fimmtudagur, október 25, 2007

Hreyfing á logninu

Já það er sko búinn að vera hreyfing á logninu hér í Borgarfirði síðustu daga, en þetta hlýtur nú að lagast einhvern tímann.

Blakkur hennar Sóleyjar er að ná sér á strik eftir veikindi síðustu daga. Hann fékk veil fyrir hjartað en fór í hjartaþræðingu og ætti að fara að komast á götuna á ný. Það má segja að þau bæði séu að komast í gang því Sóley fór á eitthvað rosalegt líkamsræktarnámskeið um helgina þar sem fólki er kennt að hoppa, kýla og sparka. Hún var nú svolítið framlág eftir helgina en er að komast í sitt gamla form, held samt að ég sé nú ekki gerður fyrir svona því þetta sprikl hentar ekki mönnum sem kæmust í landsliðið í stirðleika.

Ég er að fara heim á morgun, eigum leik annað kvöld á Króknum og það verður víst einhver hátíð því Tindastóll er 100 ára, einmitt á morgun. Farið verður á langferðarbíl og spurning hvort maður grípi ekki í míkrafóninn og segi norðlenskar sveitasögur, þannig að æskilegt væri að fara Vatnsskarðið.

Jæja ég ætla að drífa mig í málmsuðu til Jóa Ellerts

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð