Góðan og blessaðan daginn

Nánast á hverjum sunnudegi í vetur hef ég farið í kvöldmat heim til formanns Værlöse, Kim Mikkelsen (kallaður Mikkel). Það byrjaði svona fyrst og fremst til að horfa á ameríska fótboltan, sem er einstaklega hentugt heima hjá honum því á veggnum hangir 60 tommu sjónvarp. Eftir að NFL- deildinni lauk, þá hef ég nú samt haldið áfram að fara til Mikkel í mat, við horfum þá bara á knattspyrnu og NBA. Á þessum sunnudögum hef ég tekið eftir því að Mikkel er maður sem hefur mjög gaman af því að fá fólk í heimsókn, því oft er mikið um gestagang þegar ég er þarna. Það þarf þá ekkert endilega að vera að fólk sé að koma í mat, heldur meira verið að detta inn, fá einn öl og horfa á leikinn.

Gróflega áætlað eru þetta um 10-12 manns sem tilheyra þessum hóp, og ég kalla þetta Søhaven-crewið, þar sem gatan sem Mikkel býr í heitir Søhaven. Það sem gerir þetta ennþá skemmtilegra er að það eru nokkrir þekktir einstaklingar í crewinu. Sem dæmi má nefna Niels Bjærregaard (40, Séð og heyrt stíll), sem er núverandi liðsfélagi minn, en fyrrverandi landsliðsfyrirliði Danmerkur og atvinnumaður í Evrópu, þannig að hann er svolítil goðsögn í dönskum körfubolta. 

Annar tappi er Gustav Juul, hann stjórnar sjónvarpsþætti á TV3 sem heitir Luksusfælden (Lúxusgildran). Þessi þáttur fjallar um að hann við aðra konu heimsækja fólk sem er komið með allt niður um sig í fjármálum sökum ofneyslu á lúxusvarningi. Svo er fólki sagt hvað staðan er slæm og það verður að hætta að kaupa hitt og þetta, með tilheyrandi gráti frá húsmóðurinni (Gustav segir reyndar að hann fái bónus ef það koma tár).

En aðalnúmerið er líklega Tékkinn Zdenek Pospech. Hann spilar stöðu hægri bakvarðar í byrjunarliði FC Köbenhavn, sem dæmi þá var hann í eldlínunni um daginn á móti Chelsea í Meistaradeildinni. Hann býr rétt hjá Mikkel og kemur meira að segja stundum á leiki hjá okkur. 

Svo er náttúrulega aðalspurningin hvort ég sé ekki bara hluti af sótsvörtum almúganum sem hangir utan á slíkum stórstjörnum, dæmi nú hver fyrir sig.

Við þetta má svo bæta að ég las um daginn að sjálfur Casper Christiansen úr Klovn býr her í Værlöse, spurning um að bjóða honum inngöngu í Søhaven-crewið.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð