sunnudagur, september 28, 2008

Hörður Magnússon

Ég vil nota tækifærið og óska Fimleikafélagi Hafnarfjarðar til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í krasspyrnu, og þá sérstaklega Halldóri Halldórssyni.

En endilega horfið á fréttina á visir.is og hlustið á Hödda frænda þegar Hjálmar Þórarinsson kemur Fram í 1-2 í Keflavík. Talandi um að vera að tapa sér. Smellið hér

Þar til síðar

laugardagur, september 27, 2008

Did you know.....

It was an Icelandic man who invented the kokteil sauce. Mikið finnst mér gaman að rugla í útlendingum með svona alíslenskum bröndurum. Sem dæmi þá sagði einhver Kani um daginn að Sigur Rós væri eina íslenska hljómsveitin sem hann þekkti, og ég svaraði í hneykslunartón "don´t you know Skriðjöklarnir?". Held að hann hafi ekkert fattað hvað ég átti við, en þá var einmitt tilgangnum náð.
En aftur að kokteilsósunni. Ég var út í matvörubúð áðan og var eitthvað að skoða tómatsósuna (eins og Mr. Burns gerði eitt sinn), og þá flaug mér allt í einu til hugar að það væri heillaráð að kaupa líka mæjónes og sinnep og búa til kokteilsósu. Ég ákvað að grípa fyrsta mæjónesið sem ég sá, og á meðan höndin nálgaðist dolluna sá ég að þetta var fitulítið mæjónes. Fyrstu sekúndubrotin var mér sama, en þá birtist mér engill á öxl, hann var rauðbirkinn, klæddur í svarta CAT úlpu og hélt á glasi með landakaffi. Hann var ekki lengi að sannfæra mig um að fitulítið mæjónes væri aðeins fyrir konur og listamenn, og ég snéri af villu míns vegar og keypti það allra feitasta mæjónes sem ég gat fundið.
Ég veit að þið eruð örugglega flest að huga að Laufskálaréttarballinu en ég treysti Hr. Tobíasi fyllilega fyrir því að þetta ball verði einstaklega leiðinlegt fyrir alla gesti. Í staðinn fyrir að vera á balli verð ég að læra fyrir próf í líffærafræði á mánudaginn. Það verður prófað þrisvar fyrir lokaprófið, og ef maður fær yfir 75% á þessum þremur prófum sleppur maður við beinahlutann á verklega prófinu, þarf þá einungis að gera grein fyrir vöðvunum. Á síðasta ári voru aðeins 2 af 100 nemendum sem náðu þessu, og ég er að spá í að vera ekkert að standa í því að komast í þennann hóp, ég er alveg nógu einstakur fyrir.
Þar til síðar

fimmtudagur, september 25, 2008

Mjólk er góð... bara ekki í Hungary

Godt aften mine damer og herrer
Svo ég komi mér nú bara beint að efninu, þá getur sá hinn sami og vill flytja inn mjólk frá evrópu til Íslands fengið að smakka mjólkina hérna í Ungverjalandi. Málið er nefnilega það að þessir leppalúðar hita mjólkina upp í 135°C áður en þeir tappa henni á fernurnar. Þeir kalla þetta UHT hérna, ég tók eftir því þegar ég var í Finnlandi að þeir kalla þetta ultrapaströriseringu. Mjólkin endist um 2 mánuði í óopnuðum umbúðum, enda er svona G-mjólkur bragð af henni, ekki gott. Reyndar fann ég lífræna mjólk um daginn, hún endist nú ekki nema þessa hefðbundnu viku eða eitthvað svoleiðis, hún er vissulega skárri, en ekki alveg jafn góð eins og heima. Svo er nú eitt, feitasta mjólkin sem hægt er að finna er ekki nema 3,5% fita, nánast allt eins hægt að drekka vatn. Hún var nú skárri mjólkin sem ég fékk í Sólheimum í Sæmundarhlíð í vor, minnir að Valdi hafi sagt að hún hafi verið um 4,7% fita. Svo síðast en alls ekki síst, þá er mjólkin mun dýrari en heima, meðalverðið á G-mjólkinni er svona 280-340 HUF, sem er um 150-180 kr., og lífræna mjólkin kostaði yfir 200 kr. Þar hafið þið það
Svo skulu landsmenn nær og fjær, til sjávar og sveita, stilla á Rás 1 kl. 9.05 í fyrramálið að íslenskum tíma, því þá er Óskastundin með Gerði G. Bjarklind og ég lofa að einhverntímann í þættinum kemur svolítið skemmtileg kveðja.

Þar til síðar

mánudagur, september 22, 2008

Tímans þungi niður.

Jó estét

Sjá dagar koma, ár og aldir líða sagði skáldið forðum en mánuðirnir líða einnig og í dag er einmitt mánuður liðinn síðan ég steig fyrst fæti á ungverska grundu, ungur saklaus drengur frá hjara veraldar. Það liggur kannski í augum uppi að ég hef aldrei verið jafn lengi frá Fróni, 3 vikur var gamla metið. Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér á svona tímamótum, s.s. hvort þetta hafi verið lengi að líða og hvað sé öðruvísi við manns daglega líf, hvers maður saknar og hvort það sé eitthvað sem er betra en heima.

Hefur þetta verið fljótt að líða, tja... ekkert fljótar held ég en að vera heima, enda líður tíminn almennt hratt á gervihnattaöld. Það sem er kannski mesta breytingin á mínu daglega lífi hérna að nú snýst ekki hver einasti dagur ekki um leikinn sem er framundan á fimmtudaginn, og það er mjög sérstakt, en venst alveg örugglega eins og allt annað. Auðvitað saknar maður ýmislegs heiman að, fjölskyldu, vina (nema þá Tobíasar, hann er svo djöfull leiðinlegur) og t.d. þegar ég ligg stundum upp í sófa þá væri ég alveg til í að Breki myndi á mjög lymskulegann hátt troða sér upp í sófa og láta mig klappa sér. En það sem mér finnst kannski skrítnast er að ég er ekki búinn að sjá neitt landslag í heilann mánuð, nema þá í þessi 2 skipti sem ég hef farið upp á Géllert hæð. Maður lítur út um gluggann og sér bara hús og götur. Einmitt þegar ég er í tíma, og þarf eitthvað að láta hugann reika, þá get ég ekki horft á neitt út um gluggann nema skólalóðina og hús, á Hvanneyri gat ég horft út Borgarfjörðin ef ég var í Nýja skóla, nú eða Hauk að leika sér á dráttarvél ef að maður var í tíma út á Bút.

En hvað um það, á laugardaginn fékk ég það á tilfinninguna að eitthvað væri að gerast. Það voru svona heldur fleiri lögregluþjónar- og bílar á ferðinni, og þegar ég ætlaði að komast inn í verslunarmiðstöðina þá var mér meinaður inngangur (sé svo eftir því að hafa bara ekki tekið tjakkinn á lögguna). Svo þegar ég var að labba heim sá ég að það var búið að loka Andrassy götunni, sem er aðalgatan í borginni, þyrlur farnar að sveima og ég veit ekki hvað og hvað. Svo þegar húma tók að kvöldi lagði ég af stað yfir til Ölrúnar og Söndru. Göturnar okkar liggja samsíða, svona nokkurn veginn frá NV til SA og einungis ein gata á milli okkar. Svo þegar ég er kominn á götuna þeirra og tek vinstri beygjuna, þá sé ég að það eru nokkur hundruð svartklæddra manna að nálgast mig, veifandi ungverska fánanum og kyrjandi söngva. Ég gekk í áttina að þeim til að sjá hvort ég kæmist ekki mína leið í gegnum þvöguna..... en þegar ég sá að það voru einhverjir að fremstu mönnum þarna með andlitin hulin ákvað ég að snúa við. Brá ég þá á það ráð að koma inn á Izabellu-götuna aðeins neðar og vera þá vonandi kominn bakvið mótmælin. Það gekk svo sem upp, nema að við gatnamótin þurfti ég að bíða eftir að margir tugir óeirðalögregluþjóna gengu framhjá mér, og þeir gengu bara svona hálfan metra frá mér, fannst það svolítið svalt. Þyrlur sveimandi fyrir ofan með kastar í gangi og ég veit ekki hvað og hvað, og þá datt mér í hug "hva, bara hundar og læti". En ég hafði það loksins að komast mína leið, en verð að viðurkenna að þetta fannst mér lífga ótrúlega upp á lífið og tilveruna.



Set hér inn mynd af hetjutorginu, sem mér finnst vera mjög fallegt.



Þar til síðar

laugardagur, september 20, 2008

Ég bara varð að henda þessu inn

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir staðhæfa að þeir greiði sauðfjárbændum hæsta meðalverð fyrir dilkakjöt á yfirstandandi sláturtíð, auk þess sem þeir geti í krafti samstarfssamnings við Bónus tryggt neytendum lægsta verðið á lambakjöti. Í tilkynningunni kemur fram að hækkun KS nemi 22,6% milli ára, að meðalverð til sauðfjárbænda sé frá kr. 400,49 fyrir kílóið, án virðisaukaskatts.Ennfremur segir í tilkynningunni orðrétt:Samkvæmt upplýsingum frá Markaðsráði kindakjöts fengju bændur um 80 milljónum króna meira fyrir afurðir sínar í haust, ef aðrir sláturleyfishafar greiddu sama verð til bænda og KS gerir.
Þar til síðar

fimmtudagur, september 18, 2008

Don´t call it a comeback

Já góða kvöldið

Ef að einhver hafði áhyggjur af því að efstu deildir körfuboltans yrðu án einhvers af Sólheimafólkinu, þá þarf sá hinn sami ekki að hafa neinar áhyggjur. Síðsumars fór Stínu systir að leiðast þófið, tók fram skóna og hefur drævað til vinstri síðan þá (nú fæ ég enga jólagjöf). Svo bárumst mér til augna skilaboð einmitt frá áðurnefndri Stínu um að framkvæmdastjóri Lýsingar, Arnar Snær Kárason hafi mætt á sína fyrstu æfingu í gær. Sjálfsagt má rekja það til þess að nú er farið að hægast svo um á fjármálamörkuðum að kallinn er farinn að hafa meiri tíma til að eyða í vitleysu (- 2 jólagjafir).

Ég kíkti inn á kki.is, og þar segja gögnin, eins langt og þau ná, að Stína hafi byrjað 1993 að spila, að vísu vantar alveg árið 1992. En það eru allavega 15 ár and still going strong hjá okkur. Ég nenni nú ekki að taka saman hvað leikirnir eru orðnir margir, það er kannski eitthvað sem Rúnar Birgir getur athugað meðan hann networkar sig í hel.



Ætli tilþrifin í vetur verði ekki eitthvað lík þeim sem sjást á myndinni hér fyrir ofan.

Þar til síðar

mánudagur, september 15, 2008

Stíflan brostin og það er stórflóð

Jú góðann daginn gott fólk

Hlutirnir hafa gerst, ég er kominn með netið heima hjá mér og er ekki réttast að byrja á þeim hluta sögunnar um fyrstu vikurnar hérna í Budapest.

Þetta byrjaði nú ekki vel, tölvunni minni var stolið á Kastrup, sjálfsagt er einhver Bauninn að skemmta sér yfir öllum Karlakórslögunum mínum og kennslumyndbandinu hans Steingríms um hvelltamningar. Eftir að hafa gefið upp vonina um að Gráni gamli myndi finnast keypti ég mér nýja tölvu, en þá var brasið það einungis var hægt að kaupa tölvur með ungverska windows, þannig að ég keypti tölvu án stýrikerfis og eftir nokkra daga fann ég búð sem gat sérpantað fyrir mig windows á ensku. Þegar það kom 2 dögum síðar var ég tilbúinn til þess að fá netið í íbúðina og talaði við netfyrirtækið. En þegar kallinn frá þeim kom til að tengja komst hann að því að verktakinn sem gerði bygginguna upp hafði gleymt að setja kapal inn í íbúðina og því ekkert hægt að gera. 2 dögum síðar komu 2 menn frá verktakanum og lögðu kapal inn í íbúðina og stuttu síðar kom kallinn frá netfyrirtækinu aftur. Þegar hann var búinn að tengja módemið komst hann að því að það var eftir að installa netkorti í tölvuna mína og því ekki hægt að klára dæmið. Daginn eftir labbaði ég í búðina þar sem ég keypti stýrikerfið og spurði hvort þeir gætu ekki hjálpað mér. Það var nú minnsta málið fyrir strákana í Macropolis og þeir rukkuðu ekki einu sinni fyrir það með því skilyrði að næst þegar ég keypti tölvu þá myndi ég versla af þeim, að sjálfsögðu lofaði ég því. Svo var málið að hringja í netfyrirtækið og klára dæmið og eftir smá japl, jaml og fuður hefur tekist að koma netsambandinu á.

Fyrstu dagarnir í Budapest voru nokkuð túristalegir. Ég gerði varla annað en bara að labba um og skoða. Alveg hreint mögnuð borg. Hendi kannski inn nokkrum myndum af því þegar ég var upp á hæðinni fyrir ofan borgina í ljósaskiptunum í kvöld, sem var helvíti flott.

Skólinn byrjaði með pompi og prakt og þetta er nú bara helvíti gaman, t.d. þá skárum við upp hund um daginn. Auðvitað er einn og einn áfangi sem er leiðinlegur og virkar hálf tilgangslaus, en það er nú líklega alltaf svoleiðis fyrstu annirnar. Sem betur fer er ég nú ekki eini Íslendingurinn á svæðinu eins og ég hélt. Það eru 2 stelpur á fyrsta árinu, sem heita Sandra og Ölrún og svo 1 á öðru ári sem heitir Inam. Þess má til gamans geta að Ölrún er Skagfirðingur að uppruna, nánar tiltekið af Nikkaraættinni.

Það er körfuboltalið í skólanum sem æfir tvisvar í viku, tekur meira að segja þátt í einhverri háskóladeild þannig að þegar seasonið byrjar verður bara æft einu sinni í viku og spilað einu sinni í viku. Ég held að ég láti það alveg nægja fyrsta árið því ég er í svo miklum skóla þannig að það er betra að færast ekki of mikið í fang. Áður en ég mætti á fyrstu æfinguna þurfti ég að kaupa mér skó því mér tókst einhvern veginn að taka bara annann körfuboltaskóinn minn með út (ekki dæmigert), pabbi fann hinn í gær undir rúminu í Raftahlíðinni.

Næturlífið er nú bara nokkuð gott, búinn að fara út í nokkur skipti og sjá mismunandi staði, t.d. einhvern þann sveittasta stað sem ég hef á ævi minni komið á. Þannig var nefnilega málið að þegar ég kom heim úr skólanum á föstudagskvöldið þá beið mín sms frá nafna mínum Jóhanni Axel Guðmundssyni sem sagði að Árni í Útvík og Jenni á Fjalli væru staddir í Budapest. Við mæltum okkur mót, sötruðum öl og fórum inn á stað sem heitir Old Man´s pub. Það var eins og að hlaupa á vegg, slíkt var andrúmsloftið mettað af reykingum og svita. Sandra og Ölrún sameinuðust okkur litlu síðar og það var ýmislegt skeggrætt, meðal annars Nikkaraættin.

Síðastliðið laugardagskvöld fór ég síðan aftur út. Fór fyrst á einhvern bar sem var í svo gömlu húsnæði að það minnti mig helst á barinn í From Dusk till Dawn. Endaði svo á einhverjum klúbb sem var bara helvíti fínn, er líka ekki langt frá íbúðinni minni. Mun örugglega koma þangað aftur.

En á heimleiðinni á aðfaranótt sunnudags fór af stað atburðarás sem er tilefni af hinni löngu sögunni um veru mína hér í Budapest og hlustið nú vel börnin góð.

Á heimleiðinni ákváðum ég og stelpurnar að fara inn á Kebab stað og fá okkur að éta. Heimgangan frá þeim stað er ekki meiri en 10 mínutur, en á þessum 10 mínutum tókst mér að týna veskinu mínu. Í veskinu var að sjálfsögðu visa frændi, sem þýddi það að ég var orðinn peningalaus út í Budapest. Það tekur eðlilega þónokkurn tíma að fá nýtt kort og nú voru góð ráð dýr. Eftir að hafa hugsað lengi hvernig ég ætti að koma mér út úr þessari klípu fékk ég hugmynd, en sú hugmynd krafðist skjótra vinnubragða. Ég mundi nefnilega eftir því að í Raftahlíð 55, Sauðárkróki, Íslandi lá debetkortið mitt á gólfinu.... og vinkona hennar Ölrúnar á leiðinni til Budapest í dag (mánudag). Upphófst þá mikið dæmi og var atburðarásin eitthvað á þessa leið:

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn, hann var þá staddur í Hrútafirði á heimleið, sagðist ætla að finna kortið er hann kæmi heim og reyna að finna far fyrir það suður.

  • Hringt í Sprittarann, spurt hvort hann viti um ferð suður. Hann bendir á að tala við Kónginn.

  • Hringt í Kónginn, hann er þá staddur á Hótelinu ásamt Logan og Hr. Tobíasi (sem gerði ekki annað en að vera með kjaft). Kóngurinn kvaðst ætla skoða málið.

  • Hringt í Lilju vinkonu hennar Ölrúnar og spurt hvort hún geti ekki tekið kortið með sér út. Það var nú minnsta málið.

  • Kóngurinn hringir. Hann er búinn að finna ferð með Jónínu í Jaðri.

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn. Staðan gefin upp og hann er staddur á Miðfjarðarhálsinum á fullu röri á heimleið.

  • Þá þarf að finna einhvern í borg óttans til að taka við kortinu frá Jónínu og koma því til Lilju. Voru þá systkyni mín ræst út og framkvæmdastjóri Lýsingar tók verkið að sér.

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn. Hann er kominn heim, búinn að finna kortið og bíður eftir því að það verði sótt.

  • Sprittarinn fer svo í Raftahlíðina og nær í kortið, kemur því til Jónínu sem fer með það suður, hittir Arnar, sem fer með það til Lilju og þegar þessi orð eru skrifuð er Lilja líklega stödd í Köben og bíður eftir fluginu til Budapest sem lendir um 10 leytið í kvöld.
Þar hafið þið það, þetta tókst með samstilltu átaki og as we say in Iceland you know "þetta reddast". Mórallinn með þessari sögu er nú sá að það er gott að eiga góða að, en það skal tekið fram að Hr. Tobías átti engann þátt í þessari aðgerð, enda er hann ömurlega leiðinlegur maður, sérstaklega í víni.

Svona rétt í lokin þá ætla ég að skella inn myndbandinu um Verslunamannahelgina 2008, njótið vel.

Þar til síðar


Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð