miðvikudagur, janúar 30, 2008

Nú er það svart, allt orðið hvítt

Komið þið öll blessuð og sæl

Ég er staddur hér út í gamla skóla og horfi út um gluggann, og sé alhvítann Borgarfjörðinn þá kemur mér til hugar að Baldur í Múlakoti fékk fiðring í gær og keypti sér vélsleða. Þegar ég frétti af þessu fór ég að rifja upp hvenar ég prófaði vélsleða síðast. Það var nú einhvern tímann er ég bjó á Sólheimum, því þegar Arnar var á grunnskólaaldrinum hafði hann mikla dellu fyrir vélsleðum, ásat Kobba á Borgarhóli og Dóra á Kúskerpi.

Einn af sleðunum sem hann átti var Polaris 340. Einhvern daginn þegar ég og Mæja vorum komin heim á undan Arnari (þá vorum við í Akraskóla, hann í Varmahlíðarskóla) þá fengum við þá mögnuðu hugmynd að stela sleðanum og fara á honum niður á stóru sléttu og þenja aðeins. Ég man ennþá hvað mér þótti ótrúlega gaman að botna sleðann fram og aftur um túnið. Ég man líka ennþá hversu ofboðslega hræddur ég var þegar við föttuðum að við höfðum gleymt að fylgjast með tímanum og sáum að Arnar var kominn heim úr skólanum. Sú hræðsla var ekki ástæðulaus því við fengum frekar miklar skammir frá stóra bróðir þegar við dóluðum heim að bæ skömmustuleg, ekki var Polarisnum stolið oftar þennann veturinn.

Svona þegar litið er til baka skilur maður það svo sem alveg, ekkert mjög gáfulegt að 8 ára drengur sé að þeysa svona um grundir, hjálmlaus í þokkabót með 10 ára gamla systur sína aftan á.

En þetta var rosalega gaman meðan á því stóð.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð