mánudagur, janúar 21, 2008

Þeytingur

Góðann daginn og gleðilega vinnuviku

Það er búinn að vera hálfgerður þeytingur á mér síðan síðast, byrjaði á því að vera fyrir norðan um þarsíðustu helgi, til hvers, jú auðvitað að skoða kýr. Lokaverkefnið mitt hér í skólanum gengur út á að ég fari í Skagfirsk fjós og skoði kýrnar þar. Það sem var einnig skemmtilegt við þessa ferð var að ég skrapp á leik hjá mínum gömlu félögum á föstudagskvöldinu, og ef mér skjátlast ekki þá var þetta fyrsti meistaraflokksleikur Tindastóls sem ég horfi á úr stúkunni á Króknum síðan vorið 1999, því árið eftir þá var ég á ritarborðinu ásamt Matta Rúnars og svo var maður kominn á bekkinn eftir það.

Skaust svo dagsrúnt á fimmtudaginn síðasta, fór á Hól í Sæmundarhlíð og Marbæli, þar sem ég sýndi gamalkunna takta og gleymdi stígvélunum mínum á Marbæli, vel gert Axel.

Á föstudaginn fór ég til Reykjavíkur að taka enskupróf og á laugardaginn var komið að því að fara á suðurlandið, því ég og Sóley áttum pantaðann kvöldverð og gistingu á Hótel Rangá. Sú upplifun var mjög góð, að sjálfsögðu stóð lambakjötið upp úr eins og við var að búast, og að ég fékk bjórinn minn frítt. Á sunnudaginn ákváðum við að taka smá rúnt í Fljótshlíðina, því Steingrímur sagði mér að þar væri fegursta sveit suðurlandsundirlendisins og þótt víðar væri leitað. Í stuttu máli þá var Fljótshlíðin svona..... já hún var bara eins og hún er. Við skulum allavega segja að ég skil núna af hverju Steingrímur er svona flatur og leiðinlegur í skapinu.


Eitthvað segir mér að JR hafi verið aðeins kenndur þegar hann kommentaði undir síðasta póst en ef hann kemur með eina línu í viðbót þá skal ég reyna að botna þetta fyrir hann:)

Læt fylgja með mynd af svartsíðóttri kú.

Þar til síðar

Íslenskur landbúnaður fyrir sjálfstæða þjóð