miðvikudagur, janúar 24, 2007

Vísnaþáttur nr. 1

Heilir og sælir lesendur góðir.

Ég ætla að fara af stað með vísnaþætti, svona bara af og til, og vil ég hvetja ykkur til að senda mér vísur eftir ykkur eða bara vísur sem ykkur líkar vel við á póstfangið vegagerdin@hotmail.com

Fyrsta vísan er eftir sjálfann Óðinn Gíslason frá Vöglum, og var samin um Agnar á Miklabæ þegar Óðinn var í 10. bekk í Varmahlíðarskóla. Ég er reyndar ekki viss um fyrstu línuna, en Óðinn leiðréttir mig þá bara.

Eitt ég skilið illa fæ,
er það skynjun geggjuð.
Að Maddaman á Miklabæ,
er merkilega skeggjuð.

Fyrir skemmstu voru haldnir tónleikar í Reykholtskirkju, þar sem 2 bræður á Arnarstapa á Mýrum sungu, og fór það fyrir brjóstið á prestum er voru þar staddir, þegar þeir sungu lagið "Sagan af Jesú" eftir þá Baggalútsmenn. Í einni mjólkurferðinni á Mýrunum rakst ég á í einu mjólkurhúsinu vísu um atvikið.

Guðsmennirnir gengu út,
af geðshræringu svitna.
Er bræðurnir í Baggalút,
bljúgir tóku að vitna.

Og í lokin fylgir ein góð eftir Sigurð Breiðfjörð.

Detta úr lofti dropar stórir,
dygnar um í sveitinni.
Tvisvar sinnum tveir eru fjórir,
taktu í horn á geitinni.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð