föstudagur, febrúar 04, 2011

Meiri símatími

Komið þið öll margblessuð og sæl
Þá er maður loksins búinn að þvo af sér allar syndir í Budapest og getur einbeitt sér að því að nema á danskri grund, og ýmsu öðru t.d. því að skrifa einhverja vitleysu hér inn.
Í tilefni þess að ég fékk nýjan síma í hendurnar nú skömmu eftir jól, þá datt mér í hug að hafa fyrsta pistilinn einskonar framhald af pistli frá því herrans ári 2007, nánar tiltekið marsmánuði, sem bar nafnið símatími. Þegar ég lauk þeim pistli á sínum tíma átti ég von á nýjum síma af gerðinni Nokia 2610. Lítum á hvernig hann og þeir sem síðar komu stóðu vaktina.
Nokia 2610
Með þessum síma fékk ég mér handfrjálsan búnað. Það kom sér ágætlega sumarið 2007 í vörubílaakstrinum, en kom sér þó mun betur sumarið eftir. Ástæðan fyrir því var sú að það sumar vann ég í girðingavinnu hjá Baldri í Múlakoti. Við vorum þónokkuð að vinna í moldarflögum og þetta var þurrt sumar í Borgarfirðinum og mikið ryk og drulla í loftinu og eflaust þónokkur grömm svifið inn í símtækið. Það var til þess að það var lífsins ómögulegt að heyra nokkurn skapaðan hlut í hátalaranum, nema í dauðaþögn og þurfti ég þá oftast að nota handfrjálsa búnaðinn þó að ég væri ekki með uppteknar hendur. Um mitt sumar var gefist upp og nýr sími kallaður til leiks.
Nokia 2630
Já nú átti aldeilis að sigra heiminn með nýjum síma. Notkun á honum hófst á mánudegi, á þriðjudeginum gerði mjög mikið ryk í vinnunni sem að sjálfsögðu komst inn í símann og það var ekkert skárra að heyra í honum heldur en þeim fyrri. Á fimmtudegi var ég að skríða undir vörubíl á malarplani með síman í vasanum, sem endaði auðvitað þannig að ég lagðist ofan á síman og braut skjáinn. Þannig fór um sjóferð þá. Var gamli Nokia 2610 kallaður til starfa á ný og látinn hanga saman fram á haust.
Nokia 1680 classic
Haustið 2008 fór ég út til Budapest til náms. Fljótlega keypti ég mér nýjan síma, hann var nokkuð billegur og góður. Hann sló nú aldrei feilpúst, en þegar ég var staddur á Kastrup á heimleið þá gleymdi ég honum á barborðinu eftir að hafa heyrt nafnið mitt kallað upp í hátalarakerfinu.
Samsung-eitthvað
Þegar í Leifsstöð var komið úr þessari sömu heimferð þá fór ég beint í Elko og náði að semja við strákana þar að selja mér einhvern gamlan Samsung sýningasíma. Einhverri viku síðar týndi ég bakhliðinni á honum þannig að glært límband var vafið um hann til að halda batteríinu. Sumarið 2009 gafst ég svo upp á þeim síma og fékk mér nýjan út í Budapest.
Nokia 2330 classic
Þessi sími reyndist svona þokkalega, hann byrjaði reyndar á því í fyrravor að drepa á sér af og til og vera dauður í svona klukkutíma. Svo var hann reyndar farinn að eyða hinu og þessu út af sér án þess að vera beðinn, t.d. tónlist sem var í minninu, sms-um og minnispunktum frá mér (kom sér frekar illa einu sinni þegar hann hafði eytt bókunarnúmeri). Einnig átti hann það til að skipta hringingunni allt í einu yfir á Nokia tune, þó að ég hafi bókstaflega aldrei verið með þá annars ágætu hringingu. En hann var ennþá nothæfur í grunninn, sem er nú bara býsna gott á tæpu 1 og 1/2 ári í minni eigu.

En nú er semsagt búið að leggja honum og hinn þýski LG T300 keyptur í raftækjadeild Kaupfélagsins hefur verið kynntur til starfa, og stendur sig vel hingað til. Hann er allavega búinn að endast lengur en í 5 daga þannig að hann er ekki sá lélegasti sem ég hef átt.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð