mánudagur, janúar 07, 2008

Mánudagur til mæðu

Þetta byrjaði sem góður dagur, ég gekk út í morgunsárið, horfði yfir Andakílinn og mynni Lundarreykjardals. Veðrið var stillt, með hvítri föl yfir foldinni. Gamli Sorrý Gráni var ræstur og malaði undursamlega að vanda. För okkar var heitið á Hvanneyri þar sem lá fyrir að taka upptökupróf í dýrafræði hryggleysinga. Ég hitti Steingrím upp á loftinu í Nýja-Skóla. Hann var eldrauður og nývaknaður og gott að sjá að þessar helstu stoðir í tilverunni breyttust ekki í jólafríinu.
Prófið gekk eins og í sögu, hver fróðleikurinn af öðrum um krabba, lindýr og æxlun ánamaðka spratt fram af blýpennanum. Það gekk einnig vel að halda árámótaheitið mitt sem er að verða skipulagðari á nýju ári og varð margt úr verki fram eftir degi. Ég og Sóley héldum svo síðdegis í höfuðborgina, því meiningin var nú að hitta sérfræðing út af fætinum á mér.
Ég byrja á því að fara í móttökuna í röntgendeildinni í Orkuhúsinu, skrái mig þar inn og fæ svo að fara á snyrtinguna meðan ég bíð eftir því að vera kallaður inn. Þegar ég kom til baka af snyrtingunni þá var konan í móttökunni ekki á svæðinu, en kemur eftir smástund, horfir undrandi á mig og segir ,,hva, bara búinn?". Þar sem ég var ekki viss hvort hún ætti við klósettferðina eða myndatökuna þá ákvað ég að þegja og bíða eftir nánari útskýringu, hún átti víst við myndatökuna.
Eftir myndatökuna fór ég upp á fimmtu hæð til að hitta sérfræðinginn. Hann var kominn með myndirnar í tölvuna sína og fer að sína mér þær. ,,Já þetta lítur bara vel út, grær allt saman rétt og vel", fór þá að lyftast brúnin á mínum og brosið orðið ansi breitt. Síðan leggst ég á bekkinn og Sérfræðingurinn spyr hversu langt er síðan ég brotnaði. ,,Rétt rúmar sex vikur" svara ég og hann svarar strax ,,já svona stutt", eitthvað dofnaði brosið en ég var engann veginn undirbúinn fyrir það sem kom næst:

,,Þú verður orðinn góður eftir sex vikur"

Sex helvítis vikur var staðreyndin, en lítið hægt að gera en að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Þetta er víst bara standard tíminn fyrir svona brot. Blóm og kransar eru afþakkaðir en þeir sem vilja minnast mín geta gefið mér pening svo ég geti keypt mér eitthvað skemmtilegt.

Boðskapurinn er: Aldrei að tala við þessa sérfræðinga fyrir sunnan.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð