mánudagur, september 22, 2008

Tímans þungi niður.

Jó estét

Sjá dagar koma, ár og aldir líða sagði skáldið forðum en mánuðirnir líða einnig og í dag er einmitt mánuður liðinn síðan ég steig fyrst fæti á ungverska grundu, ungur saklaus drengur frá hjara veraldar. Það liggur kannski í augum uppi að ég hef aldrei verið jafn lengi frá Fróni, 3 vikur var gamla metið. Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér á svona tímamótum, s.s. hvort þetta hafi verið lengi að líða og hvað sé öðruvísi við manns daglega líf, hvers maður saknar og hvort það sé eitthvað sem er betra en heima.

Hefur þetta verið fljótt að líða, tja... ekkert fljótar held ég en að vera heima, enda líður tíminn almennt hratt á gervihnattaöld. Það sem er kannski mesta breytingin á mínu daglega lífi hérna að nú snýst ekki hver einasti dagur ekki um leikinn sem er framundan á fimmtudaginn, og það er mjög sérstakt, en venst alveg örugglega eins og allt annað. Auðvitað saknar maður ýmislegs heiman að, fjölskyldu, vina (nema þá Tobíasar, hann er svo djöfull leiðinlegur) og t.d. þegar ég ligg stundum upp í sófa þá væri ég alveg til í að Breki myndi á mjög lymskulegann hátt troða sér upp í sófa og láta mig klappa sér. En það sem mér finnst kannski skrítnast er að ég er ekki búinn að sjá neitt landslag í heilann mánuð, nema þá í þessi 2 skipti sem ég hef farið upp á Géllert hæð. Maður lítur út um gluggann og sér bara hús og götur. Einmitt þegar ég er í tíma, og þarf eitthvað að láta hugann reika, þá get ég ekki horft á neitt út um gluggann nema skólalóðina og hús, á Hvanneyri gat ég horft út Borgarfjörðin ef ég var í Nýja skóla, nú eða Hauk að leika sér á dráttarvél ef að maður var í tíma út á Bút.

En hvað um það, á laugardaginn fékk ég það á tilfinninguna að eitthvað væri að gerast. Það voru svona heldur fleiri lögregluþjónar- og bílar á ferðinni, og þegar ég ætlaði að komast inn í verslunarmiðstöðina þá var mér meinaður inngangur (sé svo eftir því að hafa bara ekki tekið tjakkinn á lögguna). Svo þegar ég var að labba heim sá ég að það var búið að loka Andrassy götunni, sem er aðalgatan í borginni, þyrlur farnar að sveima og ég veit ekki hvað og hvað. Svo þegar húma tók að kvöldi lagði ég af stað yfir til Ölrúnar og Söndru. Göturnar okkar liggja samsíða, svona nokkurn veginn frá NV til SA og einungis ein gata á milli okkar. Svo þegar ég er kominn á götuna þeirra og tek vinstri beygjuna, þá sé ég að það eru nokkur hundruð svartklæddra manna að nálgast mig, veifandi ungverska fánanum og kyrjandi söngva. Ég gekk í áttina að þeim til að sjá hvort ég kæmist ekki mína leið í gegnum þvöguna..... en þegar ég sá að það voru einhverjir að fremstu mönnum þarna með andlitin hulin ákvað ég að snúa við. Brá ég þá á það ráð að koma inn á Izabellu-götuna aðeins neðar og vera þá vonandi kominn bakvið mótmælin. Það gekk svo sem upp, nema að við gatnamótin þurfti ég að bíða eftir að margir tugir óeirðalögregluþjóna gengu framhjá mér, og þeir gengu bara svona hálfan metra frá mér, fannst það svolítið svalt. Þyrlur sveimandi fyrir ofan með kastar í gangi og ég veit ekki hvað og hvað, og þá datt mér í hug "hva, bara hundar og læti". En ég hafði það loksins að komast mína leið, en verð að viðurkenna að þetta fannst mér lífga ótrúlega upp á lífið og tilveruna.



Set hér inn mynd af hetjutorginu, sem mér finnst vera mjög fallegt.



Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð