þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Allt á floti... í Bakkakoti hahaha

Jú góðann dag

Svolítið þreyttur þriðjudagur að hefjast. Ég fór norður í gær, með þeim tilgangi að heimsækja 2 bæi og það sem merkilegra var, að sækja Höfðingjann og fara með hann suður til að láta lækna hann. Ég fékk því lánaðann Jaxlinn hans Baldurs og kom að Syðstu-Fossum rétt fyrir 7 til að sækja kerruna hans Unnsteins. Það gekk nú heldur brösulega að komast af stað því kerran var föst í bremsu, en með hjálp WD-40 og þolinmæði þá losnaði bremsan fyrir rest. Ég skellti mér svo niður í Nesið til að setja olíu á Hrútinn og ætlaði svo Borgarhreppinn norður. En nei þegar ég kom í Borgarnes komst ég að því að vegurinn við Svignaskarð var farinn í sundur þannig að ég þurfti að fara til baka og fara norður Borgarfjarðarbrautina.

En norður komst ég, heimsótti 2 góðbændur og skellti Höfðingjanum svo upp á kerruna og hélt af stað. Þar sem ég fór aldrei upp fyrir 70 þá tók það mig um 6 tíma að komast til Reykjavíkur, með smástoppi í Múlakoti að vísu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það að Höfðinginn hafi nú einhvern tímann verið sneggri á milli Skagafjarðar og Reykjavíkur, en það er nú önnur saga.

En Höfðinginn er sem sagt kominn inn á göngudeild og verður því vonandi kominn á götuna innan tíðar.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð