fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Viltu með mér vaka er blómin sofa.

Gott kvöld góðir hálsar.

Þá hef ég snúið aftur til Budapest. Eins og eðlilegt er, þá var frekar erfitt að kveðja Íslands fögru grundir, en þetta verður nú allt gott og blessað þegar ég verð kominn inn í daglegt líf hérna aftur.

Ég var spurður að því hérna úti hvað ég hefði gert í jólafríinu. Svarið var eitthvað á þá leið að ég hefði verið að njóta lífsins með hundunum fram að hádegi, svo horft á 2-3 leiki í háskólakörfuboltanum, farið á æfingu og svo þjálfað drengjaflokkinn. Óskaplega var það nú gott líf. Ekki má nú gleyma því að ég sýndi mig þónokkuð og sá aðra. Sem dæmi þá tók ég svokallað tvennutilboð og skellti mér á þorrablót 2 kvöld í röð, í Lýtingsstaða- og Skarðshrepp. Þar vorum við félagarnir í toppformi, enda toppnáungar. Annari tvennu náði ég um síðustu helgi í Krísuvík. Var að sjálfsögðu kíkt í bæinn bæði kvöldin.

Skemmtilegast var samt eiginlega þegar ég og Ari þurftum að útrétta aðeins á laugardaginn. Verkefnið var að skipta á frystikistu fyrir ísskáp í Elko. Sökum heilsubrests tók það okkur ekki nema 4 tíma, enda átti ég svo sannarlega skilið að fá mér bjór eftir það.

Á leiðinni út þurfti ég að stoppa í Kaupmannahöfn aldrei þessu vant. Hún Ása frænka mín tók á móti mér og bauð mér í heimsókn því ég þurfti að stoppa svo lengi. Þar spjölluðum ég, Ása og Jörgen maðurinn hennar mikið, og drukkum bjór og ákavíti. Ég verð að viðurkenna að þar sem ég hef aldrei á ævinni talað dönsku fyrir utan að panta mér pylsu, þá var mér eiginlega farið að svima eftir að tala samfleytt í 4-5 tíma.... það hefur kannski bara verið bjórinn og ákavítið.

Læt þetta nægja í bili.

Íslandi allt.

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð