föstudagur, júní 03, 2011

Teljum niður

Heil og sæl verið þið

Í dag eru 3 vikur þar til ég mun stíga fæti á íslenska grund á ný. Hver kannast ekki við að nefna við einhvern að það sé svo og svo langur tími þar til eitthvað gerist, að þá svarar viðmælandi alltaf "isss, það verður enga stund að líða". En ég fór að pæla í því að 3 vikur eru nú þónokkur tími, og það er líklega hægt að afreka heilmargt á 3 vikum ef maður vildi:

  • Árið 1967 háðu Ísraelar stríð gegn Egyptalandi, Jórdaníu og Sýrlandi, og fékk það stríð nafnið 6 daga stríðið. Það væri því hægt að fara í 3 stríð gegn einhverjum af þessum þjóðum og samt geta tekið kraftmikla 3 daga helgi eftir það, allt á 3 vikum.
  • Einhverjir sjálfshjálparsnillingar segja að það taki 21 dag að venja sig af einhverju sem maður gerir reglubundið, t.d. að byrja daginn alltaf á því að fá sér kaffi. Mér dettur bara ekkert í hug sem ég þarf að venja mig af.
  • Sköpun jarðar á að hafa tekið 7 daga, er ekki alltaf verið að tala um að við lifum svo ósjálfbært að það þyrfti fleiri jarðir undir okkur. Áhugasamir gætu tekið sig til og búið til 3 aukajarðir á þessum tíma (væri líklega fínt að henda krötunum öllum bara á eina þeirra).
  • Eftir því sem ég best veit lifir húsfluga í 2 vikur. Þegar ég kem til Íslands verður húsfluga sem fæddist í dag því löngu dauð og afkomendur hennar allir meira en hálfnaðir með sitt æviskeið.

En þetta var nú bara smávegis útúrdúr. Annars er nú ólíku saman að jafna prófatörninni hér eða í Budapest. Á meðan hún var rúmur mánuðir austan járntjaldsins þá nenna nú Danirnir ekki að hafa þetta meira en viku, og því eru ennþá 2 vikur í að ég byrji í prófum. Að vísu kemur þetta á sama stað niður því þeir kenna bara lengur. Svo verð ég að viðurkenna að á þessum tímapunkti finnst mér þetta vikufrí sem eru tekið í Danmörku í marsmánuði vera hálf tilgangslaust, nær væri að hætta viku fyrr. En sumarfrí skólafólks á Íslandi þykja víst í lengra lagi.

Svo bíður Magnús Magnússon frá Þverá með þrælapískinn kláran þegar ég kem til landsins. Get nú eiginlega ekki beðið eftir því að komast upp á þak og hvíla höfuðið og fara að vinna eitthvað með bakinu.

Svona rétt í lokin fyrir ykkur sem dásamið hita og teljið það veðursæld, í 25 stiga hitanum og skordýraplágunni í dag hefði ég alveg verið til í að fá svellkalda norðanátt beint frá heimsskautinu.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð