fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Einn-einn-tveir

Ég skil nú ekkert í sjúkra- slökkviliðs- og lögreglumönnum landsins að vera að þvælast inn á afmælisdaginn minn með með svokallaðan 112-dag. Væri ekki nær að hafa þetta bara 1. desember, ég minnist þess nú ekki að nokkuð merkilegt sé að gerast þá, allavega ekki neitt í líkingu við það að ég eigi afmæli.

En nú eru liðin 27 ár frá því að ég lét sjá mig, þremur vikum of seinn og hef verið að reyna að vinna það upp síðan en lítið gengið. Ég hef nú aldrei verið sérstaklega mikið fyrir að halda upp á afmælið mitt, aðallega sökum leti. Ákvað nú að gera samt vel við mig í morgun og fá mér rjóma út á hafragrautinn, rjómi er líklega besti drykkur í heimi, enda notaður í White Russian.

Eins og eflaust flestir, þá velti ég því fyrir mér á þessum degi hvort að ég sé orðinn gamall. Niðurstaðan er svosem einföld.... nei, og í rauninni er enginn of gamall, nema kannski þegar hann drepst og þá er of seint að spá í því. Að hugsa um hvað lífið væri nú skemmtilegra ef maður væri nú á öðrum aldri (sama í hvora áttina það er) er líklega ein mesta tímasóun sem til er, nema kannski fyrir utan það að fara í bíó.

Bókaði flug til Budapest í gær, á víst að mæta í próf í líffærafræði þann 2. mars. Var svo heppinn að ferðin hittir á milli leikja hjá mér, reyndar rétt tæplega því ég dett í Skagafjörðin líklega 2 tímum fyrir leik þann 4. mars. En mikil ósköp er ég ekki að nenna að fara í þessa ferð, mesta spennan liggur í því hvort að ég gleymi einhverju á Kastrup í þetta skiptið.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð