mánudagur, febrúar 25, 2008

Próf

Komið þið sæl, vér heilsum úr Andakílnum á fallegum og björtum vetrardegi.

Ég vil byrja á því að óska Snæfellingum til hamingju með bikarmeistaratitilinn..... og ekki orð um það meir.

Ég skellti mér á þorrablót þeirra Lunddælinga upp í Brautartungu á laugardagskvöldið. Var það hin besta skemmtun en Helgi á Snartarstöðum á tvímælalaust atriði kvöldsins er hann las upp ljóðið "Slappaðu af" sem Flowers fluttu hér um árið. Rúnar Júl og synir sáu um dansiballið og voru bara helvíti þéttir, þó svo að hléin hafi verið 2. Heiðar mágur fór á kostum og hreinlega átti dansgólfið, slíkar voru sveiflurnar.

Ég er nú svona eitthvað að komast á skrið í boltanum, formið var nú ekki alveg upp á 10 þegar ég byrjaði aftur, Sveinbjörn Eyjólfsson kom með þá leiðinlegu staðreynd við mig á blótinu að Skallagrímur er búinn að tapa öllum leikjum síðan ég byrjaði aftur... kannski er betur heima setið en af stað farið. Nei andskotinn.

Það er prófatíð, alveg ágætt að fara í hana eftir strembna önn í skólanum. Ég held ég nefni það í hverri prófatörn hversu merkilegt það er að maður hefur allt í einu svo mikinn tíma til að gera eitthvað annað en að lesa bækur. Það verður reyndar kannski öðruvísi núna þar sem prófin eru fleiri en venjulega. Svo þegar þau eru búin tekur við lokaverkefnið og einn áfangi í landbúnaðarbyggingum... mikið óskaplega verður það ljúft.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð