miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Mjólka vill flytja framleiðslu sína í Borgarnes

Forráðamenn fyrirtækisins Mjólku hafa sýnt áhuga á því að flytja vinnslustarfsemi fyrirtækisins í Borgarnes. Verið er meðal annars að skoða húsnæðið sem Borgarplast var í að Sólbakka með staðsetingu í huga. Að sögn Sigurðar Óla Ólasonar, stjórnarformanns í Mjólku er vinnslan búin að sprengja utan af sér það húsnæði sem hún er núna í að Vagnhöfða í Reykjavík, svo það er farið að há framleiðslugetu fyrirtækisins, enda hefur starfsemin gengið vel, að sögn Sigurðar Óla. Vilji er fyrir því innan fyrirtækisins að færa vinnsluna nær framleiðslunni, þ.e. bændum og því sé ekkert síðri kostur að flytja hana í Borgarnes ef um semst.



„Ég tel að þetta yrði stórt og gæfuríkt spor fyrir alla ef af þessu verður,” heldur Sigurður Óli áfram. „10-14 störf myndu í upphafi fylgja með vinnslunni, þótt sala og dreifing yrði líklega áfram í Reykjavík. Mörg fyrirtæki í Reykjavík hafa einnig sýnt áhuga á því að fara í samstarf eða samvinnu við Mjólku en um slíkt hefur engin ákvörðun verið tekin. Kostnaður er gífurlegur við að flytja svona starfsemi, hvert sem hún fer. Þetta er því ekki einungis háð því hvað við viljum, velvilja Borgarbyggðar þarf einnig til. Engin ákvörðun liggur fyrir en ef af þessum hugmyndum verður myndum við flytja á næstu mánuðum,” sagði Sigurður Óli að lokum.

Heimild: www.skessuhorn.is

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð