mánudagur, september 15, 2008

Stíflan brostin og það er stórflóð

Jú góðann daginn gott fólk

Hlutirnir hafa gerst, ég er kominn með netið heima hjá mér og er ekki réttast að byrja á þeim hluta sögunnar um fyrstu vikurnar hérna í Budapest.

Þetta byrjaði nú ekki vel, tölvunni minni var stolið á Kastrup, sjálfsagt er einhver Bauninn að skemmta sér yfir öllum Karlakórslögunum mínum og kennslumyndbandinu hans Steingríms um hvelltamningar. Eftir að hafa gefið upp vonina um að Gráni gamli myndi finnast keypti ég mér nýja tölvu, en þá var brasið það einungis var hægt að kaupa tölvur með ungverska windows, þannig að ég keypti tölvu án stýrikerfis og eftir nokkra daga fann ég búð sem gat sérpantað fyrir mig windows á ensku. Þegar það kom 2 dögum síðar var ég tilbúinn til þess að fá netið í íbúðina og talaði við netfyrirtækið. En þegar kallinn frá þeim kom til að tengja komst hann að því að verktakinn sem gerði bygginguna upp hafði gleymt að setja kapal inn í íbúðina og því ekkert hægt að gera. 2 dögum síðar komu 2 menn frá verktakanum og lögðu kapal inn í íbúðina og stuttu síðar kom kallinn frá netfyrirtækinu aftur. Þegar hann var búinn að tengja módemið komst hann að því að það var eftir að installa netkorti í tölvuna mína og því ekki hægt að klára dæmið. Daginn eftir labbaði ég í búðina þar sem ég keypti stýrikerfið og spurði hvort þeir gætu ekki hjálpað mér. Það var nú minnsta málið fyrir strákana í Macropolis og þeir rukkuðu ekki einu sinni fyrir það með því skilyrði að næst þegar ég keypti tölvu þá myndi ég versla af þeim, að sjálfsögðu lofaði ég því. Svo var málið að hringja í netfyrirtækið og klára dæmið og eftir smá japl, jaml og fuður hefur tekist að koma netsambandinu á.

Fyrstu dagarnir í Budapest voru nokkuð túristalegir. Ég gerði varla annað en bara að labba um og skoða. Alveg hreint mögnuð borg. Hendi kannski inn nokkrum myndum af því þegar ég var upp á hæðinni fyrir ofan borgina í ljósaskiptunum í kvöld, sem var helvíti flott.

Skólinn byrjaði með pompi og prakt og þetta er nú bara helvíti gaman, t.d. þá skárum við upp hund um daginn. Auðvitað er einn og einn áfangi sem er leiðinlegur og virkar hálf tilgangslaus, en það er nú líklega alltaf svoleiðis fyrstu annirnar. Sem betur fer er ég nú ekki eini Íslendingurinn á svæðinu eins og ég hélt. Það eru 2 stelpur á fyrsta árinu, sem heita Sandra og Ölrún og svo 1 á öðru ári sem heitir Inam. Þess má til gamans geta að Ölrún er Skagfirðingur að uppruna, nánar tiltekið af Nikkaraættinni.

Það er körfuboltalið í skólanum sem æfir tvisvar í viku, tekur meira að segja þátt í einhverri háskóladeild þannig að þegar seasonið byrjar verður bara æft einu sinni í viku og spilað einu sinni í viku. Ég held að ég láti það alveg nægja fyrsta árið því ég er í svo miklum skóla þannig að það er betra að færast ekki of mikið í fang. Áður en ég mætti á fyrstu æfinguna þurfti ég að kaupa mér skó því mér tókst einhvern veginn að taka bara annann körfuboltaskóinn minn með út (ekki dæmigert), pabbi fann hinn í gær undir rúminu í Raftahlíðinni.

Næturlífið er nú bara nokkuð gott, búinn að fara út í nokkur skipti og sjá mismunandi staði, t.d. einhvern þann sveittasta stað sem ég hef á ævi minni komið á. Þannig var nefnilega málið að þegar ég kom heim úr skólanum á föstudagskvöldið þá beið mín sms frá nafna mínum Jóhanni Axel Guðmundssyni sem sagði að Árni í Útvík og Jenni á Fjalli væru staddir í Budapest. Við mæltum okkur mót, sötruðum öl og fórum inn á stað sem heitir Old Man´s pub. Það var eins og að hlaupa á vegg, slíkt var andrúmsloftið mettað af reykingum og svita. Sandra og Ölrún sameinuðust okkur litlu síðar og það var ýmislegt skeggrætt, meðal annars Nikkaraættin.

Síðastliðið laugardagskvöld fór ég síðan aftur út. Fór fyrst á einhvern bar sem var í svo gömlu húsnæði að það minnti mig helst á barinn í From Dusk till Dawn. Endaði svo á einhverjum klúbb sem var bara helvíti fínn, er líka ekki langt frá íbúðinni minni. Mun örugglega koma þangað aftur.

En á heimleiðinni á aðfaranótt sunnudags fór af stað atburðarás sem er tilefni af hinni löngu sögunni um veru mína hér í Budapest og hlustið nú vel börnin góð.

Á heimleiðinni ákváðum ég og stelpurnar að fara inn á Kebab stað og fá okkur að éta. Heimgangan frá þeim stað er ekki meiri en 10 mínutur, en á þessum 10 mínutum tókst mér að týna veskinu mínu. Í veskinu var að sjálfsögðu visa frændi, sem þýddi það að ég var orðinn peningalaus út í Budapest. Það tekur eðlilega þónokkurn tíma að fá nýtt kort og nú voru góð ráð dýr. Eftir að hafa hugsað lengi hvernig ég ætti að koma mér út úr þessari klípu fékk ég hugmynd, en sú hugmynd krafðist skjótra vinnubragða. Ég mundi nefnilega eftir því að í Raftahlíð 55, Sauðárkróki, Íslandi lá debetkortið mitt á gólfinu.... og vinkona hennar Ölrúnar á leiðinni til Budapest í dag (mánudag). Upphófst þá mikið dæmi og var atburðarásin eitthvað á þessa leið:

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn, hann var þá staddur í Hrútafirði á heimleið, sagðist ætla að finna kortið er hann kæmi heim og reyna að finna far fyrir það suður.

  • Hringt í Sprittarann, spurt hvort hann viti um ferð suður. Hann bendir á að tala við Kónginn.

  • Hringt í Kónginn, hann er þá staddur á Hótelinu ásamt Logan og Hr. Tobíasi (sem gerði ekki annað en að vera með kjaft). Kóngurinn kvaðst ætla skoða málið.

  • Hringt í Lilju vinkonu hennar Ölrúnar og spurt hvort hún geti ekki tekið kortið með sér út. Það var nú minnsta málið.

  • Kóngurinn hringir. Hann er búinn að finna ferð með Jónínu í Jaðri.

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn. Staðan gefin upp og hann er staddur á Miðfjarðarhálsinum á fullu röri á heimleið.

  • Þá þarf að finna einhvern í borg óttans til að taka við kortinu frá Jónínu og koma því til Lilju. Voru þá systkyni mín ræst út og framkvæmdastjóri Lýsingar tók verkið að sér.

  • Hringt í Gamla Sólheimahundinn. Hann er kominn heim, búinn að finna kortið og bíður eftir því að það verði sótt.

  • Sprittarinn fer svo í Raftahlíðina og nær í kortið, kemur því til Jónínu sem fer með það suður, hittir Arnar, sem fer með það til Lilju og þegar þessi orð eru skrifuð er Lilja líklega stödd í Köben og bíður eftir fluginu til Budapest sem lendir um 10 leytið í kvöld.
Þar hafið þið það, þetta tókst með samstilltu átaki og as we say in Iceland you know "þetta reddast". Mórallinn með þessari sögu er nú sá að það er gott að eiga góða að, en það skal tekið fram að Hr. Tobías átti engann þátt í þessari aðgerð, enda er hann ömurlega leiðinlegur maður, sérstaklega í víni.

Svona rétt í lokin þá ætla ég að skella inn myndbandinu um Verslunamannahelgina 2008, njótið vel.

Þar til síðar


Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð