mánudagur, mars 26, 2007

Símatími

Í tilefni þess að ég var að panta mér nýjan síma á netinu þá datt mér í hug að fara yfir glæsta sögu mína í meðhöndlun farsíma.

Fyrsti síminn sem ég fékk í mínar hendur var Ericson lánssími frá pabba en Hlunkur át loftnetið af honum. Sá fyrsti sem ég eignaðist var Nokia 6210 sem ég fékk í jólagjöf. Hann dugði nú ágætlega, en þurfti að vísu að fara í viðgerð 3 sinnum eftir ýmis högg og bank og man ég að Haukur Skúlason hafði einhvern tímann á orði að ég væri oftar með lánssíma úr símbúðinni heldur en minn eiginn síma. Einhverntímann var ég á balli í Sjallanum og týndi símanum en fann hann svo aftur og þá var skjárinn brotinn en ég setti glært límband yfir hann og endist hann í nokkurn tíma eftir það en hann gaf sig að lokum eftir að það hafði komist full mikil drulla meðfram límbandinu.

Þá var ákveðið að splæsa í 3510 og var það nú ágætis sími, nema það að eitt sinn þá lá ég í mestu makindum í sófanum í Víðimýrinni og setti símann ofan á brjóstkassann og fór svo að ég dottaði. Svo hringir blessaður síminn og ég sprett á fætur og síminn tekur flugið og lendir eitthvað harkalega og varð ekki samur upp frá því og endaði með því að hann dó. Reyndar fór hann einu sinni í viðgerð því á vordögum 2003 var ég að þökuleggja fótboltavöllinn heima og það gerði svo mikið moldrok að hann fylltist af drullu og varð ónothæfur.

Ég og Litli-Per vorum einu sinni í ruslatínslu út á Siglufjarðarskriðum og þá fann Per Nokia 6150 sem pabbi notaði í nokkra mánuði en ég tók til við að nota hann eftir að 3510 síminn gafst upp. En svo um sumarið 2004 keypti ég mér Nokia 3200. Hann endist nú ágætlega, varð fljótt drullugur eftir Vegagerðarvinnuna, titrarinn var hættur að virka en gerði sitt gagn. Svo á síðastliðnu Landsmóti Hestamanna þá tókst mér að týna honum og hafði hann þar með lokið þjónustu sinni.

Þá var fjárfest í Nokia 5140 sem keyptur var í Kaupfélaginu. Þetta var svona "iðnaðarmannasími" sem átti nú að þola ýmislegt en mér tókst að finna eitt sem hann þoldi ekki alveg. Á mjólkurbílstjórabuxunum er sérstakur vasi aftan á sem gerður er fyrir síma. Og svo var komið að því að þvo buxurnar og þá tók ég ekki eftir því að síminn var í símavasanum og hann fór með. Var nothæfur eftir þvottinn en hljóðið var að detta inn og út og svo endaði með því að 4-5-6 takkarnir hættu að virka og gafst ég þá upp. En í millitíðinni hafði gamli 3200 fundist og verið sendur til mín og gat ég þá notað hann. Allt þar til að ég þurfti að henda í þvottavélina og hélt á honum í hendinni sem hélt undir fatahrúguna og þegar ég henti hrúgunni inn í þvottavélina þá fékk sá gamli að fljóta með en hann lifði þvottinn alls ekki af.

Því hef ég notast við Ericsson garm sem hún Anna Heiða mágkona mín lánaði mér en þetta horfir nú allt til betri vegar þar sem í lok vikunnar ætti ég að vera kominn með svona Bluetooth Nokia síma með þráðlausu heyrnatóli, svona eins og alvöru atvinnubílstjórar.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð