þriðjudagur, mars 13, 2007

Kæri Egill

Las pistil Egils Helgasonar þar sem hann er eitthvað að belgja sig yfir niðurstöðum könnunar BÍ sem hægt er að skoða hér neðar og í Eldri Mjöltum. Fyrstu setningar pistilsins lýsa greinilegri gremju yfir því að það sé til fólk hér á landi sem líkar vel að búa hér og telur þá samfélagssamsetningu sem við höldum í heiðri, sé af hinu góða.

Egill kemur inn á að stuðningur við landbúnaðarafurðir sé hvergi hærri en hér á landi, en sem dæmi má nefna að í þeim reiknistuðli sem notaður er til þess að bera stuðning saman milli þjóða er ýmislegt ekki tekið inn í sem aðrar Evrópuþjóðir nota sér til að styrkja sinn landbúnað, sem skekkir niðurstöðurnar okkur í óhag. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvað stuðullinn heitir en bendi þá á Harald Benidiktsson frá Vestri-Reyn.

Svo tekur Egill við að moka yfir landbúnaðarafurðirnar og nefnir þar fyrst nautakjötið. Ef hann hefði hundsvit á málinu vissi hann það að íslenski kúastofninn er ekki best til þess fallinn að nota til kjötframleiðslu, og hefur það verið mjög erfitt fyrir bændur að ætla að koma sér upp almennilegum stofnum sökum þess að nautakjötsframleiðsla hefur ekki notið styrkja í gegnum tíðina, sem hefur gert mönnum mjög erfitt að sérhæfa sig í þeirri búgrein.
Á fyrri hluta síðasta árs gerðist það að ráðamenn í Argentínu íhuguðu það alvarlega að minnka útflutning á nautakjöti þaðan til muna til að geta séð sínum eigin innanlandsmarkaði fyrir kjöti. Þetta olli ólgu í Danmörku og ég spyr hvað myndum við gera í slíkri stöðu ef við værum háð þessum aðilum.

Ég veit nú ekki betur en að íslenskir ostar hafi bara þótt nokkuð góðir, og þekki einn mann sem búsettur er í Danmörku sem er ekki í miklum vafa um hvora framleiðsluna hann myndi velja.

Svo fer greyið með mikla rangfærslu þegar hann segir að ekki sé hægt að kaupa afurðir beint af bændum. Sláturfélag Austarlands hefur í um 5 ár starfrækt vefinn austurlamb.is þar sem maður getur keypt lambakjöt beint af nokkrum bændum á austurlandi.

Agli líður greinilega vel í 101 Rvk. Honum líður vel svo lengi sem hann hefur internetið og geti pantað sér flugfar á icelandair.is til framandi landa. Það er mjög gaman að sjá hversu mikið í pirrurnar á honum það fer að til í landinu sé fólk sem vill skilgreina sig sem Íslendinga út frá sínum eigin forsendum, út frá sinni eigin sögu, út frá sinni eigin þjóðarsál og út frá sínu eigin landi. Hann er kannski bara einn af þeim sem vill skilgreina bændur sem fólk sem klæðir sig upp í lopann og gúmmískóna og fer upp á veg og veifar túristunum þegar það heyrir í bíl, ja maður spyr sig.

Þar til síðar.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð