fimmtudagur, mars 27, 2008

Í kvöld er ég sigli á sænum....

Sælt veri fólkið

Ég get nú því miður ekki sagt margar sögur af páskunum hjá mér. Ég fór reyndar í fjósið í Þverholtum á Mýrum og hef nú aldrei séð jafn margar mjólkurkýr samankomnar í einu á minni stuttu ævi. Tók eftir því að smiðirnir frá Landstólpa voru ennþá að vinna upp vitleysuna eftir Einar Kára frá því í sumar. Það var Austurrískur dýralæknir með í för og honum fannst einna merkilegast að sjá forystuféð á bænum, var hissa á að þetta kyn hafði ekki verið rannsakað meira.

Fór norður á laugardaginn og laugardags- og sunnudagskvöld voru tekin í það að horfa á bandaríska háskólakörfuboltann, en úrslitakeppnin er farin af stað þar og mikið af skemmtilegum leikjum á að horfa. Fyndið að hugsa til þess að margir af þessum strákum eru 5-6 árum yngri en ég og sennilega munu nokkrir fara að spila í NBA á næsta ári fyrir einhverjar hundruðir milljóna. Finnst það hálf súrrealískt að hugsa til framhaldsskólaáranna og setja mig í þeirra spor, en þegar ég var á þessum aldri var meira hugsað um hvort Land-Roverinn kæmist í lag fyrir næsta ball eða eitthvað álíka gáfulegt.

Ég skora á alla sem hafa möguleika á að skoða trukkinn hans Steingríms sem er loksins kominn á ról, hann er meira brettakantar með bíl heldur en eitthvað annað.

Læt fylgja með skemmtilega mynd sem ég tók um daginn fyrir norðan, greinilega allt klárt fyrir heyskapinn í Lýtingsstaðahreppnum.


Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð