mánudagur, nóvember 24, 2008

Þrælahald

Góða kvöldið
Datt í hug að segja frá tvennu skemmitlegu sem kom fyrir í dag.
Þegar ég var að rölta heim í kvöld eftir æfingu tók ég eftir því að það voru nokkrir unglingspiltar að kasta snjóboltum. Í fyrstu veitti ég þessu ekki mikla athygli, þar til ég sá að þeir voru svona 4-5 saman að henda snjóboltum í mann sem leit út fyrir að vera um miðjann aldur. Þeir voru nú ekki alveg að spara það við kallinn, dúndruðu nokkrum sinnum í andlitið á kallinum. Þá þótti honum nóg komið og ákvað að grýta Heineken bjórnum sínum (sem var greinilega ekki tómur) í áttina að einum stráknum, sem fór nú ekki betur en svo að hún endaði í nýlegum Ford Focus. Ég ákvað að halda bara mína leið, en þeir voru engann veginn hættir að kljást.
Í lífeðlisfræði eru menn að basla við að troða inn í okkur visku um meltinguna þessa dagana. Sá sem kennir þann hluta er hinn stórskemmtilegi Tíbor Bartha, sem yfirleitt notar viðbrögð líkamans við áfengisneyslu sem dæmi um einhverja ákveðna lífeðlisfræði, t.d. að þú hafir 18 sekúndur til að drífa þig inn á klósett til að æla eftir að þú færð ónotatilfinningu í magann eftir stífa drykkju. Nema einu sinni þegar hann sagði sögu af því að seinni kona afa hans hefði reynt að drepa sig með svefnlyfjum en ekki orðið ágengt og afi hans (sem var dýralæknir) hefði hlegið að henni, því hann vissi alltaf að lyfin myndu ekki duga. En í dag talaði hann um vin sinn, sem hann kallaði þræl sjálfvirka taugakerfis síns, og sagðist í raun alls ekki skilja fólk eins og hann, sem getur ekki talað þegar það verður svangt og verður að fá að borða hvað sem tautar og raular. Ég tók þetta beint til mín.

Íslandi allt.

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Meiri snjó

Góðann daginn

Það byrjaði að snjóa hér í Budapest í gær, og er það fyrsti snjórinn sem lætur sjá sig þennann veturinn. Þetta var nú ekkert gríðarlegt magn sem kom, en manni leið ágætlega að labba út í verslanamiðstöðina í gær, með vindinn í fangið og með hausinn undir sér. Verslanamiðstöðvarnar eru það eina sem er búið að skreyta hérna, en maður fékk smá fiðring fyrir jólunum við að koma þarna inn í gær.

Geri fátt annað en að læra og telja niður að heimkomu þessa dagana. Um 22 sólarhringar þar til ég legg af stað áleiðis til Kaupmannahafnar. Það eina sem ég geri fyrir utan þetta er að spila körfubolta, við spiluðum 2 leiki í síðustu viku. Í báðum tilvikum var sigur..... auðveldur sigur. Ég er farinn að brydda upp á því í leikjum að ná að skutla a.m.k. einum andstæðingi út í vegg þegar ég kem á siglingunni á sóknarfrákast, bara til að stytta mér aldur. Það hefur reyndar hlotið misjafnar undirtektir hjá viðhafandi aðilum, en það er nú allt í lagi.

Íslandi allt

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Er þetta ekki týpískt?

Godt aften mine damer og herrer.

Var að koma heim frá fjórða sigri okkar Undirhunda. Setti eitthvað á þriðja tug stiga og átti teyginn í fráköstum. En það sem stóð upp úr var að eitt sinn þegar ég náði að fiska ruðning, þá var ég skallaður í hökuna og það kom þokkalegur skurður. Ekki vildi hann lokast (og þetta var í fyrsta leikhluta), þannig að það blæddi úr mér allann leikinn. Magnað samt að dómarinn gerði enga athugasemd við þetta.
Að leik loknum vildu félagarnir að ég léti athuga þetta á spítala. Mér þótti nú betra að hlýða því þar sem þeir flestir eru orðnir hálæknismenntaðir. Ég byrjaði nú á því að reyna að mana Zola sem er á fimmta ári að sauma mig en hann þorði því ekki, sagðist ekki vita hversu mikið hann ætti að deyfa mig, ég sagði bara passlega mikið, eins og oddvitinn í Hreppnum eina hefði sagt. Sem minnir mig á það að í verklegri lífeðlisfræði í dag átti ég að sprauta 0,2 ml af einhverju efni í hjartað á rottu, en ég ákvað að dúndra bara öllu sem var í sprautunni, sem var 1 ml sem reyndist vera full mikið fyrir hjartað og það hætti að slá. En aftur að skurðinum, það kom sér einkar vel að íþróttahúsið er svona 30m frá dýraspítalanum og ég skundaði þar inn og fékk aðhlynningu, enda eru Sólheimahundar ekkert lægra settir en aðrir hundar.
Íslandi allt

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Heimkoma

Jú gott kvöld

Var að enda við að panta flugmiðana heim. Ferðaáætlunin hljóðar svo að ég flýg til Köben á mánudeginum 15. desember, á að lenda þar er klukkuna vantar 25 mínutur í 8. Svo fæ ég að gista hjá henni Unni á Litlu-Reykjum yfir nóttina og á svo flug er klukkan verður korter gengin í 1 (og þá verða sagðar dánarfregnir og jarðarfarir). Lending á Fróni er áætluð um hálf 3. Veit svo ekki alveg hvernig eða hvenær ég kemst norður, enda algjör óþarfi að hugsa svo langt fram í tímann, ekki er ég nú vanur því. Djöfull eiga drengir gott.........

Íslandi allt

laugardagur, nóvember 01, 2008

Hrokkinn í gang

Ég bíð lesendum gott kvöld frá sléttum Austur-Evrópu.
Það má með sanni segja að við félagarnir séum hrokknir í gang eftir mikið hikst. Ekki nóg með það að ég persónulega er kominn í gang eftir árásina hjá strákunum síðustu helgi, heldur fékk Arnar Snær Kárason, sérlegur ræðismaður Ánastaða á Íslandi símhringingu í gær frá Öskju um að þeir hefðu sett síðasta púslið í Höfðingjann, og hann er eins og nýsleginn túskildingur. Þannig að næsta sumar munum við félagar, sameinaðir á ný krúsa um götur Sauðárkróks eins og enginn sé morgundagurinn, það er alveg pottþétt.
Síðasta helgi var já, svona eins og hún var. Tobías kom með lista yfir það sem átti að gera um helgina og á honum stóð "Rússíbani, Bankinn, King Arthur og Hassburgers". Fyrstu 3 atriðin voru annað hvort lokuð eða hætt starfsemi, og ég er ekkert viss um að þetta síðasta hafi nokkurn tíman verið til nema í hausnum á Tobíasi, eins og svo margt annað.
Það var leikur hjá mér á fimmtudaginn. Ég var svo heppinn að það var einhver hlunkur að dekka mig sem var svona já.. ekki í góðu formi. Þannig að ég lék mér nú bara að því að keyra upp hraðann, og þegar ég vissi að ég var kominn með 20 stig í hálfleik þá sagði ég við liðsfélagana "I ain´t passing that shit". Stóð alveg fyllilega við það og endaði í 50 stigum, einu stigi meira en andstæðingarnir. Hef ekki skorað svona mikið síðan í framhaldsskólamótinu 2002 minnir mig, þá var ég einmitt skítþunnur og lék með ekki ómerkari mönnum en Gústa Grodås, Valgeir Levy og Kussmann.
Fór á írska pöbbinn (Becket´s) í gærkveldi og greip í 2 öl. Ætlaði að passa mig vel á því að koma þokkalega snemma heim, en sem betur fer þurfti ég ekkert að passa mig, það voru aðrir sem sáu til þess að ég þurfti að fara snemma heim. Best að vera ekkert að opinbera þetta nánar, aðgát skal höfð í nærveru sálar. Æ jú hún á ekkert betra skilið fyrst hún er vinur minn. Sandra steindrapst á Becket´s þarna um 2 leytið og ég, Ölrún og Aileen drösluðum henni heim.

Býst við að næsti eini og hálfi mánuður verði rólegur í öðru en lærdómi, og viti menn, þá er ég kominn heim.

Íslandi allt

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð