mánudagur, nóvember 05, 2007

Verkefni

Það allra leiðinlegasta við verkefni er að það er alltaf ákveðinn skiladagur á þeim. Mun hentugra væri að hafa þetta svona fljótandi svo maður gæti bara gert verkefnin þegar andinn kæmi yfir mann og réttar aðstæður sköpuðust, en það verður nú líklega aldrei þannig.
Fór í partý heima hjá Flake, Allan og Zeko á laugardagskvöldið, og var það bara nokkuð gott. Ómar Ósmann a.k.a. Morten Pedersen var dólgur kvöldsins og veittist meðal annars gróflega að mér, og hafði í hótunum við Áskel sem slapp með naumindum við barsmíðar með því að biðjast vægðar.
Ef mig misminnir ekki eru þeir Danmerkurfarar að lenda í þessum töluðu orðum. Það á ég við Stefán frá Brautarholti, Jóhannes frá Þorleifsstöðum og Tobías í Úthlíð. Það stefndi víst í að laugardagskvöldið yrði kvöld kvöldanna, en hvort sú varð raunin skal ósagt látið.
Ég hef aðeins verið að glugga í bók sem ég keypti í kolaportinu um daginn, en hún fjallar um fyrstu 40 árin í sögu Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, og datt í hug að koma með spurningar á næstunni tengt þeirri úrvalsbók. Mun ég hér með henda fram fyrstu spurningunni.
Nefnið eitt Kaupfélag sem bar heiti sem vísaði ekki til starfsvæðis þess og hvar það var staðsett, þ.e. ekki eins og t.d. Kaupfélag Skagfirðinga sem segir manni náttúrulega að starfsvæði þess er í Skagafirði.
Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð